Fögnum þvinguðum framförum

Af mikilli aðdáun hef ég fylgst með skólafólki takast á við flókinn veruleika Covid-19 faraldursins, þar sem hvert nýja úrlausnarefnið rekur annað. Leik- og grunnskólar halda sjó með nýju skipulagi þar sem hver starfsmaður er mikilvægur hlekkur í heildarkeðjunni og framhaldsskólar hafa haldið úti fjarnámi þar sem kappkostað er að halda unga fólkinu við efnið og reynt eftir fremsta megni að missa engan frá borði.

Tæknin kemur sannarlega við sögu í skólahaldi grunn- og framhaldsskólanna, nú þegar lögð er áhersla á fjarkennslu með alls konar sniði. Kennarar ná að funda með nemendahópunum sínum í gegnum fjarfundabúnað og geta þannig haldið utan um sitt fólk þótt enginn mæti í hefðbundna skólastofu. Ég fylgdist með grunnskóla færa allt sitt starf frá 1. og upp í 10. bekk yfir í fjarkennslu. Sú vinna skilaði um leið mikilli þekkingu, sem á eftir að nýtast öllu skólasamfélaginu til lengri tíma. Ég fylgdist líka með unglingaskólum þar sem leikur einn var að halda uppi hefðbundnu skólastarfi því tæknin hafði þegar verið innleidd sem eðlilegur hluti námsins.

Allt menntakerfið hefur brugðist mjög hratt við áður óþekktum aðstæðum. Margir voru reiðubúnir að leita tæknilausna í skólastarfinu, hver og einn lagði sitt af mörkum til að sú vinna skilaði árangri, allir voru reiðubúnir að bæta við sig þekkingu og tryggja að tæknin nýttist sem allra best. Menntakerfið mun búa að þeirri þekkingu og reynslu til frambúðar.

Fyrir nokkrum vikum hefðu sumir e.t.v. freistast til að segja að tæknin fælist í framtíðinni. Núna getur enginn neitað því að tæknin hefur ruðst á ógnarhraða um allt skólakerfið, eins og samfélagið allt, sem leitar allra leiða til framfara og betri þjónustu, öflugri og öruggari upplýsinga. Til að tæknin nýtist samfélaginu sem best þarf hins vegar að tryggja aðgengi allra að tækni til daglegra nota. Það er mikilvægt jafnréttismál á slíkum umbreytingatímum, auk þess að styrkja hvern og einn til lýðræðislegrar þátttökum í stafrænu umhverfi.

Menntakerfið hefur beitt sér fyrir vagn stafrænna umbreytinga og hefur alla burði til að draga hann áfram inn í framtíðina. Allir hljóta að gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra breytinga, sem við höfum tileinkað okkur af áður óþekktum hraða. Við erum fjórða iðnbyltingin og stafrænar lausnir hluti af hversdagslífi okkar. Hikum ekki við að tileinka okkur alla kosti tækninnar, en gætum þess jafnframt að allir sitji við sama borð.

Tækifærið er núna.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í Garðabæ.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. apríl 2020