Viðreisn

Bættum starfskjör kennara - viðbrögð við ályktun Félags grunnskólakennara

22.05.18

Þingflokkur Viðreisnar hefur sent frá sér neðangreinda ályktun:

Kennarar fá ekki laun í samræmi við menntun og álag í starfi. Ein afleiðing þess er að nýliðun í stéttinni er afar lítil og það kemur bæði niður á starfsfólki skólanna og nemendum. Á nýlegum aðalfundi Félags grunnskólakennara var skorað á alla sem láta sig skólastarf varða að mynda þjóðarsátt um hækkun launa og bætt starfskjör grunnskólakennara og skólastjórnenda. Félagsfólk ályktaði að stórsókn í menntamálum væri orðin tóm nema laun grunnskólakennara yrðu gerð samkeppnishæf launum annarra sérfræðinga með sambærilega menntun.

Í stefnu Viðreisnar er lögð áhersla á að grunn- og leikskólar verði eftirsóttir vinnustaðir með því að hækka laun og draga úr álagi í starfi. Þá hefur þingflokkur Viðreisnar lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta með það fyrir augum að leiðrétta kjör þeirra stétta sem eru að miklum meirihluta skipaðar konum og búa við umtalsvert lakari kjör en sambærilegar stéttir þar sem kynjahlutföllin eru önnur. Þingsályktunartillögunni var vísað til allsherjar- og menntamálanefndar, en meirihluti nefndarinnar hefur tafið framgang hennar svo hún hefur ekki komist til síðari umræðu á þinginu.

Aðgerðarleysi stjórnvalda er ámælisvert eitt og sér. Það er sérstaklega alvarlegt að horfa upp á ríkisstjórnarflokkana þrjá, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokk og Framsókn nýta þingstyrk sinn til að standa í vegi fyrir þessari löngu tímabæru leiðréttingu á sama tíma og ríkisstjórnin hælir sér af stórsókn í menntamálum. Tillagan um þjóðarsáttina er löngu tilbúin og ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða hana. Við í Viðreisn tökum undir ályktun Félags grunnskólakennara og skorum á ríkisstjórnina að taka ályktunina til afgreiðslu um leið og þing kemur aftur saman. Í kosningunum á laugardaginn er einfalt að bregðast við ákalli kennara með því að veita Viðreisn brautargengi.  Atkvæði til Viðreisnar er atkvæði til kennara.

Fleiri greinar