Fjölgun á hneykslunar­hellunni

Trump Bandaríkjaforseti hneykslast meir en flestir á falsfréttum. Forystumenn Miðflokksins eru stundum gáttaðir á lýðskrumi. Í síðustu viku tylltu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sér þægilega á þessa hneykslunarhellu. En ekki endilega óvænt.

Tilefnið var beiðni okkar um að sjávarútvegsráðherra skilaði skýrslu til Alþingis um samanburð á heildargreiðslum Samherja í Namibíu fyrir tímabundinn veiðirétt og síðan veiðigjaldi samkvæmt íslenskum lögum. Ég hefði ætlað að í flestra augum væri athugun af þessu tagi sjálfsögð upplýsingaöflun í þágu þeirra sem eiga auðlindina.

Upplýsingar eru grundvöllur rökræðu

Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld gert samanburð á greiðslum fyrir veiðirétt í ýmsum löndum. Þetta hafa menn gert þótt aðstæður væru mismunandi frá einu landi til annars. Af sjálfu hefur leitt að menn hafa dregið mismunandi ályktanir af slíkum upplýsingum. En fram til þessa hefur engum dottið í hug að halda því fram að upplýsingarnar einar og sér væru lýðskrum.

Upplýsingar eru grundvöllur rökræðu. Umræðan um þær getur verið misjafnlega málefnaleg. Og eðlilega geta menn dregið ólíkar ályktanir af sömu upplýsingum eftir stjórnmálaskoðunum. Það er bara umræða sem þarf að standast próf kjósenda.

Í þessu tilviki vill svo til að Ríkisútvarpið birtir upplýsingar um greiðslur íslensks fyrirtækis fyrir veiðirétt í öðru fjarlægu landi. Íslensk löggjöf verndar upplýsingabirtingu af þessu tagi vegna almannahagsmuna. Um leið eru það almannahagsmunir að slíkar upplýsingar séu nýttar. Réttarvörslukerfið gerir það fyrir sitt leyti. En stjórnmálin sem bera höfuðábyrgð á löggjöfinni og rammanum er varðar fiskveiðistjórnunarkerfið verða einnig að gera það um þau atriði sem að þeim snúa. Taka upplýsingarnar og nýta í þágu almannahagsmuna. Annað væri ábyrgðarleysi, nú eða sérhagsmunagæsla. En varla lýðskrum.

Stærsta ágreiningsefnið

Það er ekki bara upphæð veiðigjalda sem áhugavert er að bera saman. Í þessu tilviki er ekki síður forvitnilegt að leiða fram hvað íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki var reiðubúið að greiða fyrir tímabundin réttindi. Það er eitt stærsta ágreiningsefnið í dag. Sá samanburður sem hér er óskað eftir getur verið gagnlegt framlag til málefnalegrar umræðu um það stóra ágreiningsefni, ekki síst í ljósi þess að útgerðin er nú á móti tímabundnum veiðirétti en studdi hann þegar álit auðlindanefndar kom fram árið 2000. Með því eðlilega skilyrði að um hæfilegan tíma yrði að ræða.

Sjálfstæðisflokkurinn skipti líka um skoðun á þessu atriði. Ætli formaður flokksins telji það líka lýðskrum að fara fram á að hann skýri hvers vegna flokkurinn hvarf frá samkomulaginu um niðurstöðu auðlindanefndar á sínum tíma og stöðvaði frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar um tímabundinn veiðirétt í síðustu samstjórn þessara tveggja flokka?

En líklega er auðveldara að halla sér aftur í rólegheitum á hneykslunarhellunni í félagsskap annarra manna sem hneykslast mikið, benda í allar áttir og hrópa „lýðskrum, lýðskrum“, „sýndarmennska, sýndarmennska“ þegar mikið er undir. Sér í lagi þegar beðið er um upplýsingar sem þóknast hvorki þeim né þeirra hagsmunum. Þannig stjórnmál verða algengari víða um heim og nú hér heima líka. Gegn þeim munum við í Viðreisn tala.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. febrúar 2020