Viðreisn

Jafnvægi og framsýni - samkeppnishæfara Ísland

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar
10.01.17

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var undirrituð í Gerðarsafni í Kópavogi í dag. Ný ríkisstjórn leggur áherslu á eflingu velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfa og að stöðugleiki í efnahagslífinu verði festur í sessi til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Jafnvægi og framsýni eru leiðarstef ríkisstjórnarinnar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda þar sterkan grunn. Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar.

Heilbrigðiskerfið verður styrkt með fjölþættum aðgerðum, greiðsluþátttaka sjúklinga minnkuð og átak gert í geðheilbrigðismálum. Byggingu meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut verður lokið árið 2023. Áhersla verður lögð á að landsmenn hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu.  

Hagsæld landsmanna og þróun þekkingarsamfélags byggist á öflugu menntakerfi sem býður fjölbreyttar námsleiðir og styður við atvinnulífið. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að öll skólastig verði efld.

Fjölbreytni í atvinnulífinu verður aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, svo sem umhverfisvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Peningastefnan verður endurskoðuð eftir víðtækt samráð með það að markmiði að auka gengisstöðugleika og lækka vexti.

Ríkisstjórnin styður við víðtæka sátt á vinnumarkaði, ábyrgð í ríkisfjármálum og stöðugleika í gengis- og peningamálum. Nauðsynlegt er að sýna ráðdeild í opinberum fjármálum og temja sér öguð og gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu.

Áfram verður haldið í styrkingu á öðrum innviðum samfélagsins, svo sem samgöngum, fjarskiptum og menntakerfi fyrir íbúa um land allt.

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur. Breytingar skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval.

Aflamarkskerfið verður áfram grunnstoð sjávarútvegs á Íslandi. Kannað verður hvaða kostir eru tækir, svo sem markaðstenging, sérstakt afkomutengt gjald eða aðrar leiðir, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum verður eitt meginstefa á sviði umhverfismála. Hún felur í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum auk eflingar græna hagkerfisins.

Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagins, meðal annars Alþingi og dómstólum. Í sáttmálanum er lögð áhersla á að við lagasetningu þurfi að gæta þess að fulltrúar mismunandi sjónarmiða hafi rúman tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Viðmót og aðgengi að stjórnsýslu verður bætt, markviss skref stigin til þess að opna bókhald ríkisins og upplýsingaskylda opinberra aðila gagnvart almenningi efld. Markvisst verður unnið gegn skattundaskotum, þar með talið í skattaskjólum.

Meðal áherslumála í stefnuyfirlýsingunni:

Stefnt verður að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu.

Byggingu meðferðarkjarna við Hringbraut verði lokið árið 2023.

Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum.

Stöðugleikasjóður verður stofnaður til að halda utan um arð af orkuauðlindum og tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum. Sjóðurinn mun einnig geta verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.

Ríkisstjórnin mun styðja sátt á vinnumarkaði meðal annars með stuðningi við SALEK og jöfnun kjara milli opinbera og almenna markaðarins.

Spornað verður við launamisrétti vegna kynferðis með jafnlaunavottun fyrirtækja með 25 starfsmenn eða fleiri.

Hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs verða hækkaðar í öruggum skrefum á kjörtímabilinu.  

Tekið verður upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd og lánveitingar LÍN miðaðar við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu. Hugað verður að félagslegu hlutverki sjóðsins.

Unnið verður markvisst að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvistun þegar fæðingarorlofi sleppir með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga.

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði lögfest sem eitt af þjónustuformum fólks með fötlun í samráði við sveitarfélög.

Myndarlega verður stutt við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina.

Unnið skal að uppbyggingu löggæslunnar og sérstaklega skal horft til aukins álags á landsvísu vegna fjölgunar ferðamanna og landamæraeftirlit styrkt.

Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Stefnt er að því að minnka hlut ríkisins í viðskiptabönkunum í varfærnum skrefum og víðtækri sátt. Áhersla verður lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds. Í því augnamiði verður stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut í afhentan endurgjaldslaust.

Ríkisstjórnin telur kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi. Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu eða sérstöku afkomutengdu gjaldi til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.

Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019.

Á næstu árum verður lögð áhersla á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, til dæmis með bílastæðagjöldum.

Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verður lögð fyrir Alþingi til samþykktar, sem framsýn og fagleg sáttargjörð milli ólíkra sjónarmiða um virkjun og vernd. Unnin verður sérstök áætlun um vernd miðhálendisins.

Gerð verður aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið.     

Unnið verður að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar í viðamiklu samráði undir forystu ráðherranefndar. Byggt verður á niðurstöðum skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti. Niðurstöður vinnunnar liggi fyrir á fyrsta starfsári.

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.

Unnið verður að endurskoðun stjórnarskrár Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Ríkisstjórnin mun bjóða öllum þingflokkum á Alþingi að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem mun starfa með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tillögur að breytingum sem verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019.

Fleiri greinar