Ræða formanns

Góðir félagar!
Í dag eru tímamót. Við rekum smiðshöggið á vandaða vinnu við stefnumótun og hefjum kosningabaráttuna. Það er gaman að vera hér í dag og finna kraftinn, ákafann og gleðina sem hér ríkir. Á tímamótum er viðeigandi að staldra við og spyrja grundvallarspurninga:
Hvers vegna erum við hér?
Hvert ætlum við?
Hvernig ætlum við að komast þangað?
Svörin við fyrstu spurningunni eru kannski jafnmörg og við sem hér erum. Í flokki sem byggir á því að farsælast sé að fólk hugsi fyrir sig sjálft og taki sínar eigin ákvarðanir hlýtur svo að vera. En ég get sagt hvers vegna ég er hér. 
Ég er hér vegna þess að ég á mér draum. 
Ég á mér draum um Ísland þar sem leikreglurnar eru þær sömu fyrir alla.
Ísland þar sem allir njóta sanngjarns afraksturs af sameiginlegum auðlindum.
Ísland þar sem jafnrétti gildir á öllum sviðum. 
Ísland þar sem landsmönnum er ekki skipt í lið eftir búsetu, kyni, aldri, menntun, stjórnmálaskoðunum eða eignum. 
Ísland þar sem við hlúum að okkar menningu en erum fordómalaus gagnvart öðrum menningarheimum.
Ég á mér draum um að geta með stolti sagt: Við skiluðum betra Íslandi en við tókum við.
Við eigum öll okkar drauma. Við getum beðið með hendur í skauti eftir að þeir rætist eða beðið eftir því að einhver annar uppfylli þá.
Ég er hér í dag vegna þess að það ætlar enginn annar að breyta kerfinu þannig að minn draumur rætist.
Ástæðurnar fyrir fyrir því að við erum hér kunna að vera margar, en nú höfum við ákveðið að fara sömu leið. 
Við ætlum að skora kerfið á hólm og gera á því grundvallarbreytingar. Frelsi og jafnrétti á öllum sviðum verða okkar leiðarljós.
— 
Kannski hafa aldrei verið betri aðstæður til þess að gera breytingar á kerfinu. Ná sátt um höfuðatvinnugreinar, sátt sem er okkur öllum mikilvæg. En í sáttinni verður að felast sanngirni í garð neytenda, sanngirni í garð almennings.
Vaxtaútgjöld íslenskra heimila og fyrirtækja eru margföld á við það sem þekkist í nágrannalöndum. Algeng vaxtaútgjöld af óverðtryggðum húsnæðislánum eru milli hundrað og hundrað og fimmtíu þúsund krónur á mánuði. Flestir átta sig á því að sökudólgurinn er krónan sem kallar á miklu hærri vexti en stærri og sterkari myntir. Ný mynt verður ekki tekin upp á augabragði, en svar okkar er að festa gengi krónunnar við erlendan gjaldmiðil með svonefndu myntráði. Þetta hafa margar þjóðir gert. Í kjölfarið lagast vaxtastigið hratt í átt að myntinni sem miðað er við. 
Ef vextir lækka um helming við þetta, bætum við afkomu ungs fólks stórlega. Vaxtalækkunin gæti numið sem svarar eitt hundrað þúsund króna launahækkun á mánuði. Á sama tíma eflast fyrirtækin og frumkvöðlar eiga auðveldara með að hrinda sínum hugmyndum í framkvæmd.
Við Íslendingar erum heppin þjóð. Allt í einu ákvað makríllinn að synda á Íslandsmið og ferðamenn streymdu að eftir að Eyjafjallajökull auglýsti landið með eftirminnilegum hætti. 
Góðærið gekk í garð, en það heimsótti ekki alla. Á vinnumarkaði var ákveðið að hækka lægstu laun sérstaklega, en stórir hópar fólks í landinu sitja eftir. Stór hluti lífeyrisþega er með tekjur undir lægstu launum. Stefna Viðreisnar er skýr: Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. 
Við ætlum ekki að banna fólki að vinna þó að það ná ákveðnum aldri og við viljum draga úr skerðingu lífeyris vegna annarra tekna. Við viljum sannarlega hjálpa þeim sem hjálpa sér sjálfir.
Viðreisn heilbrigðiskerfisins er löngu tímabær. Við ætlum að ljúka nýjum Landspítala við Hringbraut árið 2022. Tími deilna um málið er liðinn og tími aðgerða runninn upp. Á sama tíma þurfum við að styrkja heilbrigðisþjónustu um land allt með samvinnu heilbrigðisstofnana.
Traust almennings á Alþingi er lítið. Aftur og aftur hrista menn höfuðið yfir vinnubrögðum og störfum alþingismanna. En er það skrítið að þjóðin beri litla virðingu fyrir þingmönnum þegar þingmenn bera enga virðingu fyrir þjóðinni. Það voru ekki nema liðlega 10% þingmanna sem stilltu sér upp við hlið neytenda þegar úrelt landbúnaðarkerfi var fest í sessi til tíu ára. Það voru reyndar ekki nema 30% þingmanna sem studdu búvörusamninganna með jái. Sumir sátu hjá, að sögn vegna þess að þeir voru á móti samningunum, aðrir sátu hjá vegna þess að þeir styðja samningana. Loks var stór hluti þingmanna úti í bæ að gæða sér á peruköku.
Er furða þó að almenningi blöskri? Ég sé að sumir vinir okkar tala um Viðreisn sem mögulegt þriðja hjól undir vagni ríkisstjórnarflokkanna. En ríkisstjórnin þarf greinilega ekkert þriðja hjól. Hún hefur þegar þriðja hjólið og það fjórða. Meira að segja varadekk þegar kemur að því að vernda kerfið.
— 
Góðir félagar! Hvað er Viðreisn? Keppinautar okkar keppast við að festa á okkur merkimiða. Við erum litli Sjálfstæðisflokkurinn hjá sumum og stóra Samfylkingin hjá öðrum. 
En staðreyndin er sú að Viðreisn er Viðreisn og ekkert annað.
Margir spyrja líka til hvaða flokka við ætlum að sækja fylgi. En við ætlum alls ekki að sækja fylgi til flokka heldur til þjóðarinnar – til kjósenda. Flokkarnir eiga ekkert fylgi, þó að mörgum þeirra þyki það súrt í broti..
Þegar menn áttuðu sig á því að Viðreisn var alls ekki eins máls flokkur, heldur flokkur með frjálslynda stefnu á öllum sviðum kom nýr tónn. Viðreisn væri að hlaupa frá stefnu sinni í Evrópumálum.
Hannes Pétursson félagi okkar segir í ljóðinu Ísland: 
„Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar.“
Evrópa endar á Íslandi eða kannski byrjar hún hér. Vissulega vilja flestir stuðningsmenn Viðreisnar að við ljúkum umsóknarferlinu að Evrópusambandinu með hagstæðum samningi sem borinn verður undir þjóðina. En þetta er einfaldlega svo stór ávörðun að best fer á því að þjóðin sjálf taki hana í sameiningu. Þess vegna viljum efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald umsóknarferlisins. Segi þjóðin já, höldum við áfram og vinnum að besta mögulega samningi fyrir Ísland. Segi hún nei hefur meirihlutinn ákveðið að fækka möguleikum Íslands í framtíðinni og við munum hlíta því.
Þetta er nákvæmlega sama stefna og núverandi stjórnarflokkar studdu fyrir síðustu kosningar. Það breytir engu hve oft menn segjast hafa útskýrt málið og þræta fyrir fortíðina. Þó að minni stjórnmálamanna sé brigðult gleyma félagarnir Gúgúll og Jútúb engu.
Loforð er loforð er loforð – og loforðið var svikið. Allir voru sviknir, hvort sem þeir vildu halda viðræðum áfram eða jarða ferlið. 
— 
Kæru félagar!
Við finnum mikinn meðbyr. Málflutningur okkar fær góðar viðtökur hjá þjóðinni. Við teflum fram sterkum listum með frambærilegum einstaklingum, konum og körlum til jafns. Þessi árangur hefur náðst með geysilegri vinnu fjölmargra einstaklinga sem hafa lagt hönd á plóginn og fyrir það er ég þakklátur. 
Dag eftir dag og kvöld eftir kvöld er skrifstofan við Ármúla iðandi af lífi fólks sem ræðir og mótar stefnuna, fræðist í opnu húsi, hringir út eða styður starfið með öðrum hætti. Án þessa hóps væri engin Viðreisn. 
Ungliðahreyfingin, málefnahóparnir og starfsmenn á skrifstofu hafa unnið óeigingjarnt starf og fyrir það þakka ég af heilum hug. En starfið er rétt að byrja. Fram að kosningum eru fimm vikur. Á þeim tíma reynir á okkur frambjóðendur með fundahöldum um allt, en ekki síður á ykkur hin, kæru félagar, að fá sem flesta til liðs við Viðreisn og hennar málstað. Á vinnustöðum, í vinahópum og jafnvel í heitu pottunum.
Meðbyrinn er uppörvandi, en við megum ekki fyllast hroka eða sigurvissu. Það liggur í loftinu að kosningarnar 29. október gætu markað tímamót í íslensku þjóðlífi. En það gerist ekki nema Viðreisn vinni glæsilegan sigur. Markmiðið er að framtíðin hefjist á Íslandi 30. október. 
Leggjumst öll á eitt að tryggja að svo verði. Við megum sannarlega ekki hugsa eftirá að við hefðum getað vakað lengur og verið betri hvort við annað.