Króna var það – heillin

Upptaka myntráðs í stað þeirrar peningastefnu sem notuð hefur verið frá síðustu aldamótum hefur verið á stefnuskrá Viðreisnar.  Myntráð er einföld leið til að tryggja gengisstöðugleika og nýta þá kosti sem felast í notkun gjaldmiðils sem er baktryggður með öflugum gjaldmiðli eins og evru.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að forsendur peninga‐ og gjaldmiðilsstefnu Íslands verði endurmetnar. Margir virðast þeirrar skoðunnar að krónan hafi dugað vel og endurskoðun peningastefnunnar ætti að miðast við áframhaldandi notkun íslensku krónunnar. Í framhaldi af því er sagt ósamræmi á milli myntráðshugmyndar Viðreisnar og stefnu þeirra sem vilja halda krónunni. Hér er um misskilning að ræða þar sem íslenska krónan verður ennþá gjaldmiðill í myntráðsfyrirkomulagi. Hins vegar eru mismunandi áherslur hvað varðar framtíðarsýn þar sem Viðreisn er fylgjandi fullri aðild að ESB og evruupptaka þá örugg útgönguleið úr myntráði í enn traustara peningakerfi. Eystrasaltsríkin notuðu myntráð eða myntráðslíki eftir að hafa losnað undan oki Sovétríkjanna með frábærum árangri. Upptaka evru hefur verið hnökralaus eftir aðlögun þeirra gegnum myntráð.

Burtséð frá skoðunum um ESB aðild þá er notkun evru sem akkeri í myntráðsfyrirkomulagi eðlilegur kostur með tilliti til hlutdeildar viðskipta við ESB. Notkun gjaldmiðla sem hafa mun minna vægi í utanríkisviðskiptum getur eytt ábata af lægri viðskiptakostnaði einkum ef slíkur gjaldmiðill sveiflast mikið gagnvart evru.

Íslendingar hafa lengst af búið við miklar sveiflur í gengi, vöxtum og verðbólgu. Eru þær tilfærslur sem þessi óstöðugleiki endurspeglar virkilega betri leið til að sigla þjóðarskútunni en gengisstöðugleiki og aðlögun að gjaldmiðli sem ekki tapar verðgildi sínu gagnvart helstu viðskiptamyntum? Verðhjöðnun vegna mikillar hækkunar á gengi aðallega í kjölfar uppsveiflu í ferðamannaiðnaði virðist sniðug leið til að dreifa ávinningnum til þjóðfélagsþegnanna. Á þessu eru hins vegar neikvæðar hliðar þar sem hagur útflutningsgreina versnar ört en þær eru uppspretta þess góðæris sem  ríkir og verða ávallt aflvaki hagvaxtar í litlu hagkerfi. Í myntráðsfyrirkomulagi helst hagnaður af vaxandi umsvifum í útflutningsstarfsemi innan útflutningsgreinanna sem geta fjárfest eða hækkað laun og þar með hraðað aðlögun að breyttum aðstæðum. Viðvarandi samdráttur í útflutningstekjum vegna magnsamdráttar eða verðfalls kallar hins vegar á hagræðingu  sem getur verið sársaukafull ef varasjóðir eru ekki fyrir hendi.

Hið opinbera reynir ekki að stýra verðlagningu lánsfjár í myntráðsfyrirkomulagi; vextir taka mið af vaxtakjörum í löndum viðmiðunarmyntarinnar ef viðskipti með fjármagn eru frjáls og markaðsaðstæðum innanlands. Öguð og framsýn fjármál hins opinbera eru sérlega mikilvæg í myntráðsfyrirkomulagi þar sem ekki er með öðrum hætti hægt að hafa áhrif á heildareftirspurn til að jafna hugsanlegar hagsveiflur. Stofnun stöðugleikasjóðs gæti verið skynsamleg hliðaraðgerð við upptöku myntráðs.

Myntráðsfyrirkomulag kallar á traust bankakerfi. Litla eða enga lausafjárfyrirgreiðslu er að fá hjá hefðbundnu myntráði sem eingöngu varðveitir gjaldeyrisforða til að tryggja skipti á viðmiðunarmyntinni og íslensku krónunni á föstu gegni. Regluverk ESB um bankastarfsemi sem fellur undir EES samningin hefur tekið mið af lærdómnum af kreppunni 2008. Með þessu regluverki ættu líkur á lausafjárkreppum að hafa minnkað verulega einnig hérlendis. Þótt veð lántakenda sé ávallt fyrsta varnarlína vel rekinna banka mynda gjaldeyriseignir bankanna aðra varnarlínu í myntráðsfyrirkomulagi. Aldrei er hægt að koma alveg í veg fyrir slæm útlánatöp ef fasteignabólur springa eða tekjur dragast verulega saman. Ekkert bendir til þess að bankakreppur þurfi að vera líklegri eða verri í myntráðsfyrirkomulagi.

Mikilvæg spurning fyrir öll lítil hagkerfi óháð peningastefnu er hvernig bregðast eigi við óstöðugum fjármagnshreyfingum. Spákaupmennska vegna vaxtamunar er ekki arðvænleg í myntráðsfyrirkomulagi en fjármagn gæti flætt inn og út af ýmsum öðrum ástæðum t.d. vegna fjárfestingartækifæra. Mikil aukning innflæðis gæti valdið verðhækkunum á eignaverði (fasteignum, hlutafé, skuldabréfum) sem aftur leiddi til annarra verðbreytinga á innanlandsmarkaði. Mótvægisaðgerðir verða að koma í gegnum ríkisfjármál t.d með skattaaðgerðum eða breytingum á auðlindagjaldi eftir atvikum.

Nú er að störfum stjórnskipuð nefnd sem mun fara yfir peningastefnuna og valkosti í gengismálum. Vonir eru bundnar við starf þessarar nefndar. Nauðsynlegt er að traust ríki á peningastefnunni og  víðtæk samstaða verði tryggð ekki síst með aðilum vinnumarkaðarins. Lokamarkmiðið er stöðugleiki, jöfnuður og  efnahagslegar framfarir.

Höfundur er stjórnmálahagfræðingur.