Viðreisn

Framfaraskref í opinberum fjárfestingum

25.04.18

Rétt í þessu samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga sem Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, flutti. Með honum að tillögunni stóð þingflokkur Viðreisnar og þingmenn úr röðum Pírata, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Það er vel þekkt vandamál að opinberar fjárfestingar rísi ekki undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Kostnaður fer úr böndum, framkvæmdatími verður lengri en til stóð og oft veita þau ekki þann ávinning sem að var stefnt. Til að sporna gegn þessu var lagt til í þingsályktuninni að fjármála- og efnahagsráðherra yrði falið að útfæra stefnumörkun til að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra. Ráðherra væri þannig falið að stofna til formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

Tillögunni var vel tekið og voru umsagnir sérfræðinga samhljóða um að hún fæli í sér mikið framfaraskref. Þannig kom meðal annars fram í umsögnum að mikilvægt væri að taka þessi mál föstum tökum og læra af því sem vel er gert í nágrannalöndum okkar, enda sé allt of algengt að opinber innviðaverkefni fari fram úr áætlunum, bæði hvað varðar tíma og kostnað. Til staðar séu mikil tækifæri til úrbóta í faglegri verkefnaumsýslu og verkefnastjórnsýslu opinberra framkvæmda.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Jón Steindór telur gleðilegt þegar víðtæk pólitísk sátt næst um mál á þinginu. Hann telur rétt að árétta það að til þess að ná þeim samfélagslega árangri sem að er stefnt þurfi að kosta nokkru til. Í ræðu sinni við síðari umræðu á þinginu brýndi hann þingmenn, fjármálaráðherra og fjárlaganefnd til þess að veita þessu verkefni þann fjárhagslega grundvöll sem nauðsynlegur er og vísaði þar meðal annars til þess árangurs sem Norðmenn hafa náð með sinni aðferðafræði á löngu árabili.

Þingsályktunartillagan er annað þingmannamál Jóns Steindórs sem samþykkt er á þessu ári en í síðasta mánuði samþykkti þingið frumvarp hans um breytingar á nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga, sem fól í sér þá réttarbót að samþykki verði sett í forgrunn við skilgreiningu á nauðgun.

Fleiri greinar