Viðreisn

Benedikt kynnir aðal áherslur Viðreisnar í Bítinu

Hér má bæði lesa og hlusta á viðtal við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, í Bítinu á Bylgjunni.
14.07.16
Höfundur: Viðreisn

Þann 4. júlí síðastliðinn mætti Benedikt í Bítið á Bylgjunni og ræddi við þá Yngva Eysteinsson og Þorbjörn Þórðarson um Viðreisn.

Rætt var um aðal áherslur flokksins, á borð við landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, auk málefni aldraða og ungs fólks.

Hér fyrir neðan má lesa viðtalið, en þeir Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson og Markús Möller fá þökk fyrir að taka saman textann. Neðst er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

--

Í Bítið á Bylgjunni

4. júlí 2016

Viðreisn er í sókn. Formaðurinn í viðtali.

Bítið heilsar. Yngvi Eysteinsson og Þorbjörn Þórðarson eru með ykkur og hingað í stúdíóið er kominn góður gestur, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Vertu velkominn.

Takk fyrir það.

Hvar horfðirðu á leikinn?

Við vorum heima. Þar var hópur af fólki. Við vorum með grillveislu og heilmikla skemmtun. Dró að vísu aðeins svona úr stuðinu í hálfleik en svo voru menn bara nokkuð kátir í leikslok. Það munaði ekkert mjög miklu að þetta hefði orðið leikur aftur ef við hefðum fengið vítið eða ef við hefðum skorað þegar hann skaut á marklínu. Bara að horfa á björtu hliðarnar á þessu.
Já já, þetta var náttúrlega magnað þetta franska lið.

Já, þeir voru mjög góðir. Mér fannst bara flott að við náðum að skora. Við náðum að skora í öllum leikjunum. Þetta var flott.

Og eina liðið sem skoraði tvö gegn Frökkum.

Já. Já já.

En fylgi Viðreisnar er á talsverðri siglingu. Það hefur tvöfaldast frá því í maí og 9,4% landsmanna ætla að kjósa Viðreisn samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup, sem birtist um helgina. Þið eruð væntanlega að gleðjast yfir þessum tíðindum.

Já, maður er náttúrlega mjög kátur að fá svona góðar viðtökur. Við verðum bara að vona bæði að þetta haldist og kannski að við eigum möguleika á að bæta einhverju við ef við kynnum okkur betur.

Þú skrifaðir grein í Fréttablaðið í vor eða sumarbyrjun með fyrirsögninni „Hvað er Viðreisn?“, þar sem þú varst aðeins að útskýra stóru línurnar í málefnastarfi flokksins. Þú talar þar um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, Viðreisn fari gegn sérhagsmunum. Telurðu að það verði vígstaðan í kosningabaráttunni í haust? Hún muni snúast um þessi mál?

Já, ég held hún muni snúast töluvert um sérhagsmuni gegn almannahagsmunum. Við sjáum það að núverandi ríkisstjórn, alltaf þegar hún hefur haft val þá hefur hún valið sérhagsmunina umfram almannahagsmuni og það þarf að snúa þessu við. Þetta gengur bara ekki lengur og ég held að fólk sé mjög óánægt með það. Við sjáum að það er svona undirliggjandi gremja í þjóðfélaginu með akkúrat þetta.

Þegar þú talar um að ríkisstjórnin hafi tekið sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni, ef við horfum á sjávarútveginn, ertu þá að vísa til þess að sérstöku veiðigjöldin hafi verið lækkuð strax eftir kosningar?

Við sjáum það að þau hafa verið lækkuð alveg geysilega mikið og þeir hafa hafnað því að velja þar markaðsleið, sem við teljum að sé langbesta leiðin. Það er að segja, að það fari bara ákveðinn hluti kvótans á markað á hverju ári og það sé sjávarútvegurinn sjálfur sem ákveður hvert veiðigjaldið verður. Ef gengur vel munum við bjóða hátt í kvótann, ef gengur ekki eins vel þá bjóða menn lægra, og þeir sem hafa ekki peninga aflögu munu þá ekki bjóða. En bara síðasta dæmið, þar sem við sjáum að ríkisstjórnin er að gefa eftir ákveðna skatta til þess að ná saman samningum útvegsmanna og sjómanna. Þarf sjávarútvegurinn styrk upp á hálfan milljarð í viðbót? Ég segi: „Nei, hann gat vel borgað þetta sjálfur.“ Ég er ekkert að sjá eftir því að sjómenn fái góð laun en annað hvort á þetta að gilda um alla eða útvegsmenn eiga að borga þetta.

Hvað með landbúnaðarmálin? Núna hafa til dæmis allar tilraunir, ef við tökum Sjálfstæðisflokkinn bara út fyrir sviga, þá hafa allar tilraunir í málefnastarfi þess flokks í gegnum tíðina til að gera grundvallarbreytingar á landbúnaðarkerfinu ekki gengið eftir og í raun og veru hefur engum flokki tekist að ráðast í meiri háttar breytingar á þessu kerfi. Á síðasta kjörtímabili voru hér við völd Samfylking og Vinstri græn. Þeir gerðu engar stórvægilegar breytingar á þessu kerfi og festu frekar í sessi tollverndina ef eitthvað er, skertu frelsi til innflutnings landbúnaðarafurða. Er raunhæft að gera róttækar breytingar á þessu kerfi?

Já, ég held að þetta sýni einmitt það að það eru mjög margir kerfisflokkar á Íslandi og svona Framsóknarmenn leynast víða. Það er að segja, þeir sem telja að neytendur eigi bara að vera einhvers konar afgangsstærð. Við teljum hins vegar að neytendur eigi að hafa val. Þeir eigi að hafa val, bæði um fjölbreytilegar landbúnaðarvörur og þeir eigi að hafa val um að geta keypt þær á samkeppnishæfu verði. Kerfið sem er núna, þar sem forystumenn flokkanna, annars vegar forsætisráðherra sem nú er og fjármálaráðherra, skrifuðu undir að festa þetta kerfi í sessi í 10 ár, sýnir bara hvernig komið er fyrir flokkunum. Það er ekki einu sinni þannig að þeir treysti næstu ríkisstjórn eða kjósendum fyrir því að marka stefnuna heldur á að binda núverandi kerfi, sem er beint gegn neytendum, í langan tíma. Þetta kerfi er ekki einu sinni gott fyrir bændur, af því menn geta talað um það. Þetta er fyrst og fremst milliliðakerfi. Bændur, ef við skoðum laun þeirra, þá eru þeir með mjög slök laun og það er okkur til skammar að vera með kerfi sem er ríkisstyrkt en er engu að síður sem stétt sem fær einna lægst laun af öllum stéttum landins.

Ætlar Viðreisn að setja þessi tvö mál á oddinn, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?

Já, þau verða meðal þeirra sem við setjum á oddinn en það eru fleiri mál. Við sjáum til dæmis með aldraða, þar eru miklar skerðingar hjá þeim sem til dæmis fá litlar tekjur úr lífeyrissjóðum. Það er nánast jafn sett fólk sem er með á milli 50 og 100 þúsund krónur úr lífeyrissjóði, eins og þeir sem fá ekki neitt. Auðvitað er þetta mikið óréttlæti og þessu ætlum við að breyta, komumst við í aðstöðu til þess. Við viljum að aldraðir fái að vinna lengur. Við viljum að menn séu ekki þvingaðir út af vinnumarkaði, bara vegna þess að þeir eru búnir að ná ákveðnum aldri. En við getum líka horft á hinn endann, þar sem við erum að sjá ungt fólk sem stöðugt flýr úr landi. „Flýr,“ segja menn: „er það ekki djúpt í árina tekið?“ Kannski er það, en það flytur úr landi og kemur ekki aftur til baka. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að hér eru dýr lán, það er dýrt húsnæði, það er dýrt að leigja og menn sjá bara að það er betra og auðveldara að búa annars staðar, jafnvel þó að hér sé mjög margt sem togar í menn. Hérna er fjölskylda og hérna er náttúrlega gott að búa að mjög mörgu leyti en af manna völdum höfum við gert þetta lakara.

Ég tók eftir því í greininni sem þú birtir í Fréttablaðinu, ég hjó sérstaklega eftir því að þú talaðir ekkert um Evrópusambandið.

Já, Evrópusambandið. Menn horfa mikið á það að við séum Evrópusambandssinnuð. Það er að segja að við viljum að þjóðin fái kost á því að kjósa um hvort eigi að halda áfram þessum viðræðum og það er ekkert leyndarmál að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ljúka viðræðunum við Evrópusambandið.

Það er ekkert leyndarmál að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ljúka viðræðunum við Evrópusambandið, en Evrópusambandið er ekki markmið í sjálfu sér: Markmiðið er að bæta lífskjör á Íslandi, og það er ýmislegt í Evrópusambandsaðild sem myndi bæta lífskjörin á Íslandi. Það myndi koma hér sjálfkrafa betri landbúnaðarstefna, þó hún sé sannarlega ekki gallalaus, við myndum eiga kost á því að taka upp stöðugri gjaldmiðil, við myndum eiga kost á því að hafa gjaldmiðil sem væri með lægri vexti, þannig að það myndi stytta okkur mjög leiðina að betri lífskjörum, en ef við náum því ekki, þá verðum við að berjast fyrir þessum markmiðum og þetta eru markmiðin, þá verður að gera það með öðrum hætti.

Hvaða þýðingu hefur þessi ákvörðun Bretlands að segja sig úr Evrópusambandinu fyrir þína afstöðu, Bretar eru mjög stór, stórt viðskiptaland, flytjum mikið út og inn frá Bretlandi?

Já þetta er mjög alvarlegt mál, og þetta er alvarlegt mál hvað frjáls viðskipti milli landa eiga undir högg að sækja.

Við sjáum það að í Bandaríkjunum, þá er Trump einangrunarsinni. Hillary Clinton lýsir yfir efasemdum um að það eigi að skrifa undir þennan Asíusamning um frjáls viðskipti. Nú eru Bretar að hafna Evrópusambandinu eða meirihluti þeirra og við sjáum það að í kjölfarið þá er algjör ringulreið í landinu. Báðir stóru flokkarnir í upplausn, Skotar eru að segja, ja nú verðum við að fá sjálfstæði, London er að missa sína stöðu sem fjármálahöfuðborg heimsins, breska pundið hefur veikst mjög mikið, en það styrktist vel að merkja, þegar menn héldu að Bretar ætluðu að vera áfram. Hvað segir þetta okkur? Segir það okkur að það sé betra að vera í Evrópusambandinu heldur en úti? Mér finnst þessi órói allur frekar benda til þess að það sannist að það hefði verið betra fyrir Breta að segja já, við ætlum að halda áfram.

Það er markmið flokksins að klára viðræðurnar þó að aðildin sem slík sé kannski ekki sjálfstætt markmið, eða hvað.

Já sko, auðvitað klárum við aðildarviðræðurnar með það að markmiði að fá þann besta aðildarsamning sem mögulegt er. Það hefur nú tvennt áunnist með Bretunum, þ.e.a.s annars vegar að þeir gátu samið við Evrópusambandið um ákveðnar tilslakanir og nú sést það að það er hægt að ganga úr Evrópusambandinu, þvert á það sem andstæðingar hafa haldið fram. En auðvitað þýðir það ekki annað en við verðum að leggja alla okkar sál í það þá að ná sem allra bestum samningum. En til skemmri tíma þá eru það allt önnur mál sem brenna á þjóðinni. Það eru þessi mál sem snúa að yngsta fólkinu og það sem snýr að öldruðum og öryrkjum sem fá mjög ósanngjarnar skerðingar.

Það sést á fylgisþróun og muninum á fylgi Sjálfstæðisflokksins og ykkar milli kannana. Þið eruð að sækja fylgi til sömu hópanna. Við sjáum að fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar á sama tíma og þið eruð að bæta við ykkur. Núna eru nokkrir mánuðir til kosninga. Hvernig ætlið þið að stilla upp? Verða prófkjör?

Það verður uppstilling. Það eru uppstillingarnefndir, það er verið að skipa þær núna og búið að gera það, byrjað að gera það í nokkrum kjördæmum, og meira að segja menn byrjaðir að starfa, leita að frambjóðendum, nú sumir hafa gefið sig fram og sagt bara, við höfum áhuga á að vera í framboði.  Þannig að það er það sem við gerum.

Þannig að þið ætlið að stilla upp  í öllum kjördæmum og það ætti að liggja fyrir síðsumars þá eða hvað.

Já það verður eiginlega að gera það svona snemma í september, ekki seinna.

Þorsteinn Pálsson kallaði Viðreisn miðjuflokk í pistli á Hringbraut á dögunum, hvers konar flokkur er Viðreisn, er það miðjuflokkur?

Ég segi við erum frjálslyndur flokkur, ég hugsa að við séum frjálslyndasti flokkurinn sem býður fram núna. Það er að segja við viljum að fólk ráði sér sjálft, en á sama tíma segjum við, það má ekki vera að gleyma fólki sem er ekki, sem þarf aðstoð af einhverju tagi, fólk sem er veikt, fólk sem er aldrað og hefur ekki náð að safna peningum sjálft í lífeyrissjóð. Þjóðfélagið má ekki skilja þessa hópa eftir. Við verðum líka að horfa á það að hér á að vera samfélag áfram til langs tíma, þannig að við verðum að hugsa um það hvernig getum við  búið í haginn fyrir ungt fólk, þannig að það vilji búa áfram á Íslandi, vilji eignast börn og vilji vera hér með heimili til frambúðar.

En þessar breytingar sem þið viljið gera á sjávarútvegskerfinu, landbúnaðarkerfinu og fleira, útilokar það stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn?

Ég held það sé afar erfitt að fara í stjórnarmyndunarviðræður svona í beinni útsendingu og við vitum ekkert hvernig kosningarnar fara. Ég tók eftir því að í þessari skoðanakönnun, sem þú ert að vitna í, þar voru sjálfstæðismenn með svipað fylgi eins og í síðustu kosningum, þannig að hvaðan sem okkar fylgi kemur, ég hefði svona auðvitað haldið að það myndi ekki endilega koma mjög mikið endilega þaðan heldur kannski meira frá fólki sem áður gat hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, hann var alltaf 35 - 40% flokkur, nú er hann svona cirka 25% flokkur. Sama heyrum við um Samfylkinguna, þar er margt fólk sem hefur verið óánægt með þá þróun sem hefur verið á henni undanfarin fimm, sex ár.

En sá flokkur er líka búinn að smættast niður í einhver sex prósent...

Já, já, en svo erum við líka með nýtt afl, sem er með 25-30% sem eru Píratar.

En er ekki staðan einmitt galopin af því að það eru svo margir sem gefa ekki upp, sem eru óákveðnir í könnunum?

Það er nú alltaf þannig, maður heyrði það nú fyrir forsetakosningarnar að sumir forsetaframbjóðendurnir töldu að þeir ættu nú mikið fylgi í óákveðnum. Svo kom nú í ljós að það var nú ekki endilega þannig, oftast er það nú þannig að þeir kjósa með svipuðum hætti eins og hinir. Við verðum auðvitað að spyrja að leikslokum í þessu og þetta eru auðvitað bara kannanir núna. Við eigum eftir að kynna okkur miklu betur, við eigum eftir að kynna okkar frambjóðendur. Ég er viss um það að það verður okkur til framdráttar, við erum með mjög margt gott fólk sem vill gefa kost á sér.

En þú hyggst leiða flokkinn í kosningum, ekki satt?

Ja, ég er formaður.

Já og hyggst þá taka sæti?

Já, ég vil bjóða mig fram. Svo ákveða kjósendur það hvort ég sit á þingi.

Einmitt. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, takk kærlega fyrir komuna í Bítið.

Takk.

--

Viðtalið má hlusta á hér:

 

Fleiri greinar