Garðavogur?

Svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fékk fyrir skömmu til umsagnar tillögu um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar. Tillagan hefur með hagsmuni Garðabæjar að gera og snertir um leið hagsmuni Kópavogsbúa.

Lagt er til að breyta vaxtalínu Garðabæjar, í bakgarði sveitarfélagsins og í návígi íbúðahverfi Kópavogs, til þess að geta skipulagt nýtt svæði undir atvinnustarfsemi sem ekki fellur að hugmyndum um blandaða byggð.

Tillagan er liður í að liðka fyrir mikilvægri uppbyggingu á þéttingarreit Garðabæjar sem er snertiflötur eins stærsta sameiginlega verkefnis sveitarfélaganna, hágæða almenningssamgangna; Borgarlínu. Á þessum þéttingarreit Garðabæjar er nú atvinnustarfsemi þess eðlis að hún verður að víkja fyrir blandaðri byggð, sem er mikilvæg stoð Borgarlínu.

Fyrirhugað athafnasvæði er alls ekki óumdeilt og gæta þarf hagsmuna allra aðila; íbúa Garðabæjar, Kópavogsbæjar sem og náttúrunnar. Þá þarf að taka tillit til gildandi skipulags útivistarsvæðisins, sem nefndur hefur verið Græni trefilinn og nær allt frá Esjuhlíðum í norðri til Helgafells í suðri.

Skipulagsmál er enn eitt verkefnið sem þarfnast umsagnar og samþykkis á formlegum vettvangi sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sveitarfélögunum er ætlað að stilla saman strengi og vinna að sameiginlegri sýn þar sem hagsmunir allra sveitarfélaganna eru undir. Ef um eitt og sama sveitarfélagið væri að ræða væru þetta sameiginlegir hagsmunir íbúa sama sveitarfélagsins og flækjustig meðferðar málsins öll einfaldari. Nú fer þetta í gegnum Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, þar sem fulltrúar meiri- og minnihluta allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sitja. Hlutverk hennar er að standa vörð um sameiginlega heildarsýn á skipulagi allra sveitarfélaganna sjö.

Snertifletirnir eru endalausir og varla hægt annað en að staldra við til að vega og meta tækifærin sem felast í sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til hagsbóta fyrir íbúa. Þessi nágrannasveitarfélög ættu í ríkari mæli að horfa til tækifæranna sem felast í að vera saman en í sundur. Samstarfsverkefnin eru nú þegar fjölmörg.

Í skipulagsmálum gerum við einfaldlega ríkari kröfu um heildarskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið allt og höfum þegar vettvang þar sem hugmyndir eins og þessi eru lagðar fram til umsagnar og samþykkis allra hinna þegar svo ber undir. Hér þarf ekki endilega að ræða sameiningu allra sveitarfélaganna í eitt en nágrannasveitarfélög líkt og Kópavogur og Garðabær (eða Garðavogur) eru dæmi um sveitarfélög sem horfa mætti til í þeim efnum og jafnvel enn sunnar til Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 29. janúar