Sumarið er tíminn

Hún er dökk, myndin sem al­þjóða­stofnanir hafa síðustu daga dregið upp af efna­hags­horfum í heiminum. Þegar kemur að efna­hags­legum af­leiðingum CO­VID-19 far­aldursins situr Ís­land á öðrum og mun verri stað en við gerum varðandi út­breiðslu veirunnar sjálfrar.

Ís­landi er spáð meiri efna­hags­legum sam­drætti fram til loka ársins 2021 en nokkru öðru landi innan Efna­hags- og fram­fara­stofnunarinnar (OECD), óháð því hvort gert er ráð fyrir að far­aldurinn taki sig upp að nýju eða ekki. Þar skiptir hlut­falls­legt um­fang ferða­þjónustunnar mestu máli. Þrátt fyrir þessa miklu niður­sveiflu er um­fang efna­hags­að­gerða stjórn­valda hér minna en í löndunum í kringum okkur. Stað­reyndin er sú að opin­berar fjár­festingar eru enn lítið meira en í meðal­lagi þegar horft er til síðustu ára­tuga. Þar að auki hefur stærstur hluti þessara að­gerða verið í formi lána til fyrir­tækja sem hafa ekki enn komist til fram­kvæmda. Þessi staða veldur sér­stökum von­brigðum þar sem smæð ís­lensks sam­fé­lags ætti að gera okkur kleift að bregðast hraðar við en mun fjöl­mennari þjóðum.

Blaða­manna­fundir ríkis­stjórnarinnar undan­farna mánuði hafa samt verið flottir. Það er það sem gerist, eða gerist ekki, utan sviðs­ljóssins sem er á­hyggju­efni. Sá vand­ræða­gangur sem verið hefur á við­brögðum við CO­VID-19 far­aldrinum er auð­vitað bara fram­hald af al­mennum vand­ræða­gangi ríkis­stjórnarinnar. Mikil­væg mál hafa orðið bit­bein stjórnar­flokkanna sjálfra á meðan önnur hafa komið ó­skiljan­lega seint fram og því ekki fengið nægi­lega ítar­lega með­ferð á þingi.

Efna­hags­sam­drátturinn hér á landi var hafinn fyrir CO­VID-19. Ríkis­stjórnar­rútan mallaði hins vegar í hlut­lausum enda hlustuðu bíl­stjórarnir þrír ekki á há­værar við­vörunar­raddir, ekki síst okkar í Við­reisn. Þegar ekki dugði lengur að þykjast hvorki heyra né sjá voru við­brögðin þau að stíga hraust­lega á bensín­gjöfina en gleyma að setja í gír. Sumarið er tíminn, söng Bubbi hér um árið. Hann var að syngja um ást og þrá. En sumarið 2020 er sumarið sem ríkis­stjórnin verður að hætta að taka undir í við­laginu og söngla „og þér finnst það í góðu lagi“ því þetta er alls ekki í lagi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní 2020