Hvað um mig og þig

Benedikt Jóhannesson

Ríkisstjórnin er sífellt að gera eitthvað fyrir einhverja. Með beinum og óbeinum hætti styrkir ríkið íslenskan landbúnað um tugi milljarða árlega. Útgerðin nær inn tæpum milljarði á viku gegn því að borga málamyndagjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Bankar fá drjúgan skilding í tekjur vegna þess að erlendir keppinautar þora ekki að koma inn í hættulegt efnahagskerfi með sveiflukenndan örgjaldmiðil. Nú síðast flutu hundruð milljóna til fjölmiðla í einkaeigu. Já, stjórnin er sannarlega góð við vini sína.

Það er gaman að vera örlátur á almannafé. Flokkarnir tóku strax í upphafi samstarfsins þá snjöllu ákvörðun að spreða peningum úr vel stæðum sjóðum almennings í góðærinu. Ég er búinn að gleyma því hvar í hagfræðibókunum það stendur að ríkissjóður eigi að vera í mínus þegar vel árar, en stjórninni tókst það í hagvextinum í fyrra.

Skoðum aðeins uppskeruna eftir veislu stjórnarflokkanna.

Íslendingar fá að kaupa landbúnaðarvörur á miklu hærra verði hér en í nágrannalöndunum, svo háu að jafnvel gegnheilir Framsóknarmenn á eftirlaunum verða að eyða drjúgum hluta ársins á suðlægum slóðum Evrópusambandsins. Bændur eru samt launalægsta stétt landsins.

Einu sinni ræddi ég við þáverandi formann bændasamtakanna. Ég lagði til að sauðfjárbændur fengju peninga beint og mættu ráða því hvaða búskap þeir stunduðu. Fengju jafnvel greiðslur fyrir að hætta búskap enda offramleiðsla í gangi. Þetta fannst formanninum afleit hugmynd og sagði ákveðinn: „Ég verð að hugsa um hag sauðfjárræktarinnar.“ Ég svaraði um hæl: „Þetta er munurinn á okkur. Ég hugsa um hag bænda.“

Sumir vinir mínir réttlæta gjöf ríkisins til útgerðarmanna með því að þeir séu svo duglegir og nefna þekkt hörkutól. Mikið væri gaman að sjá þessa félaga mína handvelja þann hluta þjóðarinnar sem á skilið að fá sérstaka umbun frá ríkinu fyrir dugnað. Ríkisstjórnin myndi fagna þeim liðsauka.

Almenningur má líka borga hærri vexti og meiri þjónustugjöld til íslenskra banka en gengur og gerist í nágrannalöndum. Ríkissjóður náði aftur á móti hagstæðustu vöxtum í sögunni í fyrra þegar hann tók 500 milljóna lán í evrum á 0,1% vöxtum. Sannarlega öfundsverð kjör sem almenningi bjóðast auðvitað ekki. En nú hefur okkar ágæta króna séð svo um að á rétt rúmu ári hefur evruskuldin vaxið um 20% í krónum. Alltaf reynist krónan vel!

Sagt er að enginn sinni því sem allir eiga. Það er ábyrgðarhluti að vera vörslumaður almannafjár. En auðvitað er miklu skemmtilegra að eyða allra fé.

Í dægurlagatexta var á sínum tíma talað um „fjölmörg dæmi um manneskjur sem farið hafa á taugum.“ Ríkisstjórnin fer samt ekkert á  taugum þótt hallinn sé mikill. Hún hugsar stöðugt um vini sína og færir þeim almannafé.

En hvað um mig og þig?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. september 2020