Er mjólk góð?

Nei, ég ætla ekki að tala um meinta hollustu mjólkurdrykkju í þessum pistli. En eitt er víst: Mjólkin er alls ekki góð fyrir samkeppnina í landinu. Hér eru nokkur dæmi:

Samkeppnislög gilda ekki um hluta mjólkuriðnaðar á Íslandi. Mjólkurverð myndast ekki í samkeppni, það er ákveðið af opinberri verðlagsnefnd! Mjólkurbændur fá um 7 milljarða króna styrk árlega frá skattgreiðendum, sem skekkir samkeppnisstöðu annarra drykkja. Verndartollar nær tvöfalda verð á erlendum ostum, sem eykur kostnað neytenda og innflutningur er bannaður á nokkrum mjólkurvörum. Mjólkursamsalan var nýlega dæmd til að greiða um hálfan milljarð króna vegna samkeppnisbrota. Ítrekað er reynt að hindra samkeppni frá samkeppnisaðilum eins og Mjólku, Örnu og Kjörís. Nýlega kom fram í viðtali við Finn Geirsson, forstjóra Nóa Síríus, að stjórnvöld eru viljandi að veikja samkeppnisstöðu íslenskrar sælgætisframleiðslu.

Háir tollar á innflutt mjólkurduft valda því að fyrirtækið verður að kaupa íslenskt mjólkurduft á tvöföldu verði innflutts mjólkurdufts. Tollarnir valda því að hráefniskostnaður Nóa Síríus hækkar um allt að sextíu milljónir króna á ári hverju. Þetta á við allar sælgætisverksmiðjur landsins, og það veikir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum sem flytja vörur sínar fullunnar, með ódýru mjólkurdufti í, inn til landsins, án þess að á þær leggist tollar.

Á tyllidögum tala stjórnmálamenn um að það sé eitt meginhlutverk stjórnvalda að efla samkeppnisstöðu landsins og styðja við iðnaðinn í landinu. Þó að mjólk sé góð, þurfa þeir alltaf að vera svona góðir við mjólkina?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020