Aukið viðskiptafrelsi, markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar. Þannig má koma framleiðni á Íslandi í fremstu röð. Markaðslausnir verði nýttar þar sem þeim verður við komið.
Landsþing 28. ágúst 2021
Lykill að bættum lífskjörum á Íslandi er aukin alþjóðleg samvinna, aukið frelsi í viðskiptum og stöðugt efnahagslíf. Framtíðarvöxtur atvinnulífs þarf að verða í vel launuðum alþjóðlegum þekkingar- og tæknigreinum til að unnt sé að auka framleiðni, verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör.
Viðskipta- og atvinnufrelsi þarf að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt viðskiptaumhverfi, með stöðugan gjaldmiðil, til að tryggja samkeppnishæfni, verðmætasköpun og hagvöxt. Með því móti verður til nýsköpun og þróttmikið atvinnulíf sem skapar ný og fjölbreytt störf. Einhæfni í atvinnulífi skapar hættu á sveiflum og gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áföllum. Margs konar tækifæri eru til nýsköpunar á Íslandi. Stuðla þarf að því að þau verði gripin. Stöðugleiki skiptir þar mestu máli, en einnig stuðningur við nýsköpun með styrkjum og hvötum til fjárfestinga í nýsköpun.
Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.
Aðild að ESB og upptaka evru er því eitt mikilvægasta og stærsta verkefni á sviði efnahags- sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, sem myndi auka sjálfstæði, fullveldi, bæta kaupmátt og lífskjör almennings umtalsvert og varanlega í öllum byggðum landsins.
Lög og reglur skulu stuðla að samkeppni, aukinni nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Hið opinbera dragi sig út úr samkeppnisrekstri og gefi einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að ná fram hagræðingu til að tryggja góða og aðgengilega þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.
Markaðir er það fyrirkomulag sem við notum við að tryggja hagkvæma framleiðslu stærsta hluta þess sem framleitt er, öllum til hagsbóta. Þung rök þurfa að vera til staðar ef víkja á frá þessari meginreglu. Viðreisn berst gegn kreddum og hagsmunagæslu sem vill draga úr hlutverki markaðslausna. Einfalda skal rekstrarumhverfi fyrirtækja og auka samkeppni og fjölbreytni eins og kostur er. Miklu hagræði má ná í opinberri þjónustu með auknum útboðum verkefna, einkarekstri og markaðslausnum, þó að opinberir aðilar kosti þjónustuna.
Efnahagslegur stöðugleika er forgangsmál. Megináhersla þarf að vera á stöðug ytri skilyrði og ábyrgan rekstur hins opinbera. Með stöðugleika skapast tækifæri fyrir langtíma uppbyggingu hagsældar og fjölbreytts atvinnulífs sem býður sem flestum tækifæri þar sem hæfileikar þeirra nýtast.
Viðreisn leggur til að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Slíkur tvíhliða samningur við Evrópusambandið yrði grunnur að fyrirkomulagi sem yrði hliðstætt gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana, sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.
Traust hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, eru forsenda stöðugleika og hagsældar. Viðreisn vill draga úr ríkisumsvifum, lækka skuldir hins opinbera og einfalda stjórnsýslu.
Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu þar sem allir bera réttlátar byrðar. Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum, bæði innanlands og gegn notkun á erlendum skattaskjólum. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðalegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.
Viðreisn vill að skapaður verði grundvöllur fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs sem skapar samfélaginu ábata til lengri tíma og býr til tækifæri fyrir sem flest okkar til að lifa og starfa við sem best skilyrði í öllum landsbyggðum. Leggja skal áherslu á vöxt atvinnulífs og svæða, m.a. með uppbyggingu klasa, aðstöðu fyrir háskóla og rannsóknarstarf og samstarf við atvinnulíf, þar sem lögð er áhersla á sérstöðu og styrkleika hvers svæðis fyrir sig.
——
Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Gunnar Karl Guðmundsson er formaður málefnanefndar um efnahagsmál.
Gunnar Karl Guðmundsson