Ekki stætt á því að vera áfram Alþingismenn vegna Klaustursmálsins

Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar telur þeim þingmönnum sem tóku þátt í slæmu umtali á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn ekki lengur stætt á því að starfa áfram á Alþingi. Þetta sagði hún í Silfrinu á RÚV í morgun.

„Þegar litið er til þeirra kvenna á þingi sem þeir töluðu um, þeirra kvenna úti í þjóðfélaginu, minnihlutahópa, þjóðarinnar allrar og virðingu Alþingis þá sé ég ekki, persónulega, að þessum mönnum sé stætt áfram á Alþingi.“

Hanna Katrín segist gera sér grein fyrir því að enginn annar en þingmennirnir sjálfir geti tekið ákvörðun um að víkja en þetta sé hennar persónulega skoðun.

Hanna Katrín segir það skjóta skökku við að hlusta á kvenfyrirlitningartal á Klaustursupptökunum á sama tíma og þjóðin hefur verið glöð og stolt yfir því að vera í fararbroddi í jafnréttismálum.

„Þetta er bara rothögg“

„Við höfum verið að leiða „He for She“. Þetta hefur verið flaggskipið í íslensku utanríkisþjónustunni undanfarin ár og við hlotið lof fyrir. Þarna ætluðu karlmenn að standa upp og yfirgefa ef þeir heyrðu aðra karlmenn tala svona. Þetta er bara rothögg. Það er bara ekkert hægt að lýsa því öðruvísi,“ segir Hanna Katrín.
 

Orðræðan hafi verið kynferðisleg með ofbeldisívafi

Hann Katrín segir að orðræðan á Klaustursupptökunum hefði verið „kynferðisleg og með einhverju ofbeldisívafi“. Orðræðan væri alvarlegt og þyrfti að stoppa.

„Í þessu tilfelli og við þær aðstæður sem voru uppi og þau orð sem voru látin falla; þessi særandi, meiðandi, ljóta orðræða um samþingmenn, um konur almennt, um minnihlutahópa af hálfu fólks sem eru kjörnir fulltrúar, sama fólks og á að vera að gæta hagsmuna þess, sem á að leiða þjóðina, sem eru að kalla eftir virðingu og kvarta undan virðingarleysi,“ segir Hanna Katrín sem lýsir upplifun sinni af atburðunum.
 

Kristallast þörfin fyrir #Metoo

Hún hafi verið algjörlega uppgefin eftir að hafa marglesið allar fréttirnar um málið. Hanna Katrín sagði þá talsmáta þingmannanna sex sem sátu að sumbli á Klausturbarnum kristalla þörfina fyrir #Metoo byltinguna.

Hanna Katrín segist hafa unnið vel með öllum þeim þingmönnum sem eiga í hlut í Klaustursupptökunum og því sé það enn erfiðara fyrir hana að segja sína meiningu sem er sú að þingmönnunum sé ekki stætt á því að halda áfram á Alþingi.

 

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. Greinin birtist á Visi.is 2. desember 2018.