Kerfi fyrir fólk en ekki fólk fyrir kerfi

Kerfið á að vera hannað fyrir fólk. Þessi setning er mikilvæg áminning fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum. Þar tökum við ákvarðanir sem hafa víðtæk áhrif á fólk. Alls konar fólk með alls konar þarfir.

Það er þetta með fjölbreyttar og ólíkar þarfir einstaklinga sem er okkur í Viðreisn hjartans mál. Þess vegna teljum við að börn eigi rétt á vali um fleiri en eina leið í gegnum skólakerfið. Sérstaklega erum við meðvituð um mikilvægi þess að börn með greiningar og hvers konar fötlun eigi rétt á að velja þá leið sem hentar hverju barni best.

Það var einmitt þess vegna sem við í borgarstjórnarflokki Viðreisnar komum að því að gerður var samningur við Arnarskóla fyrir fjögur börn fyrir ári síðan. Arnarskóli er heildstæður skóli fyrir börn með þroskafrávik á grunnskólaaldri, staðsettur í Kópavogi.

Nú blasir við að hið meinta kerfi með sínum meintu borgarmörkum sé að gera okkur erfitt fyrir að samningurinn nái til fleiri barna, sem gætu notið sín í betur í Arnarskóla. Stóri hnífurinn í kúnni er að ósamið er við Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna til að koma að fjármögnun plássa fyrir reykvísk börn sem telja Arnarskóla geta mætt sínum þörfum best, líkt og Jöfnunarsjóður hefur samið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki í pólitík til að láta þar við sitja. Ég er í pólitík til að finna leiðir til að losa kúnna frá þessum hníf og berjast fyrir hagsmunum barna. Það mun ég gera í þessu tiltekna máli.

Við eigum ekki að þurfa að búa í samfélagi þar sem foreldrar fatlaðra og langveikra barna þurfa ítrekað að koma fram í fjölmiðlum til að lýsa neikvæðum upplifum sínum við kerfið. Kerfið á ekki að búa til tilgangslaus völundarhús og landamæri á kostnað velsæld barna. Við erum fámenn þjóð og því fylgir styrkur. Nýtum styrkinn í stað þess að leyfa kerfinu að bólgna.

Höfundur er fulltrúi Viðreisnar í Skóla- og frístundaráði í Reykjavík

Greinin birtist fyrst á Vísi 27. maí 2020