Minnihlutinn mikilvægur stuðningur við meirihlutann

Það er virkilega ánægjulegt að sjá hverja tillögu Garðabæjarlistans á fætur annarri rata inn á framkvæmdarlista meirihlutans og ljóst að minnihlutinn gefur góðan innblástur og kraft til að láta verkin tala. Nokkuð sem meirihlutann hefur skort. Og merkilegt nokk. Við getum sagt það fullum fetum að það muni um okkur í Garðabæjarlistanum við bæjarstjórnarborðið, þótt fámenn séum.

Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað er gott að  líta um öxl og sjá hvað  hefur áunnist með okkar áherslum.

Garðabæjarlistinn hefur komið til leiðar aukinni hinsegin fræðslu meðal starfsfólks skóla og íþróttafélaga Við höfum lagt áherslu á  formlegar og gagnsæjar reglur þegar kemur að ýmis konar þjónustu við íbúa. T.d. reglur um niðurgreiðslur leigubílaaksturs fyrir eldri borgara sem hafa ekki annan kost til að komast á milli staða í brýnum erindagjörðum. Einnig skýrar og gagnsæjar reglur um úthlutun félagslegs húsnæðis hvort heldur sem er fyrir fatlaða einstaklinga eða aðra sem þurfa að nýta sér stuðning félagsþjónustunnar. Af okkar frumkvæði var komið á úrræði fyrir fötluð ungmenni á mið- og unglingastigi. Þetta er nýtt úrræði  sem við í Garðabæjarlistanum lögðum fram og erum afar stolt af. Ekki síður getum við verið stolt af tillögu okkar um aukna sálfræðiþjónustu við ungmenni á grunnskólaaldri sem var samþykkt og er nú komið á laggirnar í samstarfi við Mína líðan.

Nú nýverið varð tillaga okkar um bættar almenningssamgöngur um Urriðaholtið, sem við fluttum reyndar fyrir sléttu ári síðan í bæjarstjórn, loks að veruleika og bætast þar við  fastar áætlunarferðir í bland við pöntunarkerfið sem hafði verið við líði, og of fáir hugsanlegir notendur vissu af.

Allt hafa þetta verið frábær skref fram á við. Skref til að gera góðan bæ enn betri,  styrkja grunnstoðir þjónustunnar og mæta fjölbreyttri og vaxandi íbúaflóru. Garðabær er nefnilega að taka gríðarlega mikilvæg skref í átt fjölbreytileika, þar sem öllum er gert hátt undir höfði og veitt mikilvæg þjónusta. Við hvöttum til þess að Garðabær tæki fagnandi á móti hópi flóttamanna, sem úr varð fyrir ári síðan.

Það vekur þó satt best að segja um leið nokkra furðu að þessi verkefni, sem eru innblásin af áherslum minnihlutans, eiga það sameiginlegt að við í Garðabæjarlistanum teljum þau til forgangsþjónustu þegar unnið er í þágu íbúa til að gera samfélagið okkar betra. Hvert sem litið er hefur meirihlutinn einfaldlega þurft á aðstoð okkar í minnihlutanum að halda við að koma á bættri þjónustu við íbúa.

Við í Garðabæjarlistanum viljum að bærinn veiti sjálfsagða þjónustu og styðji við fjölbreytileikann í sveitarfélaginu svo að að allir sjái tækifærin og kostina við það að búa í Garðabæ.  Því í Garðabæ er gott að búa og þannig á það að vera fyrir alla. Þess vegna er það gott að Garðabæjarlistinn gefi meirihlutanum innblástur og kraft til að gera góðan bæ enn betri.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans

Greinin birtist í Garðapóstinum 9. september 2020