Ríkisstjórnina skortir þrek og þor

Ábyrgð þeirra sem gefa sig að stjórnmálum er mikil, ekki síst þeirra sem halda um stjórnartaumana hverju sinni. Að sama skapi standa þau oft frammi fyrir erfiðum og flóknum úrlausnarefnum. Þá skiptir höfuðmáli að hafa góðan skilning á vandanum en ekki síður að markmið og leiðir við lausn hans séu valdar á grunni skýrrar pólitískrar sýnar. Að mælistikan á gæði og skynsemi lausna sé öllum ljós.

Samráð og samvinna er aðalsmerki góðra stjórnvalda. Gagnrýni og fjölbreyttum skoðunum á að mæta af virðingu og svara með rökum. Það er ekki við því að búast að allir séu sömu skoðunar. Skynsöm stjórnvöld eiga að hafa burði, þrek og þor til þess að horfast í augu við það. Farsælast er að horfa á heildarmyndina en láta ekki einstaka hluta eða sértæka hagsmuni byrgja sér sýn.

Það er miður að ríkisstjórnin virðist ekki þessum kostum búin. Gagnrýni og skoðanir sem falla ekki að skapi hennar eru sagt vera tækifærismennska. Það kann ekki góðr lukku að stýra og sýnir vanmátt en ekki styrk. Það dugar ekki að skýla sér bak við að verkefnin séu erfið og að sumu leyti fordæmalaus og því megi ekki trufla eða gagnrýna. Þvert á móti er á slíkum tímum mikilvægt að hafa sem flesta með í ráðum og leggja hlustir við öllum góðum ráðum.

Hætt er við ef þetta verður leiðarstefið í störfum ríkisstjórnarinnar muni veturinn reynast henni erfiður og það mun bitna á okkur öllum.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. ágúst 2020