Betri al­mennings­sam­göngur fyrir okkur öll í Garða­bæ!

Lélegar almenningssamgöngur í Garðabæ gera það að verkum að börn og ungmenni komast við illan leik ferða sinna. Þau sem æfa íþróttir og eru búsett utan miðju Garðabæjar lenda í töluverðum vandræðum. Mörg þurfa að stóla á skutl foreldra sinna, sem er ekki til þess fallið að styðja við einfaldara líf barnafjölskyldna. Í Garðabæ er heldur ekki til staðar raunverulegt val um bíllausan lífsstíl til að sporna við loftslagsvánni. Í skipulaginu hefur ekki verið hugað að þeim sem vilja einfalda fjölskyldulífið.

Fjármögnum almenningssamgöngur og hækkum þjónustustigið

Þessu viljum við í Viðreisn breyta. Við viljum setja fjármagn í öflugar og tíðar almenningssamgöngur, svo að þær verði að raunverulegum valkosti og styðja við umhverfisvænan lífsstíl fólks. Við viljum að Garðabær gangi í takt við höfuðborgarsvæðið allt og setji strætósamgöngur á dagskrá.

Við í Viðreisn viljum sjá Garðabæ taka stór skref inn í nútímann. Það er ungt fólk að flytja í bæinn, til að mynda í Urriðaholt. Breytt íbúasamsetning kallar á breytta þjónustu. Auk þess að hækka þjónustustigið fyrir alla íbúa með bættum almenningssamgöngum, viljum við öflugar og öruggar samgöngur hjólandi og gangandi um allan Garðabæ. Við viljum sjá Álftnesinga komast ferða sinna með nútímalegum ferðamáta og tryggja að skólabörn komist á viðburði inn í miðbæ Garðabæjar án mikillar fyrirhafnar vegna stopulla ferða Strætó.

Við erum ekki eyland

Lélegar almenningssamgöngur eru ekki til þess fallnar að styðja við markmið okkar í loftslagsmálum. Þar fer hljóð og mynd ekki saman. Í vistvænu hverfi Urriðaholti eru almenningssamgöngur með þeim verstu sem íbúum á höfuðborgarsvæðinu er boðið upp á. Þær eru helst sambærilegar við það sem íbúum Álftaness er boðið upp á, þar sem skólabörnum gefast ekki sömu tækifæri til að sækja viðburði í miðbæ Garðabæjar vegna lélegra strætósamgangna.

Gerum betur með Viðreisn

Þjónustustig almenningssamgangna er í höndum bæjaryfirvalda sem stýra því með áherslum í fjármögnun. Hér höfum við skýrt dæmi um bein áhrif Sjálfstæðismanna á lífsgæði og þjónustustig við íbúa Garðabæjar þveran og endilangan.

Friðlýsingar lands hafa átt hug meirihlutanns allan á meðan önnur lífsgæði er tengjast umhverfissjónarmiðum og valfrelsi um umhverfisvænan lífsstíl hafa ekki átt upp á pallborðið. Við í Viðreisn erum umhverfisvænn flokkur og þessu ætlum við að breyta. Við viljum Garðabæ í fremstu röð fyrir íbúa og fyrir umhverfið.

Með ferskum vindum Viðreisnar verður slík breyting að veruleika.

Greinin birtist fyrst á Vísi 10. maí 2022