Benedikt Jóhannesson

Um aldamótin hafði nánast hver einasti Íslendingur aðgang að netinu. Maður brosti í kampinn og fannst sem aðrar þjóðir væru fastar á steinöld. Ég heimsótti nýverið fjármálaráðuneytið á Ítalíu. Þar í landi var fimmtungur með aðgang að netinu um aldamótin, en nú hafa Ítalir tekið fram úr okkur á ýmsum sviðum. Sérstaklega getum við lært eitt og annað af þeim í rafrænni stjórnsýslu.

Við þurfum gagnsæi í stað feluleiks hins gamla tíma sem hefur falist í að svara helst ekki fyrirspurnum fyrr en í fulla hnefana. Auðvitað getur enginn svarað því sem hann hvorki veit um né hefur aðgang að, en sumir stjórnmálamenn hins gamla tíma virðast telja að allt skuli vera leynilegt sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um að skuli vera opinbert. Þessi viðhorf valda tortryggni og draga úr trausti almennings.
 

Við höfum sett fram slagorðið: Hægri hagstjórn, vinstri velferð.

Munurinn á okkur og flokkum sem liggja lengst til vinstri er að við ætlum ekki að taka lán fyrir velferðinni eða skattleggja þjóðina í drep. Við ætlum ekki að skuldsetja börnin okkar til að pumpa lofti í velferðarkerfið. Velferðin þarf að byggjast á traustum grunni.

Ari Trausti Guðmundsson, sá ágæti þingmaður VG, gerði lítið úr hægri hagstjórn, vinstri velferð og spurði: „Eða hver myndi skilja ef ég segðist á hinn bóginn stunda vinstri hagstjórn og hægri velferð?“ Það er hárrétt hjá Ara Trausta að tilhugsunin setur að okkur hroll við tilhugsunina. Einmitt þess vegna er okkar slagorð eins og það er.