Viðreisn

Viðreisn með 9,7%

24.06.16
Höfundur: Viðreisn

Morgunblaðið birtir í morgun niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar frá því fyrr í vikunni. Viðreisn mælist samkvæmt henni örlítið stærri en Framsóknarflokkurinn, 9,7% gegn 9,5%. Viðreisn bætir því við sig 0,6 prósentustigum frá síðustu könnun en Framsóknarflokkurinn mældist þá með 11,1% og tapar því fylgi. Samfylkingin er ekki langt undan og mælist með 9% fylgi og er því 6. stærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni. Flokkurinn er þó á uppleið því hann bætir við sig 1,4 prósentustigum frá síðustu könnun, en þá hafði flokkurinn einnig bætt við sig fylgi.

Píratar eru áfram stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Morgunblaðið dagana 19.-22. júní sl. Píratar mælast nú með 28% fylgi og tapa 1,9 prósentustigi frá síðustu könnun sem birt var 14. júní sl.

Á eftir Pírötum er Sjálfstæðisflokkur næst stærstur með 19,7% fylgi. Flokkurinn heldur áfram að tapa fylgi og lækkar um þrjú prósentustig frá síðustu könnun. Þar á eftir mælist Vinstri hreyfingin – grænt framboð með 17,5% fylgi og bætir við sig 2,1 prósentustigi frá síðustu könnun þar sem fylgi flokksins hafði farið minnkandi.

Björt framtíð vex einnig og mælist nú með 4,5% fylgi sem gerir 1,6% aukningu frá síðustu könnun. T-listi Dögunar fær 0,6% fylgi í könnuninni og Alþýðufylkingin fær 0,4%. Aðrir flokkar fá samtals hálft prósentustig.

Könnunin náði til 3.000 manns í netpanel Félagsvísindastofnunar HÍ sem samanstendur af tilviljunarúrtaki af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu. Svarhlutfall var 49%. 

Fleiri greinar