Þrumuádrepan

Þorsteinn Pálsson

Hluthafar í Icelandair samþykktu á fundi sínum í maí að leita eftir nýju hlutafé til að treysta rekstur félagsins. Af því tilefni flutti stjórnarformaður þess þrumuádrepu yfir þeim sem tekið hafa þátt í opinberri umræðu um þann vanda, sem félagið stendur andspænis.

Stjórnarformaðurinn taldi að þar hefðu fáir talað af viti og þekkingu. Ofanígjöfina mátti skilja á þann veg að almenn umræða um vanda félagsins hafi verið stjórnendum þess til ama en ekki uppörvunar. Spurningin er þessi: Eiga stjórnmálamenn og fjölmiðlar að taka tillit til þess? Upplýst hefur verið að félagið hefur óskað eftir aðstoð ríkisins. Hún gæti orðið stærsta sértæka aðgerð, sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar skattborgaranna þurfa að fjalla um gagnvart einu einstöku fyrirtæki í yfirstandandi kreppu.

Þegar af þeirri ástæðu má vera ljóst að hvorki stjórnmálamenn né fjölmiðlar geta létt þessum ama af herðum stjórnendanna. Fleira kemur svo til.

Áhætta velferðarkerfisins

Lífeyrissjóðir eiga nærri helming félagsins í dag. Þeir eru stærsti hluti velferðarkerfisins í landinu.

Iðgjöld til sameignarsjóðanna eru í raun skattur. Fjármunir þeirra standa undir lögbundnum félagslegum réttindum almennings. Eignarhlutir sjóðanna í fyrirtækjum eru því fremur opinbert hlutafé en einkahlutafé.

Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægir fjárfestar. En hinu má ekki gleyma að áhættan liggur í velferðarkerfi almennings. Ríkisbankarnir tveir eru í hópi stærstu lánveitenda félagsins. Áhættan af þeirri lánastarfsemi hvílir á öðrum hluta velferðarkerfisins.

Þessi áhætta verður ekki umflúin eins og málum er komið. Að sama skapi verður opinber almenn umræða um hana ekki heldur umflúin.

Þörf á meiri og dýpri umræðu

Stjórnkerfi lífeyrissjóðanna hefur átt þátt í því að þeim hefur almennt verið hyggilega stýrt miðað við aðstæður. En það breytir ekki hinu að stjórnendur Icelandair og raunar annarra fyrirtækja, sem byggja í ríkum mæli á áhættufjármagni frá velferðarkerfinu, verða að horfast í augu við þá staðreynd að lýðræðisleg umræða, með kostum sínum og göllum, er einfaldlega fylgifiskur opinberrar fjármögnunar af því tagi. Satt best að segja er full þörf á meiri og dýpri pólitískri umræðu um þessi mál.

Ádrepa stjórnarformannsins beinir athyglinni að því að opinber hlutdeild í áhættufjármagni fyrirtækja er ríkari á Íslandi en í öðrum markaðshagkerfum. Hugsanlega er hún komin yfir heilbrigðismörk. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar væru að bregðast hlutverki sínu í lýðræðissamfélaginu ef þeir ræddu ekki þessi álitaefni í þaula.

Vitlaust gefið

Enn er flestum í fersku minni þegar krónan hrundi og bankarnir féllu 2008. Í kjölfarið fékk ferðaþjónustan byr undir báða vængi. Og markmiðið var að fjöldi ferðamanna yrði tíföld íbúatala landsins á jafn skömmum tíma og það tók bankana áður að vaxa upp í tífalda þjóðarframleiðslu.

Þetta var geggjaður vaxtarhraði. Grípa þurfti til margvíslegra ráða til að gera hann mögulegan. Eitt þeirra var að forstjórar tveggja flugfélaga fóru inn á sjúkrahúsin og tóku með sér út þaðan drjúgan hluta hjúkrunarfræðinga með langa háskólamenntun til þess að metta þörfina fyrir flugfreyjur. Á öðrum hvorum staðnum hlýtur að hafa verið vitlaust gefið.

Skásti kosturinn

Icelandair hefur farið fram á breytingar á kjarasamningum þriggja stéttarfélaga til þess að bæta samkeppnisstöðuna. Tvö þeirra hafa fallist á beiðnina en eitt ekki. Kostirnir virðast vera skýrir: Störf eða engin störf. Þetta eru harkalegir kostir. En bitur veruleikinn verður ekki umflúinn frekar en umræðan.

Stjórnvöld hafa stutt endurreisnaráform félagsins. Séu þau á annað borð fær virðast þau vera skásti kosturinn. En velferðarkerfið er að veði. Ríkisstjórnin og stjórnendur lífeyrissjóðanna þurfa því, þegar þar að kemur, að rökstyðja endanlegar ákvarðanir sínar og verja þær gagnvart almenningi.

Af sjálfu leiðir að opinber umræða er forsenda slíkra ákvarðana. Stjórnendur Icelandair standa andspænis mörgum hörðum kostum. Einn þeirra er sá að þeir geta einfaldlega ekki leyft sér þann munað að hafa ama af þeirri opinberu umræðu.