Viðreisn

Styttist í kosningar

Nýtum atkvæðisréttinn!
09.05.18

Nú styttist í enn einar kosningarnar. Laugardaginn 26. maí mun Viðreisn taka þátt í sínum fyrstu sveitarstjórnarkosningum.

Flokkurinn býður fram á öllu höfuðborgarsvæðinu, ýmist einn (Reykjavík, Hafnarfjörður, Mosfellsbær) eða í samstarfi við aðra flokka og óháða (BF Viðreisn í Kópavogi, Garðabæjarlistinn, Viðreisn og Neslistinn á Seltjarnarnesi). Í Árborg býður flokkurinn fram í samstarfi við Pírata og óháða. Þá er Viðreisnarfólk á listum óháðra framboða í Fjallabyggð (Betri Fjallabyggð), á Akureyri (L-listinn), á Ísafirði (Í-listinn) og í Reykjanesbæ (Frjálst afl).

Hvert atkvæði mun skipta máli í þessum kosningum, oft hafa úrslit í sveitarstjórn oltið á örfáum atkvæðum til eða frá. Það ríður á sem aldrei fyrr að nýta kosningaréttinn og hvetja aðra í kringum sig til að gera slíkt hið sama.

Kjördag ber upp á helgi þar sem líklegt er að margir verði uppteknir eða ekki heima, til dæmis vegna útskrifta hjá fjölmörgum framhaldsskólum. Við viljum hvetja öll þau sem sjá fram á annir eða fjarveru laugardaginn 26. maí til að kjósa utan kjörfundar. Hvetjið einnig fólk í ykkar nærumhverfi til að kjósa utan kjörfundar ef þið vitið að þau verði bundin á kjördag.

Hægt er að kjósa utan kjörfundar hjá öllum sýslumannsembættum á landinu (sjá nánar). Líkt og í síðustu þingkosningum verður Smáralind utankjörfundarstaður höfuðborgarsvæðisins og opnar þar föstudaginn 11. maí. Þangað til er hægt að kjósa hjá sýslumanni í Hlíðasmára 1, Kópavogi.

Námsmenn og aðrir sem búsettir eru erlendis geta kosið í öllum sendiráðum og hjá ræðismönnum (sjá nánar). Námsmenn á Norðurlöndum þurfa nú að tilkynna það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að þeir séu námsmenn til þess að vera teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Nánari upplýsingar um það og um kjörskrá almennt má finna hér
Við vekjum athygli á því að kjósendur erlendis bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæði sínu til skila í pósti. Hægt er að senda atkvæðin til sýslumanns, kjörstjórnar eða hingað á skrifstofu flokksins í Ármúla 42. Við munum þá sjá um að koma því til skila.
Við erum til taks ef spurningar um kosningaferlið vakna. Velkomið er að senda póst á [email protected] eða hringja í síma 415 3700.

Hvert atkvæði skiptir máli – kjósum öll!

Baráttukveðjur úr Ármúlanum.

 

Fleiri greinar