Ekkert pukur með styrki

Ríkið það er ég – er haft eftir Loð­vík 14. kon­ungi Frakka. Það var í þá tíð þegar ein­valdar þáðu vald sitt frá guði og réðu lögum og lofum í bók­staf­legri merk­ingu.

Nú er nær lagi að segja – Ríkið það erum við. Vald­hafar stjórna í umboði okkar allra og í krafti þess deila þeir út gæð­um, rétt­indum og skyld­um, í nafni rík­is­ins sam­kvæmt þeim leik­reglum sem við höfum sett þeim með lýð­ræð­is­legum leik­regl­um.

Hjálp­ar­hönd rík­is­ins

Við höfum ákveðið að úr sam­eig­in­legum sjóðum okkar séu veittir styrkir af ýmsu tagi til margs konar starf­semi og rekstr­ar. Við höfum ákveðið að stíga stór skref í þessum efnum til þess að draga úr alvar­legum efna­hags­legum afleið­ingum COVID-19.

Kast­ljósið bein­ist að mik­il­vægi þess að full­komið gagn­sæi ríki um hverjir njóta rík­is­styrkja og af hvaða til­efn­i.  Í for­tíð hefur það verið feimn­is­mál og hjúpað leynd þegar ríkið hefur veitt styrki, a.m.k á sumum svið­um. Sem betur fer hafa orðið fram­farir og við­horfs­breyt­ing í þá veru að leynd­ar­hulu skuli svipt í burt­u.

Engin fyr­ir­staða birt­ingar

Nýj­ustu dæmin um þetta eru ann­ars vegar upp­lýs­ingar sem land­bún­að­ar­ráðu­neytið sá sig knúið til að leggja fram um styrki til bænda í svari við fyr­ir­spurn minni á Alþingi, reyndar hafði þar úrslita­á­hrif úrskurður Úrskurð­ar­nefndar upp­lýs­inga­mála. Afleið­ingin er sú að í fyrsta sinn hafa allir lands­menn aðgang að sund­ur­lið­uðum upp­lýs­ingum eftir styrk­þegum og teg­und styrkja. Hins vegar má nefna glæ­nýtt bréf Per­sónu­verndar til Vinnu­mála­stofn­unar um birt­ingu upp­lýs­inga um þau fyr­ir­tæki sem hafa farið svo­kall­aða hluta­bóta­leið sem segir að per­sónu­vernd­ar­lög standi ekki í vegi fyrir slíkri birt­ingu.

Bæði Úrskurð­ar­nefnd upp­lýs­inga­mála og Per­sónu­vernd leggja mikla áherslu á að ríkir almanna­hags­munir standi til þess að upp­lýs­ingar um úthlutun efna­hags­legra gæða séu aðgengi­leg­ar.

Í bréfi Per­sónu­vernd­ar, dag­settu 12. maí segir m.a:

„Per­sónu­vernd telur að leggja verði til grund­vallar að almanna­hags­munir standi til þess að upp­lýs­ingar um þau fyr­ir­tæki sem hafa starfs­menn, sem sótt hafa um bætur hjá Vinnu­mála­stofnun á grund­velli XIII. ákvæðis til bráða­birgða í lögum nr. 54/2006, verði gerðar aðgengi­leg­ar. Í því sam­bandi athug­ast að miklir efna­hags­legir hags­munir eru bundnir við greiðslu bóta sam­kvæmt ákvæð­inu. Þá verður að telja að slíkur aðgangur geti skapað aðhald fyrir fyr­ir­tæki sem kjósa að minnka starfs­hlut­fall starfs­manna sinna, með það fyrir augum að þeir fái bætur á grund­velli ákvæð­is­ins. “

Í úrskurði Úrskurð­ar­nefndar í máli 876/2020 vegna styrkja til land­bún­aðar seg­ir:

„Það er mat úrskurð­ar­nefnd­ar­innar að þrátt fyrir að upp­lýs­ing­arnar varði greiðslur til lög­býla og þar með fjár­hags­mál­efni þeirra sem þiggja greiðslur vegna sauð­fjár­ræktar verði ekki talið að upp­lýs­ing­arnar gefi slíka inn­sýn í fjár­mál þeirra sem að rekstr­inum standa að rétt sé að tak­marka aðgang að upp­lýs­ingum um þær og víkja þannig til hliðar upp­lýs­inga­rétti almenn­ings um ráð­stöfun opin­berra fjár­muna.“

Traust og aðhald

Alþingi fer með fjár­veit­ing­ar­valdið og setur lög­in. Það hefur ákveðið að opna fjár­hirslur rík­is­ins, okkar sam­eig­in­legu sjóði, til þess m.a. að veita veiga­mik­inn fjár­stuðn­ing og fyr­ir­greiðslu til fyr­ir­tækj­anna í land­inu, stuðn­ing sem ríkið eitt getur veitt.

Krafa okkar á að vera ský­laus og for­taks­laus. Birta á allar upp­lýs­ingar og þær eiga að vera aðgengi­legar öllum og auð­veldar til leitar og aflestr­ar. Þannig sköpum við traust og nauð­syn­legt aðhald og vitum hverjir fá stuðn­ing og hvers vegna. Einu gildir hvort um er að ræða brú­ar­lán, lok­un­ar­styrki, stuðn­ings­lán, hluta­bóta­leið eða greiðslu launa í upp­sagn­ar­fresti.

Rík­is­stjórn­inni er ekk­ert að van­bún­aði að gefa út fyr­ir­mæli þessa efnis til allra þeirra sem ráð­stafa opin­berum fjár­munum til stuðn­ings fyr­ir­tækj­um. Það geta ekki verið hags­munir neins að leynd ríki um við­töku rík­is­stuðn­ings, hvorki fyr­ir­tækj­anna né almenn­ings.

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 14. maí 2020