Heilbrigðis- og velferðarmál

  • Færum sálfræðiþjónustu inn í almannatryggingakerfið.
  • Styrkjum heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað.
  • Einföldum almannatryggingar og drögum úr skerðingum.
  • Tryggjum öllum möguleika til vinnu og nýtingu krafta sinna til fulls
  • Bætum þjónustu við fólk á öllum stigum heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga.
  • Lögleiðum dánaraðstoð.

 

Landsþing 11. mars 2018

 

Forgangsraða þarf í ríkisfjármálum í þágu fjárfestingar í heilbrigðismálum. Ljúka þarf endurbyggingu Landspítala við Hringbraut fyrir árið 2023. Leggja þarf sérstaka áherslu á uppbyggingu öldrunarþjónustu og að aldraðir fái þjónustu í samræmi við þarfir og óskir. Efla þarf heimahjúkrun og gera átak í fjölgun öldrunar- og hjúkrunarheimila. Auka þarf fjárframlög og samvinnu við sveitarfélög um hjúkrunarheimili.

 

Styrkja þarf heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað og einfalda leið fólks um heilbrigðiskerfið. Stytta þarf bið eftir viðtali við heimilislækni, efla teymisvinnu og fjölga mismunandi fagaðilum innan heilsugæslunnar. Biðlista eftir heilbrigðisþjónustu þarf að stytta eins og framast er unnt. Skilgreina þarf þjónustu sem allir eiga rétt á í sinni heimabyggð og jafna þarf aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu.

 

Þarfir notenda, gott starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna og gott eftirlit með þjónustunni á að fara saman. Velferðarkerfið stuðli að því að allir hafi möguleika til vinnu og geti nýtt hæfileika sína og krafta til fulls. Á Íslandi verði fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð við Norðurlönd, meðal annars í húsnæðismálum og varðandi umönnun barna, einstaklinga með andleg vandamál, aldraðra og fatlaðra. Ríki og sveitarfélög samræmi stefnu og vinni saman að því að veita heildstæða þjónustu og tryggi öllum börnum leikskóla- eða dagvist að loknu fæðingarorlofi.

 

BÆTUM HEILSU OG EFLUM FORVARNIR MEÐ MARKVISSRI LÝÐHEILSUSTEFNU

Heilsuefling og forvarnir eiga að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni sem langtímafjárfesting í heilbrigði og vellíðan þjóðarinnar. Tryggja þarf hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu. Skólar og sveitarfélög verði virk við heilsueflingu og forvarnir. Sett verði markviss lýðheilsustefna og mælanleg markmið og tillit tekið til áhrifa á heilsu og heilbrigði þjóðarinnar í allri stefnumótun ríkisins.

 

Hækkandi lífaldur og vaxandi hlutfall lífsstílssjúkdóma undirstrika mikilvægi heilsueflingar og forvarna. Lögð verði aukin áhersla á fjölbreytileika forvarna í tengslum við áfengi og önnur vímuefni og bætt verði aðgengi að meðferð og eftirfylgd meðal annars í málefnum ungmenna og einstaklinga með börn á framfæri. Auka skal samstarf aðila sem koma að málefnum einstaklinga með áfengis- og/eða annan vímuefnavanda með það markmiði að auka getu þeirra til þátttöku á vinnumarkaði.

 

SAMÞÆTT ÞJÓNUSTA FÉLAGSÞJÓNUSTU, BARNAVERNDAR OG SKÓLA

Samstarf félagsþjónustu, barnaverndar og skóla verði aukið með tilliti til aðstæðna barna sem búa við veikindi foreldra eða aðrar erfiðar aðstæður. Viðhöfð skuli snemmtæk íhlutun, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, gagnvart barnafjölskyldum þar sem að koma mismunandi faghópar, allt eftir þörfum hvers barns.

 

BÆTUM FORVARNIR OG MEÐHÖNDLUN GEÐSJÚKDÓMA

Bætt verði aðgengi að sálfræðiþjónustu og hún sett inn í almannatryggingakerfið. Lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir í tengslum við þau í skólum og atvinnulífinu. Ungmennum verði auðveldað aðgengi að sálfræðiþjónustu meðal annars með því að gera hana aðgengilega innan grunn-, framhalds- og háskólanna.

 

Vanlíðan er oft rót heilsufarsvandamála og mikilvægt er að styðja við börn og ungmenni með sálfræðihjálp. Þannig má mögulega draga úr brottfalli úr skólum og vinnumarkaði, sem og draga úr þunglyndi og kvíða.

 

GREIÐSLUÞÁTTTAKA SJÚKRATRYGGINGA ENDURSKOÐUÐ

Greiðsluþátttaka verði byggð á sanngirni og miðist við hverja fjölskyldu. Útfærslan taki mið af greiðslugetu allra samfélagshópa. Of mikil greiðsluþátttaka getur valdið því að einstaklingar leiti ekki eftir læknisþjónustu og nauðsynlegum lyfjum í tæka tíð. Kostnaður samfélagsins verður þá hærri en ella.

 

DÁNARAÐSTOÐ

Vinna þarf að löggjöf um að við vissar, vel skilgreindar aðstæður og að uppfylltum ströngum skilyrðum verði dánaraðstoð mannúðlegu valkostur fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mæta örlögum sínum með reisn. Sá valkostur byggir á virðingu fyrir rétti sjúklingsins á eigin lífi og líkama, dregur úr líkum á misnotkun og dregur lagalegan og skýran ramma um viðbrögð, óski sjúklingur eftir dánaraðstoð þegar engin önnur úrræði eru í boði.

 

HAGKVÆMARI OG SKILVIRKARI REKSTUR

Stefna á að fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu í þágu almennings. Ýmis frjáls félagasamtök hafa sýnt fram á kosti þess að láta aðra en hið opinbera sinna þjónustu fyrir þeirra hönd.

 

Sjálfstæður rekstur heilsugæslu og tiltekinna stærri læknisverka getur, að ýmsum skilyrðum uppfylltum, verið hagfelldur fyrir sjúklinga, starfsfólk og ríkissjóð. Draga skal lærdóm af reynslu nágrannaríkjanna um það hvar sjálfstæður rekstur á við og hvar ekki. Með fjölbreyttu rekstrarformi mætti auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins, stytta biðlista og bæta þjónustu án aukins kostnaðar fyrir skattgreiðendur. Ávallt skal hafa það til hliðsjónar að heilbrigðiskerfi hér á landi verði öllum aðgengilegt óháð búsetu eða fjárhagsstöðu. Lokið verði við samræmingu skráningar í heilbrigðiskerfinu öllu svo að upplýsingar fylgi sjúklingi.

 

FJARLÆKNINGAR OG FJARÞJÓNUSTA

Tryggja á landsmönnum öllum greiðan aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem völ er á, óháð búsetu. Efla þarf sérhæfða þjónustu á heilbrigðisstofnunum og samvinnu milli þeirra ásamt fjarlækningum og fjarþjónustu á sviði sálfræði- og stuðningsþjónustu. Áhersla er lögð á fjárfestingu í nauðsynlegum tækjum og búnaði. Samhliða skal tryggja að sérfræðiþjónustu sé úthlutað í fjarlækningar og fjarþjónustu.

 

GÆÐASTAÐLAR OG VIRKT EFTIRLIT Í HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU

Ávallt verði leitast við að hámarka skilvirkni heilbrigðiskerfisins og unnið í samræmi við viðurkennda gæðastaðla. Sú tilhögun tryggir einstaklingum sem besta heilbrigðisþjónustu óháð því hvaða úrræði eru nýtt. Eftirlit og eftirfylgni ætti að fara fram af hálfu hins opinbera.

 

STEFNUMÓTUN HEILBRIGÐISKERFISINS

Móta þarf betri stefnu í heilbrigðiskerfinu sem stuðlar að skýrri hlutverkaskiptingu mismunandi stofnana heilbrigðiskerfisins. Horfið skal frá því að álíta að aukin fjárframlög bæti þjónustu sjálfkrafa. Þess í stað skal ráðist í betri stefnumörkun í heilbrigðiskerfinu, þar sem litið skal sérstaklega til verkaskiptingar milli allra stofnana í kerfinu og réttindi sjúklinga gerð skýr. Með því má samhliða tryggja einstaklingum skýran farveg innan heilbrigðiskerfisins sem og hámarksskilvirkni þess skattfjár sem lagt er til heilbrigðiskerfisins.

 

EINFALDARI ALMANNATRYGGINGAR MEÐ MINNI SKERÐINGUM

Lífeyriskerfi almannatrygginga verði einfaldað og skerðingum hætt vegna launatekna.

 

Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Umbætur verði gerðar á vinnumarkaði til að koma til móts við lífeyrisþega með skerta starfsorku með fjölgun hlutastarfa og sveigjanleika í starfi.

 

Bregðast skal við hækkandi eftirlaunaaldri og opnað fyrir þann möguleika að hefja töku lífeyris almannatrygginga samhliða hlutastarfi. Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar. Leggja skal áherslu á að styðja einstaklinga með skerta starfsgetu til þátttöku á vinnumarkaði með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu.

 

AÐGENGI FYRIR ALLA OG SAMNINGUR SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Greitt aðgengi fatlaðs fólks er forsenda virkni í samfélaginu. Vinna þarf sérstaklega að því að bæta aðgengi fyrir alla. Með hækkandi lífaldri fjölgar þeim sem búa við skerta hreyfigetu og við því þarf að bregðast. Viðreisn leggur áherslu á að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fylgt eftir með lögum.

 

Lagt er til að skoðuð verði stofnun embættis umboðsmanns sjúklinga.

 

Aldur í árum er ekki góður mælikvarði á atgervi fólks því að árin segja ekki allt. Framfarir í læknisfræði og bættir samfélagsþættir valda því að bæði meðalævi hefur lengst og fólk heldur mun lengur en áður góðri heilsu og færni. Því er mikilvægt að þjóðfélagið horfi á einstaklinga og getu þeirra og vilja, en horfi ekki eingöngu á ákveðinn aldur til þess að ákveða hver er gamall.

 

Enginn verði þvingaður af vinnumarkaði eingöngu vegna aldurs. Nýtum reynslu og þekkingu allra eins lengi og þeir hafa vilja og getu til þess að vinna.

 

Launatekjur valdi ekki skerðingu á lífeyri frá TR.

 

Efla þarf heimaþjónustu og samþætta hana.

 

Styrkja þarf heilsueflingu aldraðra, t.d. með almennri hreyfingu og tómstundastarfi.

 

Fjármunum til Framkvæmdasjóðs aldraðra verði varið óskertum til þeirra verkefna sem stefnt var að í upphafi.

 

——

 

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Ólafur G. Skúlason, er formaður málefnanefndar um heilbrigðis- og velferðarmál.

Formaður málefnanefndar

Ólafur G. Skúlason