Siðferðilega óverjandi leikreglur

Þorsteinn Pálsson

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ríkissjóður ábyrgist lán ríkisbankanna til Icelandair, sem nemur allt að 108 milljónum Bandaríkjadala. Ríkisstjórnin lítur svo á að íslenska krónan sé ónothæf í þessu skyni.

Rökin fyrir ábyrgðinni eru tvenns konar: Annars vegar er tilvísun í þjóðhagslegt og kerfislegt mikilvægi fyrirtækisins, en hins vegar í tekjutap vegna heimsfaraldurs.

Raunsætt pólitískt mat

WOW var líka kerfislega mikilvægt og fall þess hafði veruleg efnahagsleg og félagsleg áhrif. Ríkisstjórnin taldi samt ekki ástæðu til að bjarga því og færði fyrir því hagfræðileg rök.

Af röksemdum ríkisstjórnarinnar nú má ráða að heimsfaraldurinn ráði mismunandi afstöðu til björgunar þessara félaga. Það er raunsætt pólitískt mat. Enginn stjórnmálaflokkur virðist andmæla því. Álitamálin snúa fremur að aðferðarfræði og leikreglum.

Fyrir tveimur árum sagði forstjóri Icelandair af sér vegna mistaka í rekstri. Kórónaveirufaraldurinn hefur svo leitt til þess að fjárhagsleg endurreisn er nauðsynleg fyrr en ella hefði orðið.

Helmingur hlutafjár í Icelandair hefur verið félagslegt fjármagn lífeyrissjóða. En ríkisstjórnina virðist skorta skilning á því að henni ber að standa vörð um þann hluta lögbundna velferðarkerfisins rétt eins og hinn hlutann, sem fer um ríkissjóð.

Sumir fjárfestar í skrúfstykki en aðrir ekki

Hlutafjárútboð í félaginu fer fram þegar lífeyrissjóðirnir einir eru í skrúfstykki hafta. Annar sparnaður, eins og einokunarhagnaður vegna nýtingar náttúruauðlinda, er hins vegar frjáls.

Vel er hugsanlegt að þátttaka í hlutafjárútboðinu geti skilað arði. Kynning félagsins lítur ekki illa út. Fram hjá hinu verður þó ekki litið að áhættan er mjög mikil og hefur ekki verið metin eins og Ríkisendurskoðun bendir á.

En hver er besta leiðsögnin um hlutföllin milli arðsemismöguleika og áhættu? Svarið er einfalt: Áhugi þeirra einkafjárfesta, sem eru frjálsir.

Verði mikil eftirspurn frá frjálsum einkafjárfestum er það vísbending um að áhættan sé eðlileg. Verði hún af skornum skammti þurfa stjórnir lífeyrissjóðanna aftur á móti miklu sterkari rökstuðning en ella. Að auki yrðu þeir að axla beina ábyrgð á stjórn og rekstri félagsins í framtíðinni.

Með höftunum eru stjórnvöld að þvinga lífeyrisþega til að taka meiri áhættu en aðrir fjárfestar. Þeir eiga fárra annarra kosta völ. Að þessu leyti eru leikreglurnar siðferðilega óverjandi. Og reyndar einnig þjóðhagslega óhagkvæmar.

Þeir lakast settu taka mesta áhættu

Í reynd er Icelandair félagslegt hlutafélag fremur en einkafyrirtæki. Enginn eðlismunur er á félagslegu fjármagni lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Ríkisbankarnir hafa nú ákveðið að sölutryggja hlutafjárútboðið. Þar með verður félagið beint ríkisflugfélag að hluta.

Í þessu ljósi og með tilliti til þess að leikreglurnar, sem lífeyrissjóðunum eru settar, eru siðferðilega óverjandi, er spurning hvort ekki væri betra ráð að einfalda málið með beinni aðkomu ríkissjóðs.

Lífeyrissjóðirnir gætu í því falli tekið jákvæða afstöðu með því að lána ríkissjóði til hlutabréfakaupa. Áhættunni yrði þá dreift á alla skattborgara en ekki hluta launafólks eins og stefnir í. Málið er að fari illa er spurningin hvort skerða á lífeyri eða hækka skatta.

Ríkisstjórnin fer í kringum þetta óhjákvæmilega pólitíska val eins og köttur í kringum heitan graut. En að öllu óbreyttu er hún að koma því svo fyrir að þeir lakast settu í samfélaginu taki mesta áhættu í pólitískri endurreisn félagsins.

Afnám mismununar er lágmarkskrafa

Vegna kreppunnar í þjóðarbúskapnum er til mikils að vinna að fjárhagsleg endurreisn Icelandair takist. En umfram allt þurfa stjórnvöld að vanda aðkomu sína að málinu.

Heiðarleg hagstjórn kallar á afnám einhliða hafta á lífeyrissjóði áður en þeir taka ákvörðun um þessa áhættu lífeyrisþega. Sjóðirnir yrðu þá í sömu stöðu og aðrir fjárfestar. Það ætti að vera lágmarkskrafa.

Trúlega er óhjákvæmilegt að krónan sé í höftum, ein allra gjaldmiðla í okkar heimshluta. Þau mega hins vegar ekki byggjast á svo siðferðilega grófri og efnahagslega skaðlegri mismunun.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. september 2020