„Það er bara ömurlegt…“

Þorsteinn Pálsson

“Það er bara ömurlegt að horfa upp á að þessir gífurlegu fjármunir fari svona á milli kynslóða. Greiðslan á svo að duga um aldur og ævi milli kynslóða, sem er auðvitað bara fáránlegt.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþings, lét þessi orð falla á Stöð 2 í síðustu viku, í tilefni af því að fleiri meðlimir en áður í sömu fjölskyldu, fara nú með hlutafjáreign í Samherja.

Hugsjónir og pólitík

Það er vandasamt að tala fyrir hugsjónum. Því fylgir líka mikil ábyrgð að taka við umboði kjósenda til þess að fylgja þeim eftir á Alþingi. Oft leiðir það til sæmdarauka, en stundum til minnkunar.

Ummæli formanns atvinnuveganefndar eru hvatning til að skoða hvernig VG hefur haldið á hugsjón sinni í sjávarútvegsmálum.

Frjálst framsal aflaheimilda var lögfest í tíð ríkisstjórnar sem núverandi forseti Alþingis sat í. Andstaðan við frjálst framsal var þá, eins og nú, eitt af stærstu hugsjónamálum Alþýðubandalagsins. Þeirri hugsjón var fórnað fyrir þann þjóðarhag sem ráðherrarnir sáu í því að ná fjórum mánuðum til viðbótar í ráðherrastólum.

Álit sáttanefndar sprengt í loft upp

Í tíð vinstri stjórnarinnar eftir hrun stýrði Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis og síðar ráðherra Samfylkingarinnar, sáttanefnd allra flokka um sjávarútvegsmál. Með mikilli lagni náði hann árið 2010 víðtækri sátt um stærsta prinsippið varðandi auðlindanýtingu.

Það fólst í svokallaðri samningaleið um tímabindingu veiðiréttar í samræmi við grundvallarhugmynd auðlindanefndar Jóhannesar Nordal frá árinu 2000, um það hvernig tryggja ætti sameign þjóðarinnar á auðlindum. Í bókunum með sáttanefndarálitinu féllust Samtök fiskvinnslustöðva og LÍÚ á þetta prinsipp. Það gerði Sjálfstæðisflokkurinn einnig.

Sögulegt tækifæri blasti við. En skemmst er frá því að segja að nokkrir þingmenn úr röðum VG og Samfylkingar sprengdu þessa sátt í loft upp fyrir sólsetur, sama dag og niðurstaða nefndarinnar var kynnt.

Sátt hafnað í annað og þriðja sinn

Þegar núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir lækkun veiðigjalda buðu Viðreisn, Samfylking og Píratar fram málamiðlun. Hún fólst í því að fallast á gjaldatillöguna án uppboðs, gegn því að ríkisstjórnin samþykkti tímabindingu veiðiréttarins með samningum.

Slík sátt hefði tryggt sameign þjóðarinnar eins og auðlindanefnd lagði til árið 2000 og sáttanefnd 2010.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafnaði þessu einhuga.

Ríkisstjórn hennar ákvað síðar að lögfesta aflahlutdeild í makríl. Sömu stjórnarandstöðuflokkar lögðu þá aftur til að sameign þjóðarinnar yrði tryggð með því að tímabinda veiðiréttinn með uppboðsleið. Þeirri hugmynd var svarað með því einu að gefa flutningsmönnum langt nef.

Virku stjórnarskrárákvæði hafnað

Forsætisráðherra hefur lagt fram tillögu að stjórnarskrárákvæði um þjóðareign. VG hafnar hins vegar alfarið að gera þjóðareignina virka með ákvæði um tímabindingu veiðiréttarins.

Í fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna er ákvæði um þjóðareign, þar sem segir að úthlutun aflahlutdeildar skapi ekki óafturkræfan rétt. En merking ákvæðisins er undirorpin verulegri óvissu af því að lögin kveða ekki á um tímamörk.

Og nú staðhæfir formaður atvinnuveganefndar að þessi lagatexti um ótímabundna þjóðareign þýði að veiðiréttur flytjist á milli kynslóða um aldur og ævi.

Stjórnarskrárákvæði um þjóðareign án skilyrða um tímabindingu veiðiréttarins, er að sama skapi tilboð um óbreytt ástand. Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins lét það álit réttilega í ljós í vikulokum Ríkisútvarpsins síðastliðinn laugardag að stjórnarskrártillagan breytti engu í þessu samhengi.

Sómi eða minnkun?

Þannig hefur VG fjórum sinnum í tíð tveggja ríkisstjórna á liðnum áratug haft forystu um að koma í veg fyrir að virk þjóðareign yrði tryggð, með því að tímabinda nýtingarréttinn annað hvort í almennum lögum eða stjórnarskrá.

Það er ekki unnt að útiloka tímabindingu á báðum stöðum og segjast vilja breytingar.

Þykir þá vera sómi eða minnkun að því hvernig VG hefur haldið á hugsjónum sínum í sjávarútvegsmálum? Kannski á formaður atvinnuveganefndar besta svarið: „Það er bara ömurlegt…“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. maí 2020