Viðreisn

Ný stjórn Uppreisnar

03.10.18

Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, hélt sinn árlega aðalfund þann 29. september sl. í húsakynnum Viðreisnar, Ármúla 42. Ný stjórn var kjörin. Forseti er Kristófer Alex Guðmundsson, varaforseti Kolfinna Tómasdóttir, alþjóðafulltrúi Starri Reynisson, gjaldkeri María Dís Knudsen (vantar á myndina) og viðburðarstjórnandi Ari Páll Karlsson.

Uppreisn var stofnuð í maí 2016 og hefur gegnt lykilhlutverki í stefnumótun Viðreisnar, en Viðreisn er nútímalegur, frjálslyndur flokkur með það að markmiði að berjast fyrir réttlátu samfélagi, stöðugu efnahagslífi og fjölbreyttum tækifærum. Áhersla er lögð á markaðslausnir, vestræna samvinnu, frelsi og jafnrétti. Viðreisn bauð sig fram í fyrsta skipti í Alþingiskosningunum 2016.

Nýkjörinn forseti Uppreisnar ræddi áskoranir stjórnmála í dag og mikilvægi þess að sofna ekki á verðinum.

„Við sjáum uppgang öfgahreyfinga um allan heim sem ala á útlendingahatri og sundrung. Þessar hreyfingar eru ekki bara í fjarska löndum, þær eru einnig hér í okkar eigin bakgarði. Til eru stjórnmálamenn sem hrífa til sín kjósendur með því að telja þeim trú um að fólk af erlendum uppruna sé hættulegt, að eina lausnin sé einangrun og þjóðremba. Stjórnmálamenn sem segja sömu kjósendum að bara þeir gæti hagsmuni þeirra, á meðan þeir standa vörð um úrelt kerfi sem takmarka lífsgæði fólks. Nú er að finna límmiða nýnasista á strætóskýlum, rafmagnskössum og húsveggjum, sem hafa það að stefnu að senda burt alla þá sem ekki eru af „Norður-Evrópskum uppruna.“ Þetta fólk finnur að nú sé þeirra tími til að láta til skara skríða.

Ungt fólk er því miður í hættu að viðra slík viðhorf og hrífast af þessum hreyfingum. En það þarf ekki að gerast. Uppreisn er í lykilhlutverki til þess að sýna ungu fólki kostina við frelsið, femínismann og opna samfélagið sem við trúum á. Við trúum því að hver einstaklingur hafi frelsið til þess að haga lífinu sínu að eigin ósk, enda hefur frelsið í sér þá ábyrgð að troða ekki á réttindum annarra. Við trúum að samfélagið þurfi að beita sér gegn óréttlætinu sem finnst víða, því jafnrétti á Íslandi hefur ekki verið náð. Við trúum því að hagsmunum ungs fólks sé best varið í samstarfi við aðrar þjóðir, við viljum opið samfélag en ekki veggi.

Við megum ekki sofna á verðinum. Baráttunni er aldrei lokið.“

Fleiri greinar