Sanngjarn erfðafjárskattur

Það er þörf á rót­tækum breyt­ingum á erfða­fjár­skatti. Með því að reikna skatt­afslátt fyrir hvern og einn erf­ingja en ekki búið í heild, og með því að hækka afslátt­inn, fellur erfða­fjár­skattur niður eða lækkar veru­lega hjá megin þorra allra þeirra sem fá arf.

Sam­kvæmt gögnum frá Skatt­inum var mið­gildi hreinnar eignar dán­ar­búa árið 2017 14,5 millj­ón­ir, mið­gildi arfs til hvers erf­ingja var 3,5 millj­ónir og að rúm 81% þeirra sem fengu arf fékk minna en 10 millj­ónir í arf.

Núgild­andi lög gera ráð fyrir að skatt­stofn erfða­fjár­skatts sé verð­mæti dán­ar­bús­ins að frá­dreg­inni 1,5 milljón króna. Af því greið­ist svo 10% erfða­fjár­skatt­ur. Fjöldi erf­ingja hefur engin áhrif á skatt­lagn­ing­una.

Við­reisn hefur lagt fram frum­varp sem gerir ráð fyrir að skatt­stofn­inn verði ekki lengur verð­mæti dán­ar­bús­ins heldur sá arfur sem fellur hverjum erf­ingja í hlut. Hver og einn erf­ingi þarf ekki að greiða skatt af fyrstu 6,5 millj­ónum sem hann fær í sinn hlut. Þannig hefur fjöldi erf­ingja áhrif á skatt­heimtu rík­is­ins af hverju dán­ar­búi. Þessi per­sónu­bundni afsláttur leiðir einn og sér til skatt­leysis veru­legs hluta þeirra sem fá arf.

Gert er ráð fyrir að tekin verði upp þrjú skatt­þrep þannig að að arf­inum sem er á bil­inu 6,5 – 15 milljón greið­ist 10%, af því sem er á bil­inu 15 – 30 millj­ónir greið­ist 15% og loks 20% af því sem er umfram 30 millj­ón­ir. Með þessu er tryggt að hver og einn erf­ingi sem fær allt að 25 millj­ónum í sinn hlut af hreinni eign dán­ar­bús greiðir ýmist engan skatt eða lægri skatt en sam­kvæmt gild­andi kerfi. Skatta­lækk­unin mun ná til a.m.k. 80% allra sem fá arf og mun nema allt að 1,5 millj­arði króna sam­an­lagt.

Til­lögur Við­reisnar leiða til þess að erfða­fjár­skattur mun lækka hjá 80% greið­enda en hækka hjá um 20% greið­enda. Erfða­fjár­skatt­ur­inn verður sam­kvæmt til­lög­unum aldrei hærri en 20%, sama hve mik­ill arfur verð­ur, en til sam­an­burðar má nefna að fjár­magnstekju­skattur er 22%.

Að hluta til fela því til­lög­urnar í sér til­flutn­ing á skatt­byrði milli þeirra sem minnst fá í arf til þeirra sem mest fá.

Arfur verður ekki til fyrr en bú hefur verið gert upp. Að vissu leyti má segja að til­viljun ráði hvað komi til skipta og auki þannig eignir og tekju­mögu­leika erf­ingja. Það er eðli­legt að þeir erf­ingjar sem mest fá greiði hlut­falls­lega mest í skatt. Breyt­ingin stuðlar líka að því að draga úr auð­söfnun á fárra manna hend­ur. Með því að per­sónu­binda afslátt­inn fá fleiri í sinn hlut arf án skatt­heimtu. Þannig dreif­ist arfur betur til ein­stak­linga í sam­fé­lag­inu um leið og erfða­fjár­skattur sem kemur í hlut rík­is­ins við skipti flestra dán­ar­búa lækk­ar.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 10. mars 2020