Festina Lente

Benedikt Jóhannesson

Í stríði þarf að taka skjót­ar ákv­arðanir. Sem bet­ur fer virðist kór­ónu­veir­an nú hopa á Íslandi. Samt veit eng­inn hvenær við höf­um gengið frá henni, svo að hún skjóti ekki upp koll­in­um síðar. Sum­ir tala eins og þjóðin verði í stofufang­elsi mánuðum sam­an, land­inu læst og fólki hvorki hleypt út né inn. Ekki þarf að deila um að af­leiðing­arn­ar fyr­ir efna­hag fyr­ir­tækja og starfs­manna þeirra eru skugga­leg­ar. Þar sem ekki er hægt að vinna verða eng­in verðmæti til.

Víða um lönd töluðu stjórn­mála­menn eins og veir­an skæða yrði ekk­ert vanda­mál, væri þvæla eða í besta falli efni í brand­ara. Bor­is John­son sagði frá því að það myndi „kæta fólk að vita að hann hefði heilsað öll­um með handa­bandi“ þegar hann heim­sótti smitaða sjúk­linga í byrj­un mars.

Sem bet­ur fer hafa flest­ir ís­lensk­ir stjórn­mála­menn haldið sér hæfi­lega til hlés til þessa. Dæm­in sanna að það er far­sælla að tala án þess að segja neitt held­ur en að fara með fleip­ur.

Flas er aldrei til fagnaðar. Við þurf­um að nýta þekk­ingu og beita skyn­semi, ekki bara í bar­átt­unni við veiruna held­ur ekki síður þegar byggja þarf upp eft­ir stríðið. Viðreisn­in bygg­ir á hug­viti.

Ástandið má nýta til þess að koma á breyt­ing­um á ör­skömm­um tíma. Við sjá­um það í skól­um, í fyr­ir­tækj­um, í list­um og sam­skipt­um manna á milli. Ástandið neyðir okk­ur til þess að finna nýj­ar lausn­ir. Andstaðan við úr­bæt­ur minnk­ar tíma­bundið. En hún kem­ur aft­ur.

Hætt­an er að krepp­an verði nýtt sem skálka­skjól. Stjórn­mála­menn vilja koma hag­kerf­inu í full­an gang aft­ur. Þá eru ýms­ir til­bún­ir með hug­mynd­ir sem nýt­ast fáum eða eng­um til fram­búðar en „skapa vinnu“. Nú reyn­ir á að velja verk­efni sem verða arðbær. Við get­um auðveld­lega skapað mikla vinnu með því að byggja tugi bragga. All­ir sjá að það er heimsku­legt vegna þess að þeir munu ekki nýt­ast til gagns í framtíðinni. Nú er tím­inn til þess að búa til verðmæti. Á meðan á fram­kvæmd­um stend­ur verður vissu­lega til vinna, en hvað svo?

Allt of mörg úrræði stjórn­mála­manna eru lituð af krepp­unni miklu árið 1930. Þeir átta sig ekki á því að þjóðfé­lagið hef­ur þró­ast frá hand­verki til hug­vits. Ein­mitt núna ætt­um við að styrkja ný­sköp­un, upp­bygg­ingu á tækni og hug­búnaði, efla úr­vinnslu upp­lýs­inga. Búum til verðmæt störf til framtíðar, ekki minn­is­varða um mis­vitra stjórn­mála­menn. Það versta sem hægt er að hugsa sér er að ein­angra landið, varpa vís­ind­um fyr­ir róða, búa til rík­is­styrki og hygla vin­veitt­um aðilum.

Al­menn­ar aðgerðir geta virkað eins og víta­mínsprauta á at­vinnu­lífið, líka þá sem standa bet­ur, því að þeir efl­ast til fram­búðar, þjóðinni til góðs.

Við þurf­um að bregðast skjótt við, en það er dýrt að henda pen­ing­um í súg­inn. Þeir pen­ing­ar verða ekki nýtt­ir til góðs í framtíðinni. Því er far­sæl­ast að flýta sér hægt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2020