Þjónusta við fólk verði í öndvegi skipulags heilbrigðis- og velferðarmála, ekki form rekstrarins, sem standa á öllum til boða óháð efnahag. Kostnaðargreining verði grundvöllur fjárveitinga til allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Einfalda og samþætta þarf kerfið þannig að það sé skiljanlegt og aðgengilegt fyrir alla. Öflugt og sveigjanlegt almannatryggingakerfi er forsenda lífsgæða og velferðar.
Landsþing 28. ágúst 2021
Viðreisn leggur áherslu á valfrelsi og þjónustumiðaða nálgun. Þar þjónar öflugt opinbert heilbrigðiskerfi með fjölbreyttu rekstrarformi mikilvægum tilgangi. Einkarekstur innan opinbers kerfis er ekki það sama og einkavæðing.
Auka þarf fjármagn til Landspítalans svo hann standi undir þeim gæðakröfum sem nauðsynlegar eru fyrir aðalsjúkrahús þjóðarinnar. Undanfarið ár hefur sýnt í verki það álag sem Landspítalinn er undir og mikilvægi þess að styrkja stoðir hans. Fjármagn þarf að byggja á greiningu á þörf og kostnaðarmati á verkum innan heilbrigðiskerfisins.
Nauðsynlegt er að draga úr bráðavanda og biðlistum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Börn eiga ekki að bíða eftir nauðsynlegri greiningu eða þjónustu. Samþætting og einstaklingsmiðuð nálgun á milli kerfa er lykilatriði. Heilsugæslur eiga að vera öflugar um allt land og veita þá nærþjónustu sem nauðsynleg er. Leysa þarf bráðavanda sem snýr að greiningu og úrlausn mála varðandi skimun á leghálskrabbameini.
Viðreisn leggur áherslu á að andleg líðan sé jafngild þeirri líkamlegu og aðgangur fólks að sálfræðiþjónustu eða annarri nauðsynlegri klínískri meðferð verði niðurgreiddur. Í því skyni leggur Viðreisn áherslu á Sjúkratryggingar Íslands fái fjármagn til að semja við sjálfstætt starfandi meðferðaraðila í samræmi við nýsamþykkt lög um niðurgreiðslu þjónustunnar.
Viðreisn leggur áherslu á að fólk eigi gott líf og þau kerfi sem eiga að halda utan um það verði einfaldari og sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og skerðingum hætt.
Búum eldra fólki áhyggjulaust ævikvöld. Framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum verður að vera í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Koma þarf á millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimila og tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk. Viðreisn leggur áherslu á að starfslok miðist við færni fremur en aldur. Samhæfa þarf stuðning ríkis- og sveitarfélaga.
Tryggjum öryrkjum mannsæmandi lífskjör. Sköpum samfélag sem byggir á þátttöku allra og virðum frelsi fólks til að stjórna eigin lífi. Styðjum fólk með skerta starfsgetu til starfa með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu.
Virðum réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum. Hið opinbera á að vera leiðandi í sköpun hlutastarfa fyrir fatlað fólk. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Viðreisn leggur áherslu á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Innleiða þarf valfrelsi varðandi lífslok þannig við vissar vel skilgreindar aðstæður, að uppfylltum ströngum skilyrðum, verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mæta örlögum sínum með reisn. Sá valkostur byggir á virðingu fyrir rétti sjúklingsins á eigin lífi og líkama, dregur úr líkum á misnotkun og dregur skýran lagalegan ramma um viðbrögð, óski sjúklingur eftir dánaraðstoð þegar engin önnur úrræði eru í boði. Tryggja þarf að sjúklingum, og eftir atvikum aðstandendum þeirra, sé tafarlaust tilkynnt ef grunur er um að mistök hafi verið gerð og hvaða úrræði kunni að standa þeim til boða. Sett verði á eftirlitsnefnd sem starfar þvert á allar heilbrigðisstofnanir og fylgir eftir tilkynningum um möguleg mistök heilbriðgðisstarfsmanna í heilbrigðisþjónustu.
Viðreisn leggur áherslu á að nýta eigi tækni til að tengja betur sérfræðinga og fólkið í byggðum landsins og stuðla þannig að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónusta er þar lykilatriði. Efla þarf heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins og gera starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna eftirsóknarverðara. Hugsa þarf skipulag sjúkrahúsa upp á nýtt með það fyrir augum að tryggja aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu og auðvelda sérhæfingu þeirra á ólíkum sviðum.
Forvirkar aðgerðir og forvarnir eiga að vera leiðarstef í skipulagi ríkisins í heilbrigðis- og velferðarmálum. Með öflugri forvarnarstefnu tryggjum við betri líðan og minna langtímaálag á heilbrigðis- og velferðarkerfin. Samhliða afglæpavæðingu fíkniefna þarf að efla forvarnir og fræðslu. Góð lýðheilsa, upplýst samtal og aðgengi að virkum úrræðum er forsenda góðra lífsgæða í íslensku samfélagi.
Heilsuefling þarf að vera hluti af samfélaginu öllu til að koma í veg fyrir veikindi, bæði andleg og líkamleg. Fræðsla um mataræði, hreyfingu, andlega vellíðan og snemmtæk íhlutun eiga að vera hluti af námi barna. Tryggja þarf aðgengi að fræðslu og heilsueflandi úrræðum handa öllum út æviskeiðið.
——
Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Arnar Snær Ágústsson er formaður málefnanefndar um heilbrigðis- og velferðarmál.
Arnar Snær Ágústsson