Viðreisn

Viðreisn sýnir á spilin

Yfirlit aðgerða 2017-2020
23.10.16
Höfundur: Viðreisn

Viðreisn boðaði til blaðamannafundar 23. október 2016 til þess að kynna þau verkefni sem ráðast þarf í á næsta kjörtímabili, hvernig á að gera það og hvernig á að fjármagna þau.

Viðreisn sýnir á spilin
Helsta vandamál íslensks samfélags er að lífskjör hér eru ekki samkeppnishæf við það sem býðst í nágrannalöndunum. Það er meginástæða þess að brottfluttir íslendingar umfram aðflutta eru 6000 frá 2010. Á sama tíma eru glögg merki þess að landið glími við spekileka.

Helsta markmið Viðreisnar er að snúa þessari þróun við. Að stíga ábyrg skref til að gera lífskjör í landinu samkeppnishæf við önnur lönd. Þetta verður ekki gert öðru vísi en að lækka þann kostnað sem fólk og fyrirtæki ber af því að búa á Íslandi og að styrkja þau kerfi sem við rekum hér sameiginlega, svo að þjónusta þeirra sé á pari við það sem gerist annarstaðar.

Hér þurfa að skapast vel launuð störf sem henta menntun og hæfileikum hvers. Hér þarf að skapa umhverfi sem hentar framsæknu fólki með stórar hugmyndir.

Kostnaðurinn af því að vera Íslendingur er of hár. Ein meginorsök þess eru háir vextir sem eru afleiðing af sveiflukenndu hagkerfi og óstöðugum gjaldmiðli. Íbúðakaupandi á Íslandi má vænast þess að greiða tvisvar - þrisvar sinnum fyrir eign sína í formi vaxta, á meðan íbúðakaupandi á Norðurlöndum greiðir einu sinni fyrir sína.

Lækkun vaxta
Viðreisn vill lækka vexti um 2-4% með því að festa gengi krónunnar við erlenda mynd með svokölluðu myntráði. Miðað við 3% lækkun vaxta myndast 180 milljarða sparnaður á Íslandi hjá ríkissjóði, sveitarfélögum, fyrirtækjum og almenningi. Sem jafngildir árlega um 2,3 milljónum kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi sparnaður skilar sér beint til fjölskyldna, af 20 milljón króna húsnæðisláni myndu vaxtagreiðslur lækka um 50 þúsund á mánuði, sem jafngildir 79.500 króna launahækkun.

Hófleg útgjaldaaukning til að styrkja kerfin okkar
Viðreisn leggur fram í dag vel ígrundaða og vandaða stefnu til fjögurra ára þar sem tilteknir eru helstu útgjaldaliðir sem bæta þarf í ríkisútgjöld til að mæta vanda í m.a. Heilbriðgðis- og skólakerfum landssins. Þá er tilgreint hvernig mæta skuli kostnaðnum sem af hlýst. Viðreisn leggur til ítarlega og raunhæfa stefnu í því hvernig reisa megi við heilbrigðiskerfið og mæta öldrun þjóðarinnar án þess að stefna rekstri ríkissjóðs í voða.

Viðreisn hvetur önnur framboð til Alþingis til að sýna á spilin og útskýra með nákvæmum hætti hvernig þau ætla að standa straum af loforðum sínum. Það er sjálfsögð virðing við þá tugþúsundir kjósenda sem enn eiga eftir að gera upp hug sinn. Kjósendur eiga rétt á að vita hverju atkvæði þeirra skilar og treysta því að ekki sé um innantóm loforð stjórnmálamanna að ræða.

Heilbrigðismál
Forgangsraðað verður í þágu heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu. Árið 2020 verði útgjöld til heilbrigðismála 40 milljörðum hærri á föstu verðlagi en árið 2016. Meðal helstu áhersluatriða eru:

 • Byggingu meðferðarkjarna við Landsspítala verði lokið eigi síðar en 2022. Gert er ráð fyrir 10 milljarða framlagi á ári til byggingarframkvæmda við Landsspítala á kjörtímabilinu. Það er tvöföldun miðað við gildandi 5 ára ríkisfjármálaáætlun.
 • Útgjöld til heilbrigðismála almennt verði aukin um 18 milljarða á föstu verðlagi á kjörtímabilinu. Með því verði unnt að mæta uppsafnaðri þörf á Landsspítala og fyrirsjáanlegri aukingu í kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna mannfjöldaþróunar og hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Sérstök áhersla verður lögð á að ná niður biðlistum, á eflingu sérhæfðrar þjónustu á heilbrigðisstofnunum, fjárfestingu í nauðsynlegum tækjum og búnaði og á rafræna, samtengda sjúkraskrá.
 • Stórátak verði gert í uppbyggingu öldrunarþjónustu. Þar verði 6 milljörðum á ári varið til uppbyggingar og reksturs nýrra hjúkrunarheimila og eflingu heimaþjónustu svo hægt verði að mæta ólíkum þörfum og mismunandi óskum aldraðra.
 • Framlög til heilsugæslunnar verði aukin um 1 milljarð á ári á föstu verðlagi. Sérstök áhersla verði á að hækka þjónustustig heilsugæslunnar, stytta bið eftir viðtali við heimilislækni, efla teymisvinnu og auka aðgengi að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum.
 • Þá verði útgjöld til lýðheilsumála aukin um 1 milljarð á ári til að stórauka heilsueflingu og forvarnir er varðar lífsstílstengda sjúkdóma, ekki síst á sviði geðheilsu.
 • Þá verði 4 milljörðum varið til að draga úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu. Þar verði í fyrstu lögð áhersla á að setja þak á kostnaðarþátttöku fjölskyldna og þeirra sem hafa úr minnstu að spila  og að draga úr kostnaði fólks við geðheilbrigðisþjónustu.

Velferðarkerfið
Á kjörtímabilinu verði sérstök áhersla lögð á lækkun tekjuskerðinga og að lágmarkstekjur aldraðra og öryrkja fylgi lágmarkslaunum á vinnumarkaði.  Til þessara verkefna verði varið 8 milljörðum.

 • Lífeyriskerfi almannatrygginga verði einfaldað og dregið verulega úr skerðingum vegna annarra tekna.
 • Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum.
 • Umbætur verði gerðar á vinnumarkaði til að bregðast við hækkandi eftirlaunaaldri og opnað fyrir þann möguleika að hefja töku lífeyris almannatrygginga samhliða hlutastarfi.
 • Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar.

Menntamál
Á kjörtímabilinu verði lögð sérstök áhersla á eflingu háskólastigsins og tæknivæðingu kennslu í grunn- og framhaldsskólum.

 • Þekking leikur lykilhutverk í atvinnulífi og samfélagi framtíðarinnar. Íslendingar eru verulegir eftirbátar nágrannaþjóða okkar en framlag ríkisins til háskólamenntunar er hér mun lægri en í OECD ríkjunum að meðaltali. Þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin er munurinn enn meiri. Í lok kjörtímabilsins verða útgjöld til háskólanna 6 milljörðum króna hærri á föstu verðlagi en í dag.
 • Viðreisn vill að innan þriggja ára sé þráðlaust háhraðanet að finna í hverjum krók og kima hvers grunnskóla landsins. Að hver kennari og nemandi hafi í höndunum tæki til að skapa og miðla upplýsingum með rafrænum hætti og að allt skólasamfélag landsins sé tengt saman sem órjúfanleg heild.
 • Máltækniverkefni þarf að klárast svo tæknin skilji íslensku fyrir heimili og fyrirtæki. Það eykur verðmætasköpun og treystir íslenska tungu.

Uppbygging innviða
Viðreisn áætlar að tekjur ríkissjóðs af útboði aflaheimilda verði um 20 milljarðar króna á ári. Þessar tekjur munu renna í sérstakan innviðasjóð sem varið verður til uppbyggingu innviða sem verði grundvöllur fjölbreyttrar atvinnustarfsemi.

Hagræðing í ríkisrekstri
Viðreisn leggur áherslu á ábyrgð í ríkisfjármálum. Í núverandi ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir um 15 milljarða króna almennri aðhaldskröfu. Því til viðbótar ætlar Viðreisn að spara 10 milljarða króna á ári í ríkisrekstri með aukinni áherslu á eftirfarandi þætti:

 • Draga úr skattundanskotum með einföldum skattkerfis og aukinni áherslu á skatteftirlit.
 • Aukinni áherslu á útboð opinberra innkaupa
 • Betri nýting og stýring á fasteignum ríkisins
 • Fjárfestingu í netvæðingu opinberrar stjórnsýslu

Einföldun skattkerfis
Tillögum verkefnsstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld verði hrint í framkvæmd. Þessum tillögum er ætlað að einfalda skattkerfið og bæta skilvirkni þess. Tillögurnar eru unnar af okkar færustu sérfræðingum á sviði skattamála

 • Róttækar breytingar á tekjuskattskerfi
  • Tvö þrep 25% á tekjur undir 650 þúsund á mánuði og 43% á tekjur yfir þeim mörkum.
  • Útgreiðanlegur persónuafsláttur sem hækkar með vaxandi tekjum upp að 1.250 þúsund króna árslaunum en skerðist síðan um 29% af tekjum þar umfram.
  • Skattleysismörk hækka úr 140 þúsund krónum á mánuði í liðlega 190 þúsund krónur á mánuði.
  • Samsköttun verði hætt.
 • Einföldun virðisaukaskattskerfis
  • Fækkun undanþágna
  • Eitt skattþrep - 19%
 • Aukin áhersla á auðlindagjöld og græna skatta
  • Auðlindagjöld í sjávarútvegi, orkuiðnaði og öðrum atvinnugreinum sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
  • Grænir skattar - mengun skattlögð. Komi í stað annarra skatta svo sem eldsneytisgjalda.
 • Einföldun skattkerfis
  • Einföldun skattreglna fyrir einyrkja með tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi undir 4 milljónum króna á ári.
  • Einföldun skattskila
  • Skilvirkara skatteftirlit

Innviðasjóður
Við leggjum ríka áherslu á að það sé greitt sanngjarnt afgjald fyrir nýtingu á þjóðarauðlindum = fiskurinn í sjónum í kringum landið er þjóðarauðlind.

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við tölum fyrir markaðsleið í sjávarútvegi sem komi í stað veiðileyfagjaldsins. Markaðsleiðin tryggir að loksins sé greitt sanngjarnt verð fyrir afnotin af auðlindinni. Verð sem er ákvarðað af markaðinum en ekki af mönnum inni í ráðuneyti. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarks arðsemi og opnar á nýliðun.

Viðreisn ætlar að setja á fót Innviðasjóð. Þannig verði afgjaldinu sem fæst fyrir afnotin af auðlindinni varið til innviðauppbyggingar á þeim svæðum þar sem kvótinn er upprunninn. Þannig eflum við tekjulindir sveitarfélaga auðveldum uppbygginu innviða sem er svo nauðsynleg, sér í lagi með auknum ferðamannafjölda. Þetta er spurning um að tryggja öryggi bæði borgaranna og ferðamannana - t.d. Að ráðast í nauðsynlegar samgönguúrbætur, uppbyggingu á ferðamannastöðum, heilsugæslu, fjarskiptamál og að efla löggæslu.

Við teljum að varlega áætlað getum við gert ráð fyrir að kjördæmin fái hlutdeild í sem gæti verið 3-4 milljarðar á hvert landsbyggðarkjördæmi og svipað fyrir höfuðborgarsvæðið ef markaðsleiðin gefur 15 milljarða en 4-5 milljarða á kjördæmi ef hún gefur 20 milljarða.

Fleiri greinar