Viðreisn hagkerfisins – Lægri vextir og stöðugt gengi

Fastgengisstefna er fljótvirkasta leið til stöðugleika í efnahagskerfinu og vaxtalækkunar hér á landi, fólki og fyrirtækjum til hagsbóta. 

Mörgum verður tíðrætt um góðærið, en þegar betur er að gáð upplifa mörg fyrirtæki hvorki stöðugleika né hagsæld heldur þvert á móti hríðfallandi vöruverð og versnandi samkeppnisstöðu. Gengi krónunnar styrkist dag frá degi og sjávarútvegsfyrirtækin og ferðaþjónustan fá 12% færri krónur fyrir evrur en um áramót og 27% færri krónur fyrir bresku pundin. Á móti innlendum launahækkunum fá fyrirtækin tekjulækkun. Auk þess borga þau svo miklu hærri vexti en samkeppnisaðilar handan hafsins. Allir sjá að þetta leiðir í óefni, en Viðreisn er eini flokkurinn sem kemur með lausn vandans.

Lausnin

Lausnin felst í því að festa gengi krónunnar, annaðhvort við gengi ákveðins gjaldmiðils (miðil kjarnaríkis) eða myntkörfu. Gengið má þá aðeins hreyfast innan þröngra marka og Seðlabankinn fær það hlutverk að halda því stöðugu. Árið 2012 fjallaði bankinn um svonefnt myntráð í mikilli skýrslu sinni um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Hér er vitnað til þeirrar skýrslu.

Fast gengi „hefur ýmsa kosti ef stjórnvöld hafa vilja og getu til að stýra efnahagsmálum þannig að þau styðji við gengismarkmiðið. Gengissveiflur minnka að jafnaði ásamt því að aðhald og trúverðugleiki innlendrar hagstjórnar getur aukist þar sem kjarnaríkið tekur í raun yfir innlenda peningastefnu.“

Hvers vegna lækkar myntráð vexti?

Mörg ríki hafa valið þá leið að verja gengisstefnu sína með því að koma sér upp stórum gjaldeyrisforða. Lesum áfram: „Við það að taka upp gengismarkmið við skilyrði frjálsra fjármagnshreyfinga er að því leyti ekki lengur um sjálfstæða innlenda peningastefnu að ræða, þ.e. ekki verður hægt að beita innlendu vaxtastigi til að bregðast við innlendum efnahagsskellum. Innlendu vaxtastigi verður því eingöngu beitt til að tryggja framgang gengismarkmiðsins og í raun ákvarðast þá innlent vaxtastig af vaxtastigi kjarnaríkisins. Ef verðbólga kjarnaríkisins er lítil og peningastefna þess trúverðug, má segja að hægt sé að flytja inn trúverðugleika peningastefnu kjarnaríkisins með trúverðugu gengismarkmiði.“

Lækkun vaxta

Enn fremur segir: „Árangursríkt gengismarkmið gæti þannig leitt til lækkunar verðbólguvæntinga og hjöðnunar verðbólgu og þar með til lækkunar innlends nafnvaxtastigs.“ Stöðugleikinn er því ekki það eina sem myntráðið áorkar. Vextirnir, sem eru miklu hærri á landi en í nágrannalöndum, myndu lækka. Útgjöld þeirra sem eru að kaupa íbúð lækka um tugi þúsunda á mánuði hverjum. Fyrirtækin keppa við erlenda samkeppnisaðila nær jafnréttisgrunni og vaxtagjöld ríkis og sveitarfélaga lækka og geta farið í þarfari málefni.

Föstu gengi með myntráði fylgja ýmsir kostir:

1. Stöðugleiki í gengismálum

2. Minni hagsveiflur.

3. Verðbólga verður í takt við kjarnaríkið.

4. Vextir lækka í átt að alþjóðlegum vöxtum.

5. Samkeppnishæfni fyrirtækja eykst.

6. Hagur heimilanna batnar.

7. Ríkið borgar minna í vaxtagjöld.

Myntráð er auðvitað ekki töfralausn sem leyfir óráðsíu og gáleysi heldur krefst það þvert á móti agaðrar hagstjórnar og samráðs allra hagsmunaaðila.

Ábyrgð og áhætta

Um fast gengi þarf að nást víðtæk samvinna milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Ríkissjóður þarf að vera í jafnvægi og launahækkanir mega ekki verða umfram það sem gerist í kjarnaríkinu. Þetta kallar því á mikinn aga í hagkerfinu, en fellur vel að hugmyndum um svonefnt SALEK-samkomulag.

Miklu skiptir að stefnan hafi trúverðugleika og hætta á spákaupmennskuárásum sé lágmörkuð. Þá tapast hagstjórnartæki þegar ekki er lengur hægt að reka sjálfstæða peningastefnu. Margir telja reyndar að það sé einmitt kostur við myntráð. Kostnaður fylgir því að viðhalda stórum gjaldeyrisforða, en hann er nú að verðmæti um 700 milljarðar króna, sem líklega er nóg. Með lækkandi vöxtum myndi sá kostnaður minnka.

Myntráð er fljótvirkasta leið að gengisstöðugleika sem Íslandi stendur til boða. Við eigum ekki að bíða með leið sem leiðir til lægri vaxta. Stígum fyrstu skrefin strax með myntráðsleið Viðreisnar.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. október 2016