Mikið vill meira – og meira – og meira…

Benedikt Jóhannesson

„Það eru kapítalistarnir sem koma óorði á kapítalismann“ hefur Hannes H. Gissurarson eftir einhverjum spekingi. Þeir sem horfa á útgerðina á Íslandi gætu hallast að þessari kenningu. En ein af forsendum frjálsrar samkeppni er opinn aðgangur að greininni og verðmyndun á markaði. Fiskimiðin eru aftur á móti harðlæst – með keðju og slagbrandi. Fyrir þann sem stendur fyrir utan er leiðin ekki þyrnum stráð, þangað liggur alls engin leið.

Úthlutun fiskveiðiheimilda á Íslandi minnir á lénskerfið á öldum áður. Vildarvinir konunga voru gerðir að greifum, barónum eða lávörðum, yfirstétt sem átti þaðan í frá sitt lén sem gekk í arf. Inn í þennan hóp komst enginn nema eiga rétta foreldra.

Kvótakerfið var sett á til þess að vernda fiskinn í sjónum fyrir ofveiði Íslendinga. Þingmenn ætluðu sér að vernda náttúruauðlind þjóðarinnar. Þjóðarinnar, munum það.

Kerfið virkaði vel, ýtti undir hagræðingu og efldi fiskistofna í hafinu á ný. Það er gráglettni örlaganna að á sínum tíma var Morgunblaðið í fararbroddi þeirra sem vildu að útgerðirnar borguðu sanngjarnt auðlindagjald. Nú er blaðið í eigu útgerðaraðalsins, því aðall er hann, aðall sem þiggur vernd frá ríkinu, lokaður hópur sem enginn kemst inn í sem ekki er til þess borinn. Ekki má minnast á að þjóðin njóti ávinnings af kerfinu með markaðstengdu gjaldi.

Ekkert er út á það að setja að fólk auðgist á framtaki sínu, hyggjuviti og útsjónarsemi. Á opnum markaði verður slíkur hagnaður sjaldnast gríðarlegur. Á undanförnum áratug hafa aftur á móti safnast upp slík auðæfi í sjávarútvegi að þess eru engin dæmi áður. Hagur greinarinnar batnar um 123 milljónir á dag, allan ársins hring. Arðurinn flæðir út, milljarður á mánuði, og eigendurnir leggja undir sig eitt fyrirtækið af öðru í öllum atvinnugreinum.

Hannes H. Gissurarson benti mér um daginn á bókina Père Goriot eftir Balzac. Þar er þessi setning: „Á bak við mikil og illskýranleg auðæfi leynist jafnan óupplýstur glæpur og fimlega framinn.“

En útgerðin hefur fyrst og síðast nýtt sér reglurnar, reglur sem skapa dagvaxandi ójöfnuð á milli útgerðaraðalsins og almennings. Ríkisstjórnarflokkarnir, hvort sem þeir kenna sig við hægri, vinstri eða miðju, eru fyrst og fremst varðmenn óbreytts ástands. Þeir ná saman í óbeit sinni á markaðslausnum. Aðlinum allt! er hið leynda boðorð.

Engu má breyta meðan örfáir auðjöfrar leggja landið undir sig í skjóli eilífðarkvóta. Auðjöfrar sem verja með kjafti og klóm ríkisforsjána sem malar þeim milljarða. Þeir fá aldrei nóg.

Ég lærði eftirfarandi stöku Sigurðar Breiðfjörðs af Ásgeiri Jónssyni sem skrifaði um kvótakerfið fyrir aldarfjórðungi:

Það er dauði og djöfuls nauð
er dyggðasnauðir fantar,
safna auð með augun rauð,
en aðra brauðið vantar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2020