Að gæða lögin lífi

26.02.19
Höfundur: Jón Steindór Valdimarsson

Alþingi sam­þykkir lög af marg­vís­legu tagi sem segja fyrir um hvernig málum skuli skipað í sam­skiptum manna í milli, kveða á um rétt­indi og skyld­ur. Almenn hegn­ing­ar­lög eru afar mik­il­væg í þessu sam­hengi. Þar er sagt fyrir um hvaða hegð­un, athafnir og athafna­leysi, er metin svo alvar­leg að rétt sé að beita refs­ingum ef út af er brugð­ið. Hegn­ing­ar­lögin eru því góður ald­ar­speg­ill en þó þeirrar nátt­úru að ákvæði þeirra sigla í kjöl­far sam­fé­lags­legra breyt­inga frekar en að þau séu fram­sækin og marki með skýrum hætti stefnu gagn­vart þróun sem er yfir­vof­andi og sendi þannig frá sér skýr refsipóli­tísk skila­boð í for­varn­ar­skyni.

Refs­ingar eiga aldrei að koma í stað for­varna. Refs­ingar eru neyð­ar­úr­ræði þegar for­varnir hafa ekki skilað árangri. Þegar hegn­ing­ar­lögum er breytt er sér­stak­lega mik­il­vægt að fylgja þeim eftir með fræðslu og upp­lýs­ingum til þess að þau skili ætl­uðum árangri.

Breytt skil­grein­ing nauðg­unar

Gott dæmi um mik­il­væga breyt­ingu á hegn­ing­ar­lögum eru lög nr. 16/2018 sem tóku gildi í apríl 2018, Við­reisn lagði málið fram og var það svo sam­þykkt af öllum flokkum á Alþingi. Lögin breyttu skil­grein­ingu nauðg­unar í 194. gr. með því að bæta við því sem í dag­legu tali er kallað sam­þykk­is­regla. Í henni felst í stuttu máli að hver sá sem hefur kyn­ferð­is­mök við aðra  mann­eskju án sam­þykkis ger­ist sekur um nauðgun og að sam­þykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja, en ekki ef beitt er ofbeldi, hót­unum eða ann­ars konar ólög­mætri nauð­ung. Það telst einnig nauðgun að beita blekk­ingum eða not­færa sér villu við­kom­andi um aðstæður eða að not­færa sér geð­sjúk­dóm, aðra and­lega fötlun eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verkn­að­inum eða skilið þýð­ingu hans.

Breyt­ingu fylgt eftir

Til þess að fylgja þess­ari breyt­ingu eftir og virkja for­varn­ar­gildi hennar er nauð­syn­legt að koma efni hennar til skila út í sam­fé­lag­ið, þar með talið rétt­ar­vörslu­kerfið sjálft þannig að reglan verði virkjuð með réttum hætti og skili sér inn í rann­sóknir mála frá upp­hafi til enda og loks til dóm­stól­anna sem dæma. Þess vegna hefur und­ir­rit­aður lagt fram þings­á­lykt­un­ar­til­lögu, ásamt sjö öðrum þing­mönn­um, til þess að fylgja þess­ari mik­il­vægu laga­breyt­ingu eft­ir.

Með til­lög­unni er lagt til að Alþingi álykti að fela for­sæt­is­ráð­herra, í sam­ráði við ráð­herra við­kom­andi mála­flokka, að skipu­leggja og hefja við­var­andi fræðslu, eigi síðar en árið 2020, um kynja­fræði, kyn­frelsi, sjálfs­á­kvörð­un­ar­rétt og þýð­ingu sam­þykkis í kyn­ferð­is­legum sam­skiptum og verja til þess nauð­syn­legum fjár­munum en fyrstu þrjú árin verði að minnsta kosti 150 millj. kr. varið til verk­efna sem verði á ábyrgð for­sæt­is­ráð­herra, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra og dóms­mála­ráð­herra.

Þung­inn verði lagður í gerð fræðslu­efnis og miðl­unar þess. Sjónum verði beint að öllum skóla­stigum sem og öllum stofn­unum rétt­ar­vörslu­kerf­is­ins. Þá verði sér­stök áhersla lögð á að styrkja frjáls félaga­sam­tök, fjöl­miðla og stofn­anir til miðl­unar fræðslu og sér­stakra her­ferða sem beint verði að skil­greindum mark­hópum sam­fé­lags­ins enda mik­il­vægt að styðja við þá sem leggja þessum mál­efnum lið með mik­il­vægu starfi og sér­þekk­ingu.

Það er löngu tíma­bært að leggja af stað í var­an­lega veg­ferð þar sem fjár­magn er tryggt til að allir fái við­eig­andi fræðslu um ofbeldi, sam­skipti, lög­gjöf­ina og kyn­fræðslu. Það hafa verið gerð ótal­mörg tíma­bundin átök í gegnum tíð­ina sem hafa skilað árangri um hríð. Þegar kemur að for­vörnum og fræðslu um þennan mála­flokk duga hins vegar ekki tíma­bundin átök heldur þarf ríkið og fjár­veit­inga­valdið að tryggja að fræðslan sé við­var­andi og nái til allra skóla­stiga og skili þannig til­ætl­uðum árangri til lengri tíma.

Mik­ill ávinn­ingur

Við erum sem betur fer að vakna til vit­undar um skelfi­legar og lang­vinnar afleið­ingar kyn­ferð­is­of­beldis og að ofbeldi af þessu tagi er útbreitt sam­fé­lags­legt mein sem við verðum að horfast í augu við og hefj­ast handa án tafar til að vinna bug á því. Fjár­út­lát á þessu sviði eru smá­munir miðað við þann ávinn­ing sem er í húfi, sam­fé­lags­legan sem fjár­hags­legan þegar til lengri tíma er lit­ið.

Ég skora á alla sem láta þessi mál varða þrýsta á að þessi þings­á­lykt­un­ar­til­laga nái fram að ganga. Með því móti gæðum við sam­þykk­is­regl­una lífi.

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar. Greinin birtist í Kjarnanum 26. febrúar 2019

Fleiri greinar