Viðreisn

Opið hús - Airbnb: faraldur eða framtíðarfyrirkomulag?

12.09.17

Airbnb hefur með innreið sinni á gistimarkað gjörbylt gistiþjónustu á stuttum tíma. Þessi þróun hefur ekki verið óumdeild og á meðan ferðamenn fagna aukinni fjölbreytni reyna hefðbundari hótel og gististaðir að bregðast við þessari samkeppni með ýmsum hætti. Borgaryfirvöld víða um heim hafa tekið afstöðu gegn þessari þróun þar sem eftirlit með og skattheimta starfseminnar er ýmsum erfiðleikum bundin. Er Airbnb og önnur heimagisting í ferðaþjónustu faraldur eða einfaldlega það fyrirkomulag sem verður ofan á til framtíðar í ferðaþjónustu? Hvernig er hægt að tryggja að heimagisting reyni ekki um of á burðarþol innviða og samfélaga?

Á opnum fundi Viðreisnar um þetta áhugaverða og heita málefni verður þessari spurningu velt upp ásamt mörgum fleirum og mun Hermann Valsson sérfræðingur um heimagistingu í ferðaþjónustu og Óli Örn Eiríksson deildarstjóri atvinnuþróunar í Reykjavíkurborg fara yfir þróun Airbnb hér á landi og hvernig Reykjavíkurborg hefur brugðist við þessari þróun. 

Óli Örn Eiríksson er deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg og viðskiptafræðingur. Óli mun fara yfir stöðuna í Reykjavíkurborg og hvað hefur verið gert til að bregðast við hraðri útbreiðslu heimagistingar. Hermann Valson er Bsc. Í ferðaþjónustu frá Háskóla Íslands, landvörður og leiðsögumaður. Hermann mun fjalla um þróun heimagistingar hér á landi í samanburði við önnur lönd og fjalla um hver burðargeta samfélaga og innviða sé gagnvart þessari þróun. 

Fundurinn er skipulagður af atvinnuveganefnd Viðreisnar og mun fara fram í opnu húsi Viðreisnar fimmtudaginn 14. september kl. 17:30. Fundarstjóri verður Auðbjörg Ólafsdóttir formaður atvinnuveganefndar Viðreisnar. 

Fundinum verður að venju streymt af facebook síðu Viðreisnar

Heitt á könnunni í Ármúla. Athugið að gengið er inn um bakdyr vegna framkvæmda. Verið öll velkomin!