Nú þegar rauðar stormviðvaranir hætta að hrella okkur á þriggja daga fresti, sólin er farin að setjast eftir kvöldmat og hæsta punkti COVID-19 kúrfunar virðist vera náð, er vert að hafa í huga að þetta fordæmalausa ástand er aðeins tímabundið. Það er hamlandi meðan á því stendur en sem betur fer sér fyrir endann á því.

Þegar blásið hefur verið til víðtækra og krefjandi aðgerða til að tryggja stórum hópi fólks öryggi, er ekki ósennilegt að vissrar tregðu gæti til að hleypa sama hópi úr því skjóli. Þess vegna er mikilvægt að skarpar línur séu dregnar í þeim efnum og að neyðarúrræðum verði aflétt með skýrum hætti á tímapunkti sem staðið verður við. Annars er hætta á að við festumst í faðmi öryggisins. Heilbrigðisyfirvöld eiga mikið hrós skilið fyrir að gera strax ráð fyrir að aðgerðir í þágu sóttvarna taki enda og undirbúa af kostgæfni hvernig og hvenær aflétta eigi þeim hömlum. Þau viðbrögð eru ekki sjálfgefin.

Fölsk tækifæri, í nafni öryggis
Það er ekki að ástæðulausu að samkomubann, lokun landamæra og aðrar álíka takmarkanir séu tímabundin neyðarúrræði. Allar hörmungar fela þó í sér sóknarfæri fyrir misvitra menn. Boðberar einangrunar og ótta grípa hvert tækifæri sem gefst til að næra staðfestingartilhneigingu sína og boða fagnaðarerindið um „öruggara“ samfélag.

Nú hafa þeir sem óttast útlendinga og sjá þeim flest til foráttu, fengið byr í seglin þar sem veiran er vissulega upprunnin í útlöndum. Aðrir kappkosta að forða okkur frá hverju því sem reynist erlent og koma þannig hagsmunaaðilum frá erfiðri en hollri samkeppni. Enn aðrir nýta tækifærið og skammast út í almenningssamgöngur, göngugötur í miðbæ Reykjavíkur og hvað eina annað sem hvetur fólk til að koma saman, á kostnað dreifðrar byggðar og einkabíls. Í nafni öryggis.

Heilbrigð samfélög eru opin og frjáls
Neyðarúrræði á borð við þau sem gripið hefur verið til hér á landi og víðs vegar um heim eiga eingöngu við þegar aðstæður eru jafn öfgakenndar og nú. Heimsbyggðin á varla annarra kosta völ. Að sama skapi mega þau ekki vera viðvarandi þar sem þau geta valdið – og eru þegar farin að valda – gríðarlegum efnahags- og samfélagslegum skaða. Forsenda þess að samfélög nái að vaxa og dafna er fólgin í frjálslyndum og heilbrigðum mannlegum samskiptum. Hvers kyns einangrun, íþyngjandi hömlur og höft hafa tilhneigingu til að afvegaleiða samfélög, líka hér heima. Því má ekki gleyma þegar við einbeitum okkur að því að komast undan þessum tímabundnu takmörkunum sem við höfum nauðsynlega þurft að setja okkur.

Beita hefur þurft erfiðum aðgerðum sem koma í veg fyrir að veiran nái meiri útbreiðslu hér á landi. Það er vel, en þær aðgerðir eru neyðarúrræði og mega því ekki, eðli málsins samkvæmt, taka lengri tíma en nauðsyn krefur. Ýmsir munu reyna að nýta sér faraldurinn til að ná fram sínum sjónarmiðum um áframhaldandi lokun, hvort sem það er vegna sérhagsmuna, eða einfaldlega ótta, en við græðum ekkert á því að fylgja þeirra fordæmum. Samfélög þrífast nefnilega ekki til lengdar í einangrun og fjarlægð, heldur aðeins þegar þau fá að vera frjálslynd og opin.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. apríl 2020