Viðreisn

Þorgerður Katrín tekur við formennsku í Viðreisn

11.10.17

Benedikt Jóhannesson hefur tekið ákvörðun um að stíga til hliðar sem formaður Viðreisnar. Hann tilkynnti þessa ákvörðun sína á fundi með þingflokki og stjórn flokksins í dag. Á fundinum var samþykkt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og oddviti framboðs Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi tæki við hlutverki hans. Sú ákvörðun var staðfest af ráðgjafarráði flokksins á fundi sem lauk upp úr kl. 18.00 í dag.

Benedikt Jóhannesson, fráfarandi formaður Viðreisnar: „Viðreisn var stofnuð til þess að breyta íslenskum stjórnmálum. Við viljum breyta grundvallarkerfum, til dæmis í landbúnaði og sjávarútvegi, og hverfa frá sveiflukenndum gjaldmiðli og miklu hærri vöxtum en í nágrannalöndum okkar. Við teljum að íslenskir kjósendur vilji hverfa frá stjórnmálum sem snúast um persónur og hugsa um málefni. Við viljum stöðugleika en ekki stöðnun.

Þrátt fyrir að málefnastaða Viðreisnar sé sterk, úrvals frambjóðendur í efstu sætum framboðslistanna og alþingismenn og ráðherrar Viðreisnar hafi verið ötulir frá fyrsta degi er staða flokksins veik í skoðanakönnunum. Sú staða er að mínu viti ekki eðlileg þegar litið er til afar sterkrar málefnastöðu okkar, loforða fyrir síðustu kosningar og efnda þeirra loforða á einungis átta mánuðum í ríkisstjórn. Viðreisn vinnur ötullega fyrir land og þjóð, fyrir almannahagsmuni gegn sérhagsmunum. Ég hef unnið að undirbúningi að stofnun flokksins og störfum hans sleitulaust undanfarin þrjú og hálft ár.  Það er óásættanlegt að sjá að fulltrúar frjálslyndis beri skarðan hlut frá borði og því tel ég rétt að skipta um formann í flokknum á þessari stundu. Þá ákvörðun tók ég einn og án þrýstings frá öðrum.

Mér þykir það skipta miklu meira máli að fulltrúar þeirra hugmynda frjálslyndis og framsækni sem Viðreisn hefur boðað sitji á Alþingi en að ég sé í formennsku.  Með þvi að stíga til hliðar og hleypa öðrum að stjórnvelinum vil ég leggja mitt af mörkum til þess að Viðreisn nái að snúa vörn í sókn á síðustu metrum þessa kosningaundirbúnings. Ég mun að sjálfsögðu vinna áfram í mínu kjördæmi og berjast þar fram til síðasta dags og ég óska Þorgerði Katrínu alls hins besta í þessu nýja verkefni sem hún hefur skyndilega tekið að sér. Ég er sannfærður um að hún mun leiða Viðreisn og hennar glæstu hugsjónir til góðrar niðurstöðu í komandi Alþingiskosningum.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar: „Þessi ákvörðun Benedikts er dæmigerð fyrir það hvernig hann hefur alla tíð  látið sér annt um vöxt Viðreisnar og viðgang. Án hans hefði þessi flokkur ekki orðið til og stofnandinn er trúr hugsjónum sínum með því að stíga til hliðar við þessar aðstæður. Ég vil fyrir hönd alls Viðreisnarfólks þakka Benedikt fyrir elju hans og dugnað í formannsstólnum.

Ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og tek við þessum kyndli með mikilli virðingu fyrir því starfi sem unnið hefur verið innan flokksins og ekki síður fyrir því Grettistaki sem við þurfum að lyfta fram að kosningum. Við þurfum að ná augum og eyrum kjósenda  með bæði áherslur okkar og árangur. Við þurfufm að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að frjálslynd sjónarmið og nauðsynlegar kerfisbreytingar eigi sterka rödd á alþingi og í næstu ríkisstjórn. Við þurfum að standa vörð um þau málefni jafnréttis, efnahags og velferðar sem við höfum haft í forgrunni og eiga svo brýnt erindi í íslensku samfélagi.“

 

Fleiri greinar