Líf­æðin Hamra­borg og tæki­færi fyrir lifandi sam­fé­lag

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir virk umræða meðal Kópavogsbúa um vinnslutillögu að fyrirhuguðu nýju deiliskipulagi fyrir hluta miðbæjar Kópavogs. Sá hluti er Hamraborg/Fannborg og Traðarreitur vestri. Vinnslutillagan var kynnt í Skipulagsráði um miðjan mars. Á þeim fundi sat ég einn hjá við afgreiðslu málsins. Það dylst engum sem skoðar tillöguna að byggingarmagn ofanjarðar upp á 53.000m2 og upp á allt að 13 hæðir á þessum reit er allt of langt seilst í nýtingu. Það er heldur ekki í nokkru samræmi við umhverfið eða hugmyndir okkar íbúa um eðlilega þéttingu byggðar og lifandi samfélag.

Covid 19 kom í veg fyrir að unnt væri að kynna tillöguna í venjubundnu kynningarferli. Hún var því kynnt á vef Kópavogsbæjar, auglýst í Fréttablaðinu og á rafrænum kynningarfundi. Hraðinn í ferlinu er hins vegar óskiljanlegur, bæði í ljósi þess að Hamraborgin er hjarta bæjarins og miðja höfuðborgarsvæðisins og þess að Kópavogsbúar vilja raunverulega hafa á því skoðun hvernig nærumhverfið þeirra og „hjarta“ bæjarins byggist upp. Það er því með öllu óásættanlegt að keyra málið í gegn á ógnarhraða á tímum þegar Covid ógn hamlar íbúum aðkomu að ferlinu. Íbúar kalla á aukið og virkt samráð og það er okkar kjörinna fulltrúa að sinna því kalli.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur markað sér stefnu til 2030 sem byggir á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í hugmyndinni um sjálfbært samfélag er falin trygging fyrir tækifærum fyrir alla til áhrifa og að íbúar eru virkjaðir til ákvarðanatöku. Það er engin ástæða til að missa sjónar á þessum markmiðum og veita afslátt af lýðræðinu. Þvert á móti ætti að herða á þeirri tryggingu sem felst í þátttöku íbúa við ákvarðanatöku um stór mál.

Við Íslendingar höfum séð nóg af mistökum í skipulagsmálum. Við höfum líka fengið nóg af skorti á samráði við íbúa um skipulagsmál. Breyting og þétting byggðar kallar á aukið samráð við íbúa, íbúasamtök, hagsmunasamtök, rekstraraðila og aðra mögulega hagsmunaaðila. Það eru ekki ný sannindi að samtalið er nauðsynlegt til að ná bestu mögulegu niðurstöðu og það er skýlaus krafa okkar í BF Viðreisn að fólkið sem býr og starfar í bæjarfélaginu hafi tækifæri til að hafa áhrif á mótun og uppbyggingu umhverfis síns.

Á fundi skipulagsráðs í síðustu viku kom fram ný vinnslutillaga að deiliskipulaginu. Sú tillaga gefur raunveruleg tækifæri til að skipuleggja svæðið í takti við þarfir og vilja íbúa og hagsmunaaðila. Við fulltrúar minnihlutans í skipulagsráði – BF Viðreisn, Samfylkingin og Píratar – höfum lagt ríka áherslu á virkt þátttökulýðræði í öllu ferlinu. Við munum ekki gefa neinn afslátt frá því.

Höfundur er bæjarfulltrúi BF Viðreisnar í Kópavogi og fulltrúi í skipulagsráði.

Greinin birtist fyrst á Vísi.is 13. maí 2020