Hlauptu hlunkur, hlauptu

Benedikt Jóhannesson

Forsætisráðherra rakti í nýlegu viðtali aðdraganda að myndun ríkisstjórnarinnar og forsendur fyrir samstarfinu. Annars vegar ákall þjóðarinnar um stöðugleika og hins vegar að ráðherrum kæmi vel saman. Slík hreinskilni er lofsverð og engin ástæða til þess að bera brigður á að einmitt þetta hafi sameinað flokkana. Þegar stefnumálin skipta engu er auðvelt að mynda ríkisstjórn, því að býsna margir þingmenn eru þægilegir í viðkynningu. Stjórnarflokkarnir sameinuðust um að stöðnun væri samheiti við stöðugleika. Í stöðnun nýtur hinn svifaseini sín.

Fyrir rúmum áratug bar misheppnuð gamanmynd sama heiti og þessi pistill. Gagnrýnandi sagði: „Að upplagi hefur myndin alla burði til þess að verða skondin og lífleg. Leikarar eru góðir, sagan sniðug og sögusviðið sjarmerandi, en hún nær sér aldrei alveg upp úr þeim stirða fasa sem loðir við.“ Betur er varla hægt að lýsa ríkisstjórninni.

Illu heilli hefur kórónuveiran aftur stungið sér niður á Íslandi. Flestir eru sammála um að vel hafi tekist til í vor um viðbrögð. Vísindin réðu ferðinni, en þekking á þessum vágesti var auðvitað takmörkuð þá. Margir töldu sig vita betur en sérfræðingarnir. Þessir sjálfskipuðu spekingar fengu heitið kóvitar í almennri umræðu.

Af fyrri glímu við veiruna illskeyttu mátti læra að skjót og fumlaus viðbrögð skipta öllu. Aðgerða- og ákvarðanafælni eru afdrifarík.

Jóhanna Jakobsdóttir, rannsóknasérfræðingur við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við HÍ, er í hópi þeirra sem hafa fylgst best með þróun faraldursins. Andstætt kóvitunum talar hún af þekkingu og reynslu. Hún skrifaði á FB í liðinni viku (samantekt af nokkrum færslum):

„Voðalega þarf þessi ríkisstjórn marga fundi til að ræða einfaldan hlut. Það eru meira en 2 sólarhringar síðan ríkisstjórninni var ljóst að það er samfélagssmit (ekki hópsmit) í gangi og þau funda enn. Þetta getur þýtt, ef við erum óheppin, auka vikur í takmörkunum. deCODE raðgreindi sýnin og ríkisstjórnin vissi fyrir mörgum dögum að um samfélagssmit væri að ræða. Við nýttum okkur ekki forskotið í þeim upplýsingum strax heldur komum okkur á þennan stað. Einn dagur getur breytt öllu.“

Jóhanna bendir líka á að heilsugæslan í Reykjavík tók í sumar bara sýni þrjá daga í viku og vísaði sýktu fólki frá. Hún skrifar: „Heilsugæslan þarf að skilja að sýnataka er ekki gerð fyrir einstaklinginn. Það skiptir hann voðalega litli máli hvort hann greinist degi síðar en það skiptir almannaheill miklu máli hvenær smitrakning fer í gang.“

Þegar loksins var farið gang var sett upp sýning með þremur ráðherrum, sem greinilega vildu ná í hluta af þeirri virðingu sem þríeykið hefur notið. En vandinn snýst ekki um hégóma heldur skjót viðbrögð. Það bað nefnilega enginn um hik og aðgerðaleysi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. ágúst 2020