Efnahagsmál

  • Aukið frelsi í viðskiptum.
  • Nýtum markaðslausnir í þágu almennings.
  • Drögum úr samkeppnishindrunum.
  • Stuðlum að traustri hagstjórn og vandaðri meðferð almannafjár.
  • Tryggjum stöðugt gengi með upptöku evru.

 

Landsþing 11. mars 2018

 

Aukið viðskiptafrelsi, markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar. Þannig má koma framleiðni á Íslandi í fremstu röð. Markaðslausnir verði nýttar þar sem þeim verður við komið.

 

VIÐSKIPTAFRELSI OG ALÞJÓÐLEG SAMVINNA ERU UNDIRSTAÐA GÓÐRA LÍFSKJARA
Lykill að bættum lífskjörum á Íslandi er aukið frelsi í viðskiptum og stöðugt efnahagslíf. Það gagnast neytendum og atvinnulífinu og stuðlar að aukinni framleiðni. Hagsæld á Íslandi hefur um árabil byggst á lengri vinnutíma en þekkist annars staðar. Ástæður lágrar framleiðni eru margþættar, en stafa m.a. af litlum heimamarkaði, íþyngjandi reglum fyrir viðskiptalífið, óskilvirkri auðlindastjórnun, skorti á samkeppni ásamt óhagkvæmni í stjórnsýslu og rekstri hins opinbera. Draga skal úr aðgangs- og samkeppnishindrunum á vegum hins opinbera.

 

ÍSLAND VERÐI ÁFRAM VIRKUR ÞÁTTTAKANDI Í ALÞJÓÐASAMVINNU
Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, hefur stuðlað að framförum og hagsæld. Fullri aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru fylgir viðbótarávinningur sem um munar.

Aðild Íslands að erlendum mörkuðum og þátttaka í alþjóðasamvinnu, m.a. innri markaði á Evrópska efnahagssvæðinu, hefur bætt samkeppnishæfni Íslands. Útflutningur hefur aukist, sem og verðmætasköpun, og framfarir náðst á fjölmörgum sviðum.

Dregið verði úr viðskiptahindrunum og auka skal frelsi viðskipta milli landa í gjaldmiðli sem hentar.

 

STÖÐUGT GENGI SKAL TRYGGT MEÐ UPPTÖKU EVRU
Miklar sveiflur í gengi valda erfiðleikum í efnahagslífinu, halda uppi háu vaxtastigi og hindra raunhæfa áætlanagerð fyrirtækja og almennings.

Á meðan Ísland stendur utan evrusvæðisins skal gengi krónunnar fest við evru og það varið með myntráði hliðstætt því sem hefur verið gert í mörgum smærri ríkjum. Þannig má skapa varanlegan gengisstöðugleika, draga úr vaxtamun við útlönd og þar með lækka verulega vaxtakostnað fyrirtækja og almennings. Með fullri aðild að ESB má taka upp traustan gjaldmiðil og skjóta styrkum stoðum undir fjármálakerfið.

 

MARKAÐSLAUSNIR NÝTTAR Í ÞÁGU BORGARANNA
Einfalda skal rekstrarumhverfi fyrirtækja og styðja við samkeppni eins og kostur er. Miklu hagræði má ná í opinberri þjónustu með einkarekstri og markaðslausnum þar sem þeim verður við komið.

Skattkerfið skal vera einfalt og skilvirkt með sem fæstum undanþágum. Lög og reglur skulu miða að því að stuðla að samkeppni og aukinni nýsköpun og ýta undir blómlegt atvinnulíf. Einfalda skal samskipti viðskiptalífsins við hið opinbera.

Hið opinbera á að draga sig út úr samkeppnisrekstri eða gefa einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að auka samkeppni og ná fram hagræðingu. Markmiðið er alltaf að tryggja góða og aðgengilega þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.

Ríkið selji eignahlut sinn i bönkunum. Leitast verði við að eignarhald verði dreift og að hluta erlent.

 

TRAUST HAGSTJÓRN OG VÖNDUÐ MEÐFERÐ ALMANNAFJÁR
Traust hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, er forsenda hagsældar. Viðreisn vill draga úr ríkisumsvifum, lækka skuldir hins opinbera og einfalda stjórnsýslu.

Leggja skal kapp á vandaða áætlanagerð og markvissa stjórn fjármála hins opinbera, bæði hvað varðar þróun útgjalda og tekna, með það að markmiði að halda skuldum niðri, tryggja forgangsröðun og stuðla að agaðri stjórn til lengri tíma. Ríkisfjármál byggist á jafnræði og aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar.

Stofnanakerfi ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðað með skilvirkni, hagkvæmni og hagsmuni notenda að leiðarljósi. Spornað verði við óþarfa útþenslu stofnana. Stofnanir með eðlislík verkefni verði sameinaðar og gagnlitlar stofnanir lagðar niður. Svigrúm og hvatar stofnana og stjórnsýslu til hagræðingar verði aukið.

 

AUKIÐ FRAMBOÐ HÚSNÆÐIS, NÝTING SÉREIGNAR OG LÆKKUN HÚSNÆÐISVAXTA
Brýnt er að stuðla að nægu framboði húsnæðis og stöðugleika á fasteignamarkaði. Útvíkka skal leið við nýtingu séreignarsparnaðar við kaup á húsnæði.

Ná má fram auknu framboði húsnæðis m.a. með nægum lóðaúthlutunum, einfaldari og sveigjanlegri byggingareglugerðum og auknum hraða í ákvörðunum og samskiptum hins opinbera. Til að aðstoða við kaup á fasteign skal heimild til nýtingar séreignasparnaðar rýmkuð við kaup eða niðurgreiðslu lána vegna íbúðarhúsnæðis. Varanleg lækkun vaxta á húsnæðislánum til lengri tíma er eitt stærsta hagsmunamál kaupenda og leigjenda húsnæðis.

 

ENDURSKOÐUN LÍFEYRISSJÓÐAKERFISINS
Tryggja þarf valfrelsi við lífeyrissöfnun og beina fjárfestingum lífeyrissjóða meira á erlenda markaði til að minnka áhættu og draga úr áhrifum þeirra á íslenskan markað.

Tryggja þarf frelsi fólks varðandi lífeyrissparnað og auðvelda sjóðfélögum að færa réttindi sín og sparnað á milli sjóða með lágmarkstilkostnaði, þannig að eigendur sjóðanna, almenningur, geti veitt stjórnendum þeirra aðhald.

Draga þarf úr áhrifum lífeyrissjóða á íslenska markaði og hvetja þá til að fjárfesta meira erlendis. Sú tilhögun dreifir áhættu við sparnað og ávöxtun. Of sterk staða sjóðanna á Íslandi getur dregið úr skilvirkni markaða og leitt til kerfisáhættu fyrir íslenskan efnahag.

 

——

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Gunnar Karl Guðmundsson er formaður málefnanefndar um efnahagsmál.

Formaður málefnanefndar

Gunnar Karl Guðmundsson