Skipti ég minna máli?

Starri Reynisson

Fyrir nokkrum árum flutti ég frá Akranesi til Reykjavíkur. Utan álagstíma tekur um það bil 45 mínútur að keyra frá mínu gamla heimili á hið nýja, vegalengdin er minni en 50 kílómetrar, sjóleiðis um 20. Við þessa flutninga missti ég um það bil helminginn af atkvæði mínu í alþingiskosningum.

Minnkuðu lýðræðisleg réttindi mín allt í einu vegna þess að ég flutti suður fyrir Hvalfjörð? Eru íbúar höfuðborgarsvæðisins ómerkilegra fólk en íbúar annara landshluta? Hvernig er það réttlætanlegt að kosningaréttur sé misjafn eftir búsetu?

Það þætti varla nokkurri manneskju ásættanlegt ef um væri að ræða samskonar mismunun á öðrum réttindum. Flestum þætti með öllu óréttlætanlegt ef íbúi í Hafnarfirði hefði tvo þriðju af tjáningarfrelsi íbúa á Hellu, eða ef íbúi í Safamýri hefði aðeins helming af eignarrétti Siglfirðings. Hvers vegna eru lýðræðisleg réttindi litin öðrum og léttvægari augum en önnur réttindi okkar?

Við búum í lýðræðisríki og því er eðlileg krafa að pólitískar skoðanir allra hafi jafnt vægi óháð búsetu. Alþingi á að endurspegla bæði vilja þjóðarinnar og það hvernig hún er samsett á hverjum tíma. Það á að vera sjálfsagt að kennari á Kópaskeri og kórstjóri á Kársnesi hafi jafn mikið að segja um það hvernig samfélaginu er stjórnað. Meðan atkvæðavægi er ójafnt eftir landsvæðum getur það aldrei verið raunin.

Ein þeirra breytinga sem nauðsynlegt er að gera á stjórnarskrá Íslands, ásamt skýru auðlindaákvæði, er ákvæði um jafnt vægi atkvæða. Þannig, og aðeins þannig, tryggjum við að raunverulegur vilji almennings endurspeglist í ákvörðunum stjórnvalda til framtíðar.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. febrúar 2020