Viðreisn

Hjartað slær með Evrópu: Stjórnmálaályktun Viðreisnar frá milliþingi 2.3.2019

05.03.19

Á fyrsta milliþingi Viðreisnar sem haldið var í Hörpu 2. mars sl. undir yfirskriftinni Hjartað í Evrópu var eftirfarandi stjórnmálaályktun samþykkt einróma:

Hjartað slær með Evrópu: Stjórnmálaályktun Viðreisnar

Viðreisn vill skapa framúrskarandi lífskjör hér á landi. Tækifærin til þess eru mörg. Á Íslandi er gnægð auðlinda, þjóðin er vel menntuð og í fararbroddi í jafnréttismálum.

Ódýrara Ísland - forsenda farsælla kjarasamninga

Farsæl niðurstaða í yfirstandandi kjaraviðræðum er brýn. Krónan hefur valdið fólki og fyrirtækjum miklu tjóni. Hátt vaxtastig er fylgifiskur krónunnar. Skortur á samkeppni og miklar innflutningshindranir leiða af sér mun hærra matvælaverð en ella. Íslensk heimili geta sparað tugi þúsunda í mánaðarútgjöldum með lægri vöxtum og lægra matvælaverði. Það er besta og varanlegasta kjarabótin sem við getum öll sameinast um. Viðreisn vill lækka skatta, einfalda þá og samræma. Nauðsynlegt er að ætíð sé gætt fyllsta aðhalds í rekstri hins opinbera, regluverk sé ekki óþarflega íþyngjandi og stjórnsýsla vönduð.

Atvinna og menntun

Skólastarf verður að efla og leggja áherslu á list-, verk- og tæknimenntun á öllum skólastigum. Hefðu nýsköpunar- og tæknifyrirtæki stöðugan gjaldmiðil, lægri vexti og heilbrigt rekstrarumhverfi gæti Ísland tekið virkan þátt í fjórðu iðnbyltingunni. Núverandi rekstrarskilyrði eru óviðunandi sem sést best á því að útflutningur þekkingar- og tæknifyrirtækja hefur staðið í stað undanfarinn áratug.

Fjölga þarf stoðum íslensks efnahagslífs og auka útflutning. Frjór jarðvegur nýsköpunar innan starfandi fyrirtækja, sprotastarfsemi og skapandi greinar eru nauðsynleg til þess að skila bestum ávinningi. Mennta- og heilbrigðisgreinar eru gott dæmi um svið þar sem nýsköpun og frumkvöðlar þurfa að fá tækifæri en flæmist ekki í burtu vegna ofuráherslu stjórnvalda á að steypa alla í sama ríkisrekna mótið.

Það er allra hagur að blómleg byggð sé um land allt. Í stað þess að standa í vonlítilli varnarbaráttu til að viðhalda fortíðinni á að blása til sóknar. Viðreisn vill efla byggð með fjölbreyttu atvinnulífi. Mikilvægt er að styðja bændur til þess að stunda fjölbreyttan búskap og takast á við vaxandi samkeppni. Mikilvægt er að staðfesta sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni og koma á markaðstengdum veiðigjöldum.

Í fremstu röð í umhverfismálum

Mengun umhverfisins og hnattræn hlýnun er mesta ógn samtímans við heimsbyggðina og þar eru Íslendingar ekki undanskildir. Hlýnun hafsins og súrnun sjávar við Íslandsstrendur hefur áhrif á fiskistofna þjóðarinnar. Til að vinna gegn þessari þróun þarf samspil stjórnvalda og almennings með breyttum neysluvenjum. Viðreisn leggur áherslu á að hraða orkuskiptum og að almenningssamgöngur verði styrktar. Jafnframt þarf sérstakt átak til þess að standa við skuldbindingar þjóðarinnar í loftslagsmálum.

 

Farsæl framtíð best tryggð með fullri aðild að Evrópusambandinu

Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefur skilað Íslendingum ómetanlegum ávinningi og þeim ávinningi má ekki glutra niður vegna uppgangs afturhaldsafla í íslenskum stjórnmálum.

Frelsi og lýðræði stafar ógn af uppgangi lýðskrumara víða um heim. Sótt er að mannréttindum og mikilvægt að standa um þau virkan vörð. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er næsta rökrétta skrefið fyrir Ísland til að tryggja stöðu sína í alþjóðasamfélaginu, axla ábyrgð og bæta hag landsmanna allra. Í Evrópusambandinu eru þær vinaþjóðir sem fremst standa í mikilvægri baráttu gegn þjóðernispopúlisma. Þar eigum við fullt erindi og þannig stöndum við best vörð um fullveldi og frelsi þjóðarinnar. Vestræn varnar- og efnahagssamvinna er einn af hornsteinum stefnu Viðreisnar.

Frelsi einstaklingsins, kvenfrelsi og jafnrétti eru grundvallarstoðir samfélagsins. Frelsið tryggjum við best með því að treysta stöðu Íslendinga sem þjóð meðal þjóða.

Fleiri greinar