Viðreisn

Börn námsfólks

22.12.17

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, steig í pontu í 2. umræðu um breytingu á lögum um útlendinga, sem varðar dvalarleyfi vegna iðnnáms. Umræddri breytingu eru ætlað að leiðrétta mistök sem urðu við setningu laga um útlendinga þar sem felld hafði verið út heimild til að veita dvalarleyfi vegna iðnnáms eða annars viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi.

Í umræðum í allsherjar- og menntamálanefnd um breytinguna lagði Jón Steindór til að einnig yrði beint til dómsmálaráðherra að leggja til úrbætur á rétti barna þeirra sem stunda umrætt nám, og grunnnám á háskólastigi, til að dvelja hér á landi með foreldrum sínum. Sú tillaga var samþykkt og segir því í áliti nefndarinnar:

„Núgildandi lög kveða á um að aðeins maki, sambúðarmaki og börn þeirra námsmanna sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, geti með umsókn fengið dvalarleyfi, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna. Nefndin telur að þetta fyrirkomulag feli í sér mismunun eftir tegund náms. Það verður ekki séð hver nauðsyn þess er að undanskilja börn eða maka námsmanna í öðru námi sem 65. gr. laga um útlendinga tekur til, þ.e. að undanskilja iðnnám og grunnnám á háskólastigi. Mikilvægt er að iðnnám og grunnnám á háskólastigi sé að þessu leyti metið til jafns við framhaldsnám á háskólastigi og doktorsnám. Nefndin telur að núverandi fyrirkomulag geti stuðlað að misrétti kynjanna til náms. Þannig gætu konur með börn síður átt möguleika á að sækja hingað í nám ef réttindi barna þeirra eða þeirra sem hér kunna að fæðast eru ekki tryggð með viðunandi hætti. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að leggja til úrbætur við næstu endurskoðun laganna í upphafi árs 2018.“

Tillaga Jóns Steindórs er í samhljómi við frumvarpi þingmanna Viðreisnar, sem lagt var fram 16. desember sl., hvað varðar börn námsfólks. Þess að auki kveður frumvarpið á um að börn fólks með dvalarleyfi á grundvelli skorts á vinnuafli, samnings við önnur ríki, trúboða- og sjálfboðaliðastarfs og mansals, hafi rétt til að dvelja hér á landi með foreldrum sínum. Er þar um að ræða aukinn rétt barna undir 18 ára aldri, sem eiga foreldra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, til að dvelja hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Í ræðu sinni  nefndi Jón Steindór jafnframt að álit allsherjar- og menntamálanefndar væri okkur áminning um að hér sé fleira nám í boði en háskólanám og að okkur sé mikilvægt að hugsa um það. Við erum stolt af okkar iðnnámi og þess vegna sé bragarbót fólgin í breytingunni. Varðandi rétt barna til að dvelja hér með foreldrum sínum sagði Jón Steindór að skilaboðunum hafi verið komið býsna ákveðið á framfæri og hann sé sannfærður um að það fái framgang fljótt og vel. Þá trúi hann og treysti því að nefndin muni vinna ötullega að þessum málum og vera samstíga í þeim.

Fleiri greinar