Við verðum að þora að klífa fjallið, til að sjá hvað leynist hinumegin

-Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Það er gott að vera komin aftur til starfa á Alþingi. Sumarið var eins alþjóð veit afhjúpandi fyrir ríkisstjórnina og veikleika hennar. Hver ráðherrann situr nú í sínu horni og spilar á sitt hljóðfæri. Vanalega væri það ekki vandamál fyrir utan að þau spila ekki sama lagið. Það er hvorki taktfast né áhrifaríkt. Það er ekki trúverðugt eða grípandi. Og þetta er ekki óskalag þjóðarinnar.

Sú óvenjulega staða er sem sagt komin upp að stjórnarandstaðan þarf ekki að eyða púðri í að skjóta á ríkisstjórnina, sem hefur málefnalega runnið sitt skeið. Stjórnarliðar sjá um það sjálfir.

Þetta er auðvitað dæmalaust, en gefur okkur tækifæri til að ræða grundvallarhugmyndir og hver helstu verkefni næstu ríkisstjórnar verða.

Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að hugmyndafræðin á miðju stjórnmálanna þurfi að koma öflugri inn á Alþingi eftir næstu kosningar. Til að treysta betur efnahagslegan, félagslegan og pólitískan stöðugleika.

– Þú getur horft á ræðuna hérna. Texti ræðunnar heldur áfram hér fyrir neðan.

 

Viðreisn mun byggja á þeim frjálslyndu og víðsýnu hugmyndum sem lagðar voru til grundvallar við stofnun flokksins. Ég er að tala um jafnvægið milli athafnafrelsis og velferðar og mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu. Til að treysta öryggi landsins, auka efnahagslega grósku og skapa jöfn tækifæri.

Stundum heyri ég að stjórnmálabaráttan eigi bara að snúast um þá hluti sem kippa má strax í liðinn og lítið annað.

En mannlegt samfélag og búskapur heillar þjóðar krefst miklu meira af stjórnmálunum. Að þau hugsi um raunhæfar lausnir sem lifa, og þótt eitthvað taki tíma – jafnvel meira en eitt kjörtímabil – þýðir það ekki, að það eigi ekki að byrja.

Brýning Þorsteins Erlingssonar er sígild:

„Því sá, sem hræðist fjallið og einlægt aftur snýr,

fær aldrei leyst þá gátu: hvað hinumegin býr.“

Byrjum á því að spyrja okkur sjálf grundvallarspurninga:

Er það land jafnra tækifæra að bóndi borgi þrefalt hærri vexti af nýja fjósinu en útgerðarmaður af nýja frystihúsinu? Er það land jafnra tækifæra að starfsfólk á hótelinu borgar þrefalt hærri vexti af nýju íbúðinni sinni en eigandi hótelsins af nýju hótelbyggingunni? Og er það land jafnra tækifæra að kynslóð eftir kynslóð horfi á sparnaðinn hverfa og eignir rýrna?

Þessi mismunun er afleiðing þess að við búum í tvískiptu peningahagkerfi. Þau sem eru nauðbeygð til að nota krónuna og svo hin sem geta gert upp í erlendri mynt. Við eigum að tryggja öllum jafnan aðgang að hagstæðum gjaldmiðli – ekki bara sumum.

Þau sem hafna því að rétta hlut borgaranna og litlu og meðalstóru fyrirtækjanna eru í raun að segja að þau vilji ekki jafna leikinn.

Og eigum við að ræða stöðu ríkissjóðs? Yfirgengilegur kostnaður vegna skulda ríkisins þrengir ekki síst að velferðarkerfinu.110 milljarðar á næsta ári – hugsið ykkur hvað við gætum gert með slíka fjármuni!

Flokkarnir lengst til hægri loka augunum fyrir þessum vanda. Vinstri flokkarnir sjá ekki aðra lausn en að hækka skatta. Höfum í huga að við erum nú þegar í hópi þeirra þjóða sem greiða hvað mest í skatta.

Ríkisstjórnin hefur lítið annað gert en að færa fjármagnseigendum feitari bita í formi hærri vaxta. Og jú, bætt á biðlistana. Í stað þess að ráðast að rótum vandans, lækka vaxtabyrði og skapa þannig nauðsynlegt svigrúm fyrir heilbrigðiskerfið. Við verðum að snúa þessu við, þótt það taki tíma.

Og auðvitað eigum við líka að nota vannýtta tekjustofna líkt og auðlindagjöld til að lækka álögur á almenning og fjármagna brýn verkefni. Skárra væri það nú

Verkefnalisti næstu ríkisstjórnar er að lengjast. Enda skilar þessi ríkisstjórn auðu á flestum sviðum.

Ný ríkisstjórn verður að vera tilbúin með markvissa áætlun til þess að ná markmiðum um orkuskipti og grænan hagvöxt. Hún þarf að ryðja brautir og leysa fjötra með frjálslyndri hugmyndafræði á miðju stjórnmálanna – án skyndilausna og með alvöru framtíðarsýn. Ljóst er að þessi ríkisstjórn getur ekki leyst þetta, hægagangur og stöðnun í orkuöflun á síðustu sex árum staðfestir það.

Ný ríkisstjórn verður að tækla húsnæðismálin strax. Við verðum að komast út úr átaksverkefnum inn á braut fyrirsjáanleika og jafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar. Þjóðin á skilið stöðugleika á lána- og húsnæðismarkaði – eins og nágrannaþjóðirnar. En til þess þurfum við annan gjaldmiðil. Almenningur á ekki að þurfa að greiða húsnæðið sitt upp þrisvar.

Ný ríkisstjórn þarf að tryggja heilbrigðan samkeppnismarkað sem neytendur hafa hag af. Við sjáum meðal annars nýleg dæmi um samráð sem opinbera þörfina á að opna stærstu höfn landsins fyrir meiri samkeppni. Jöfn samkeppnisskilyrði eru forsenda fyrir heilbrigðum og frjálsum markaði. En þegar leikreglurnar eru ekki þær sömu. Þá ræður aðstöðumunurinn úrslitum í samkeppni en ekki hæfni. Og neytendur tapa. Það er óréttlæti sem okkur ber að taka á.

Afstaða okkar í Viðreisn er skýr. Við teljum að aðild að ESB myndi auðvelda okkur að ná þessum markmiðum um að tryggja hér jöfn tækifæri og samkeppni. (Á endanum er aðild stærsta velferðarmálið).

Viðreisn vill leggja það í dóm þjóðarinnar hvort eigi að ljúka þeirri vegferð.

Í glænýrri könnun frá Maskínu kom í ljós að ríflegur meirihluti þjóðarinnar vill fá að kjósa um það – en aðeins 19% eru því andvíg.

Viðreisn vill ekki leyfa Brexitssinnum þessa lands að ráða, heldur þjóðinni sjálfri. Þjóðin á að ráða þessu. Af hverju ekki?

Ágætu landsmenn,

Ég hef nú dregið fram nokkur grundvallaratriði sem öll snerta lífsgæði þjóðarinnar –  á sviði velferðar, skattamála, orku- og loftslagsverndar, stöðugleika á húsnæðismarkaði og jöfn samkeppnisskilyrði.

Og gleymum ekki fjölskyldunum þar sem afborganir hafa hækkað af 45 milljóna króna láni úr 190 þúsund í 400 þúsund, eða fólkinu okkar sem situr uppi með dýrustu matarkörfu í heimi –  og nauðsynjar hafa hækkað um 40-60% á einu ári. Og gleymum svo ekki dæmalausri fákeppni á banka, trygginga og flutningamarkaði. Það er á endanum alltaf almenningur sem borgar brúsann.

Allar þessar séríslensku brotalamir birtast okkur aftur og aftur með tilheyrandi tjóni fyrir íslenskt samfélag – en samt yppta gömlu flokkarnir öxlum og grámyglan heldur áfram. Og varðstaðan um kyrrstöðu og óréttlæti.

 En þetta þarf ekki að vera svona. 

Viðreisn er tilbúin í samtalið. Við erum tilbúin í málamiðlanir. En Viðreisn var ekki stofnuð til þess að láta aðra flokka eða skuggaráðgjafa þeirra taka mál út af dagskrá.

Brýning Þorsteins Erlingssonar getur verið okkar leiðarstef, við verðum að þora að klífa fjallið, til að sjá hvað leynist hinumegin.