Valfrelsi fyrir börnin

Á Íslandi sker­um við okk­ur úr hvað viðkem­ur fjöl­breytni í skóla­starfi. Ef við ber­um okk­ur sam­an við hinar Norður­landaþjóðirn­ar er hlut­fall sjálf­stætt starf­andi skóla lang­lægst hér á landi. Árið 2020 voru nem­end­ur sjálf­stætt starf­andi skóla ein­ung­is 2,4% nem­enda í grunn­skól­um á landsvísu en ef litið er til Dan­merk­ur telja nem­end­ur sjálf­stætt starf­andi skóla 20% grunn­skóla­nem­enda. Sjálf­stætt starf­andi skól­ar eru mik­il­væg­ir þegar kem­ur að fjöl­breytni kennslu- og náms­hátta og eiga það sam­eig­in­legt að vera stofnaðir með bjart­sýni og löng­un til að gera nærsam­fé­lagið betra. Hið op­in­bera þarf að búa til rými fyr­ir fjöl­breytta kosti fyr­ir börn með því að styðja þétt við bakið á sjálf­stætt starf­andi skól­um.

Sjálf­stætt starf­andi skól­ar starfa eft­ir aðal­nám­skrá en að auki nýta þess­ir skól­ar vel það svig­rúm sem stend­ur til boða. Sveigj­an­leik­inn felst bæði í áherslu á þau fög sem kennd eru en ekki síður í þeim kennsluaðferðum sem skól­arn­ir not­ast við. Þess­ir skól­ar eru því um margt mjög ólík­ir hefðbundn­um skól­um sem eru á veg­um borg­ar­inn­ar. Börn eru jafn ólík og þau eru mörg, því höfða ólík­ar kennsluaðferðir til ólíkra barna og er því mik­il­vægt að þau geti notið sín í því náms­um­hverfi sem þeim hent­ar.

Landa­kots­skóli er dæmi um sjálf­stætt starf­andi skóla sem hef­ur farið vel með þann sveigj­an­leika sem rekstr­ar­formið býður upp á. Skól­inn kenn­ir eft­ir leiðsagn­ar­mati, í skól­an­um er alþjóðleg deild sem kenn­ir eft­ir alþjóðlegri nám­skrá og er mik­il áhersla lögð á tungu­mála­nám en nem­end­ur læra frönsku til jafns við ensku strax í fimm ára bekk. Skól­inn ver fleiri kennslu­stund­um í list- og verk­grein­ar en aðal­nám­skrá ger­ir kröf­ur um og hef­ur skól­inn reynst gott at­hvarf fyr­ir nem­end­ur sem finna sig ekki í skól­um á veg­um borg­ar­inn­ar.

Gef­um börn­um tæki­færi

Ef við lít­um til þeirra val­kosta sem reyk­vísk börn hafa þegar kem­ur að mennt­un á grunn­skóla­stigi stend­ur þeim ann­ars veg­ar til boða að sækja skóla rek­inn af borg­inni og hins veg­ar sjálf­stætt starf­andi skóla. Borg­in greiðir með hverju barni sem sæk­ir sjálf­stætt starf­andi skóla, en læt­ur ein­ung­is 75% af því fjár­magni sem hún borg­ar með hverju barni í sín­um skól­um fylgja því. Þessi 25% þurfa skól­arn­ir því sjálf­ir að brúa og er það gert með þar til gerðum skóla­gjöld­um sem við þekkj­um ekki í skól­um rekn­um af borg­inni. Það er óger­legt að hafa skóla­gjöld­in það há að þau nái að dekka þessi 25% og er því gríðarleg krafa um hag­kvæm­ari rekst­ur þar sem skóla­gjöld dekka a.m.k. 15% kostnaðar.

Við í Viðreisn ætl­um að gæta sann­girni þegar kem­ur að val­kost­um og tæki­fær­um barna. Börn eiga að njóta val­kosta. Liður í því yrði að greiða 100% með hverju barni gegn því að skól­inn gang­ist við því að rukka ekki skóla­gjöld. 100% fjár­magn þyrfti að miða að stærð skól­ans enda líta sveit­ar­fé­lög til þess við fjár­mögn­un eig­in skóla. Þannig skap­ast tæki­færi fyr­ir öll börn að sækja nám eft­ir hent­ug­leika óháð fjöl­skylduaðstæðum. Barn á að geta sótt skóla rekna af borg­inni eða sjálf­stætt starf­andi skóla eft­ir því hvar barn­inu líður best og er fjár­magn sem fylg­ir barni liður í því. Við vilj­um að fjöl­skyld­ur og börn hafi meira val.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2022