Fegurðin er í frelsinu

Frú forseti,

hér í þessum sal ræðum við oft málefni liðinna tíma. Við Íslendingar erum söguþjóð og stundum er einn tilgangurinn með því að ræða það sem liðið að breyta sögunni. En þó að sagan breytist er fortíðin óbreytt.

Þó að við séum stundum föst í fortíðinni er algengara að talað sé um líðandi stund og þá framtíð sem blasir við á næstu misserum—eða í besta falli á kjörtímabilinu. Auðvitað er slík umræða þörf og nauðsynleg, því að núið er sá tími sem við lifum í hverju sinni. Í núinu er stundum svartnætti, stundum góðæri. Okkur hættir til reikna með því að núverandi ástand vari um alla framtíð, þó að reynslan kenni okkur að það er einmitt ekki svo.

Hvernig verður framtíðin? Þá velti ég ekki fyrir mér morgundeginum eða árinu 2020 heldur spyr ég: Hvernig verður staðan eftir 30 ár eða 50 ár? Vandi er um slíkt að spá, og það eina sem við vitum er að slíkir spádómar verða í mörgum atriðum rangir. Sem stjórnmálamenn eigum við samt ekki að vera rög við að velta framtíðinni fyrir okkur.

Ef við miðum ákvarðanir okkar út frá því sem liðið er, verður útkoman röng, sérstaklega þegar allt tengist saman á einn eða annan hátt. Hvaða áskoranir bíða handan hornsins?

Hvernig verður Ísland árið 2050? Þangað til er aldarþriðjungur. Getum við þá sagt að við höfum gengið til góðs? Fyrir réttum 25 árum ræddu alþingismenn það hvort Ísland ætti að slást í för með öðrum ríkjum Vestur-Evrópu með inngöngu á Evrópska efnahagssvæðið. Sitt sýndist hverjum, en nú eru flestir sammála um að það við eigum þeim framsýnu alþingismönnum mikið að þakka sem samþykktu aðild Íslands að fjórfrelsinu og sameiginlegri löggjöf Evrópusambandsins á flestum sviðum. Þá voru tryggð réttindi Íslendinga á EES-svæðinu og annarra íbúa svæðisins hér. Þá voru 2% landsmanna erlendir ríkisborgarar.

Þessi ákvörðun breytti miklu. Um aldamótin voru um 5% mannfjöldans á Íslandi fædd utan landsteinanna. Árið 2007 voru það 10% og nú eru það 14%. Einn af hverjum sjö landsmönnum er fæddur erlendis. Hvernig verður það árið 2050? Verður það fjórðungur eða helmingur? Hvaða áhrif hafa slíkar breytingar á samfélagið?

Við Íslendingar höfum að mörgu leyti verið frjálslynd og opin, þó svo að það hafi ekki alltaf verið svo. Fyrir aldarþriðjungi hrökkluðust landar okkar úr landi vegna kynhneigðar sem var fordæmd. Nú flykkist stór hluti þjóðarinnar á vettvang þegar hinsegin fólk heldur sína gleðigöngu og allir gleðjast með.

Í mörgum löndum leiddi hrunið til þess að upp spruttu flokkar haturs og fordóma. Við Íslendingar höfum að mestu verið laus við slíka hópa og þeir hafa enn sem komið er ekki náð neinni fótfestu. En þegar við lítum til Bandaríkjanna, kyndilbera lýðræðisins í heiminum stærstan hluta 20. aldarinnar, þá sjáum við hvað hefur gerst og það gæti líka gerst hér.

Það er jákvætt að fólk líti á Ísland sem land tækifæranna. Það er jákvætt að Ísland sé frjálslynt og opið—og við verðum að tryggja að svo verði áfram.

Frú forseti,

sveitarfélögin á Íslandi eru núna meira 70 talsins. Sum eru agnarsmá, jafnvel með tugi íbúa, en þau hafa sömu skyldur og höfuðborgin með tæplega 125 þúsund manns. Við hljótum að sjá miklu stærri heildir og verðum að sjá miklu stærri heildir. Ég sé fyrir mér að Austurland, Vestfirðir og Suðurnes verði sterk sveitarfélög þar sem horft verði á hagsmuni allra íbúa við stjórnun.

Viðreisn talaði fyrir því að auðlindagjald í sjávarútvegi rynni til þeirra svæða þar sem sjávarauðlindin er nýtt. Með stærri heildum geta sveitarfélög með þessu móti stýrt fjármunum til uppbyggingar á heimaslóð.

Góðir Íslendingar!

Tæknin er undirstaða framfara og upplýsingar eru grunnur að skynsamlegri ákvarðanatöku. En hvernig gat það gerst á tækniöld, þegar við höfðum tölvur með meiri reiknigetu en nokkru sinni fyrr og ítarlegri upplýsingar en nokkru sinni áður, að snjallasta fólk heims kom okkur í verri kreppu en við höfum kynnst frá seinni heimstyrjöldinni?

Við keppumst við að koma í veg fyrir annað hrun, en næsta bankakreppa verður eflaust ekki eins og sú síðasta. Tæknin getur hjálpað okkur, en hún getur líka steypt okkur í glötun. Veikleikinn verður alltaf mannlegi þátturinn þar sem freistingar eru margar og ágirnd þeirra sem eiga eiga meira en nóg er oft gengdarlaus. Hér megum við í þessum sal ekki sofna á verðinum.

Að undanförnu höfum við séð heiftúðlegri veðurofsa en við minnumst áður. Loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa áhrif um allan heim. Við getum ekki setið hjá. Okkur ber að stuðla að því að minnka notkun mengandi orkugjafa og tökum nýrri rafbílatækni fagnandi. Við megum ekki hugsa um skammtímahagsmuni og þaðan af síður megum við stinga höfinu í sandinn og afneita vísindunum sem lýsa loftslagsbreytingunum og orsökum þeirra.

En tæknin hefur víða áhrif. Kannski verða allir bílar sjálfkeyrandi þá. Og þegar sjálfkeyrandi bílarnir koma, verður ökupróf ekki óþarft með öllu? Ef samhengi hlutanna er svo flókið að loftslagsmál hafa áhrif á fyrirkomulag ökukennslu, er þá nokkuð hægt að spá fyrir um hvernig jarðlífið verður árið 2050?

En stóru drættirnir eru ljósir. Vélvæðing dregur úr þörf fyrir mörg störf en eykur þörfina á hugaraflinu, skapandi vinnubrögðum og innsæi. Menntakerfið hefur til dæmis reynt að líta til framtíðar. Við öll verðum studd til sjálfsnáms og sjálfstæðis, studd—og neydd—til að læra á tæknina og umgangast hana á ábyrgan máta.

Í upphafi vikunnar var opnaður lítill vefur, Opnirreikningar.is, og birtir reikninga sem ráðuneytin hafa greitt. Með því að fara inn á þann vef geta allir sem vilja séð í hvað skattpeningarnir fara. Einhverjum stjórnmálamönnum kann að þykja þetta óþægilegt, en skattgreiðendur eiga heimtingu á að vita í hvað peningar þeirra fara.

Lífið snýst ekki bara um framleiðni og hagvöxt, krónur og viðskiptaafgang. Fegurðina og tilgang lífsins er ekki að finna í peningakassanum. Listir og menning, útivera, samskipti og vinátta gefa lífinu gildi og lit. Fegurðin er í frelsinu.

Viðreisn hlaut stuðning þjóðarinnar til að vinna að frjálslyndismálum, kerfisbreytingum í þágu neytenda, málum jafnréttis og réttlætis. Við höfum látið hendur standa fram úr ermum og höldum áfram að búa í haginn fyrir framtíðina.

Mörgum finnst hægt ganga en þá minni ég á karlinn sem fór með sína æðruleysisbæn: “Góði guð, gef mér þolinmæði. Strax!” Róm var ekki byggð á einum degi og viðreisn samfélagsins tekur tíma. Hin efnahagslega viðreisn hefur gengið vel eftir hrun og þar hafa stjórnmálamenn í mörgum flokkum lagt hönd á plóg. Samfélagslegu viðreisninni er ekki lokið, en hún tekst með heilindum og gagnkvæmu trausti.

Góðir landsmenn!

Við skulum taka framtíðinni óhrædd, en verum vel undirbúin.

Ræða Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra og formanns Viðreisnar, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 13. september 2017.