Möguleg millileið

Þorsteinn Pálsson

Höft á sparnað launafólks í lífeyrissjóðum endurspegla vel veikleika krónunnar. Ísland er eina landið, sem þurft hefur að grípa til gjaldeyrishafta vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar.

Ranglæti er jafnan fylgifiskur hafta. En þetta er í fyrsta sinn, sem ranglætið er einvörðungu látið bitna á launafólki.

Saga krónunnar byrjaði í alþjóðlegu myntsamstarfi. Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld svo leitast við að tengja hana við aðra gjaldmiðla eða taka þátt í fjölþjóðlegu myntsamstarfi. Nýju höftin eru áminning um þennan óleysta vanda.

Norræna myntsambandið

Nú er því stundum haldið fram að sjálfstæð mynt sé nauðsynlegur hluti fullveldis. Fyrir öld litu menn aftur á móti svo á að stöðug mynt væri mikilvægari fyrir efnahagslegt sjálfstæði landsins en sjálfstæð mynt.

Sú hugsun var svo almenn að aðild að Norræna myntsambandinu var skrifuð inn í sjálf fullveldislögin.

Árið 1955 stóð Samband íslenskra samvinnufélaga fyrir ráðstefnu í Háskóla Íslands. Þangað var stefnt helstu hagfræðingum Norðurlanda til þess að ræða mögulega endurreisn Norræna myntsambandsins.

Bretton Woods, ECU og Evra

Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forystu Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafstein virkjaði aðild Íslands að Bretton Woods gjaldmiðlasamstarfinu frá 1944. Það fól í sér skuldbindingar til að fylgja fjölþjóðlegum reglum á sviði ríkisfjármála og peningamála.

Haustið 1991 samþykkti ríkisstjórn sömu flokka undir forystu Davíðs Oddssonar, að Ísland skyldi innan tveggja ára tengjast evrópsku mynteiningunni ECU, sem var undanfari evrunnar.

Í tilefni þessarar ákvörðunar um evrópsku mynteininguna sagði Jóhannes Nordal Seðlabankastjóri: „Fastgengisstefna í einu eða öðru formi er eini grundvöllur stöðugleika í efnahagsmálum, sem raunhæft er að nota.“

Ríkisstjórn VG og Samfylkingar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti sumarið 2012 samningsmarkmið í peningamálum vegna viðræðna við Evrópusambandið. Þar er því lýst yfir að Ísland stefni að upptöku evru svo fljótt sem aðstæður leyfa.

Afstaða flokka á þessari öld

Á þessari öld hefur Samfylkingin einarðlega fylgt línu gamla Alþýðuflokksins um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar gerði aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru einnig að stefnuskrármáli.

Á allra síðustu árum hefur Viðreisn tekið forystu á miðjunni um aukið Evrópusamstarf og upptöku evru.

Sjálfstæðisflokkurinn var einnig opinn fyrir gjaldmiðilsumræðunni, eins og fram kom í ályktun landsfundar 2015 þar sem sagði: „Kanna skal til þrautar upptöku myntar, sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar.“

VG hefur ekki ályktað um gjaldmiðilsbreytingu á landsfundum, en samþykkti án fyrirvara í ríkisstjórn yfirlýsingu Íslands um upptöku evru.

Lausn Björns Bjarnasonar

Af þessari sögu má ráða að á öllum tímum hefur verið víðtækur skilningur á mikilvægi fjölþjóðlegs myntsamstarfs.

Á þessari öld hefur evran verið raunhæfasti kosturinn í þeim efnum.

Ísland hefur í meira en aldarfjórðung verið aðili að efnahagslegum og pólitískum kjarna Evrópusambandsins. Eigi að síður vefst fyrir mörgum að stíga lokaskrefið til fullrar aðildar, þó að það sé í raun minna en það fyrra.

Sumarið 2008 setti Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra fram lögfræðilega ígrundaða hugmynd um að Ísland gæti sótt um aðild að evrópska myntsambandinu á grundvelli aðildar að innri markaði Evrópusambandsins en án fullrar aðildar.

Hugmyndinni um þessa millileið var þá ýtt út af borðinu, jafnt af fylgjendum sem andstæðingum fullrar aðildar.

Ástæða til að ræða hugmyndina

Vitað er að embættismenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafa ekki verið áhugasamir um slíka lausn. En dýpið hefur aldrei verið lóðað í pólitískum viðræðum.

Nú þegar höftin hafa verið endurvakin með skaðvænlegri langtímaáhrifum en áður er ærin ástæða til að ræða þessa hugmynd í fullri alvöru.

Á næstu árum stendur Ísland andspænis mestu áskorunum í efnahagsmálum í áratugi. Við þær aðstæður „getur íslenska krónan í höftum ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar“, eins og segir í aðeins fimm ára gamalli ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. ágúst 2020