Viðreisn

Áskoranir og nýbreytni í skólastarfi

Hvernig framtíðarsýn viljum við?
06.05.17

Gestir Viðreisnar á næsta þriðjudagsfundi, hinn 9. maí kl. 17:00, verða Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga og Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri Grunnskólans NÚ í Hafnarfirði.

Guðjón mun fjalla um áskoranir og framtíðarsýn sambandsins í skólamálum en Gísli mun segja frá sérstöðu grunnskólans NÚ sem er sjálfstætt rekinn grunnskóli fyrir 8.-10. bekkinga með áherslu á íþróttir, hreyfingu, heilsu og vendinám.

Skólar og skólastarf er í flestum sveitarfélögum á landinu stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í rekstri sveitarfélaga og því mikilvægt að framtíðarsýn, stefnumörkun og rekstur taki mið af þörfum ólíkra einstaklinga fyrir þjónustu og hagkvæmni í rekstri. 

Í erindunum og umræðunum á eftir verður leitast við að svara spurningum á borð við: Hvaða breytingar eru nauðsynlegar í núverandi lagaumhverfi til að nútímavæða íslenskt skólakerfi? Eru aðrar hindranir til staðar en lagalegar sem hindra framþróun skólastarfs? Hvaða máli skiptir fyrir einstaklinga sem njóta þjónustu skólakerfisins að bjóða upp á val í hugmyndafræði og ólíka nálgun á hvernig nám er stundað og námsefni?

Fundurinn er skipulagður af málefnahópi Viðreisnar um mennta- og menningarmál.
Fundarstjóri er María Kristín Gylfadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís)

Fundinum verður streymt af Facebook síðu Viðreisnar.
Heitt á könnunni í Ármúla 42.

Allt áhugafólk um menntamál er hvatt til að mæta!

Opið hús Viðreisnar er haldið alla þriðjudaga kl. 17-18 í Ármúla 42, Reykjavík. Fundirnir eru skipulagðir af málefnahópum Viðreisnar til að frjóvga og fræða málefnastarf flokksins. Fundunum er streymt á netinu og eru upptökur fyrri funda aðgengilegar á Facebook-síðu Viðreisnar.