Eldhúsdagsræða 2023 – Hanna Katrín Friðriksson

Viðreisn hefur verið óþreytandi við að hvetja til og leggja fram leiðir til að hemja ríkisútgjöld, benda á leiðir fyrir ríkisstjórnina til að taka í alvöru þátt í baráttunni gegn verðbólgu í stað þess að kasta heitu kartöflunni beint í fangið á heimilum landsins.

 

Eldhúsdagsræða Hönnu Katrínar Friðriksson, 7. júní 2023 

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þetta hefur verið sérkennilegur vetur. Efnahagsástandið er grafalvarlegt. Staða heimilanna er grafalvarleg. Ástandið kallar á hnitmiðaðar aðgerðir af hálfu stjórnvalda fyrir heimilin í landinu, en þess í stað hefur tilvera ríkisstjórnarinnar einkennst af yfirgripsmiklu verkleysi.

Horfðu á ræðuna hér:

Það eru engar ýkjur þegar ég segi að Seðlabanki Íslands hefur verið skilinn einn eftir með verðbólguverkefnið í fanginu og þess vegna hefur hann hækkað stýrivexti þrettán sinnum í röð. Á þessum tíma hefur ríkisstjórnin breytt orðræðu sinni nokkuð. Það tók einhver skipti fyrir stjórnvöld að viðurkenna að draumsýnin um að efnahagsstjórnsnilld þeirra hefði skapað lágvaxtalandið Ísland væri ekkert annað en nákvæmlega það, draumsýn, á meðan ekki er ráðist að rótum vaxtavandans; hinum ofursveiflukennda örgjaldmiðli okkar sem vinnur með örlitlum hluta þjóðarinnar og gegn almenningi.

Hversu galið er það, að á sama tíma og íslensk stórfyrirtæki fá eðlilega að gera upp í erlendri mynt þurfi íslenskur almenningur að búa við vaxtaokrið sem er fylgifiskur íslensku þjóðarinnar? Hversu galið, í alvöru? Þessu vill Viðreisn breyta.

Eftir fyrstu vaxtahækkanirnar fóru einstaka ráðherrar og stjórnarþingmenn að skammast í almenningi fyrir að kunna ekki að fara með peninga, fyrir að sinna ekki verkefnum stjórnvalda. Næst átti að mála verkalýðshreyfinguna upp sem vonda kallinn. En hvernig getur vinnumarkaðsmódelið okkar orðið líkara því sem þekkist í löndunum í kringum okkur? Til þess þarf stöðugan gjaldmiðil og sterka efnahagsstjórn. Þetta er ekki síst ástæða þess að Viðreisn veit að upptaka evru veitir bestu lífskjarabótina og að þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið er besta leiðin til þess. Og nei, það er engin ástæða til að óttast að við verðum eitthvert meðaltal þar inni. Við verðum áfram góða Ísland, bara betra góða Ísland.

Loksins fór svo síast inn hjá stjórnvöldum að það væri samdóma álit allra annarra en stjórnarflokkanna að boltinn væri hjá þeim. En hvað gerðist? Ríkisstjórnin kynnti til sögunnar tillögur sem augljóst er að duga ekki til að kæla niður verðbólguna, duga ekki til að ýta undir lækkun vaxta og duga ekki til að hjálpa heimilum og þeim fyrirtækjum sem hafa tekið á sig séríslenskar vaxtahækkanir. Á meðan svo er, er mestu byrðunum áfram velt yfir á ungt fólk og barnafjölskyldur.

Viðreisn hefur verið óþreytandi við að hvetja til og leggja fram leiðir til að hemja ríkisútgjöld, benda á leiðir fyrir ríkisstjórnina til að taka í alvöru þátt í baráttunni gegn verðbólgu í stað þess að kasta heitu kartöflunni beint í fangið á heimilum landsins. Við erum sannarlega ekki ein um að leggja þetta til. Hverjir aðrir hafa gert það? Flestir hagfræðingar þessa lands, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Samtök atvinnulífsins, Bandalag háskólamenntaðra og listinn er töluvert lengri.

Það nálgast fullkomnun í valkvæðri hlustun hjá ríkisstjórninni hvernig hún bregst við. Ráðherrar sperra eyrun þegar einhverjir draumórar eru viðraðir um að við getum skattlagt okkur út úr vandanum en afneita á sama tíma tillögum Viðreisnar sem vill hemja ómarkvissan vöxt ríkisútgjalda, hemja stjórnlausan vöxt ríkisútgjalda.

Á morgun stendur til að afgreiða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Meðferð fjárlaganefndar hefur tekið margar vikur. Fjöldi umsagnaraðila hefur mætt á fundi og kallað eftir þátttöku ríkisstjórnarinnar í baráttunni. Hvað gerir meiri hluti fjárlaganefndar? Hann skilar auðu. Engar breytingar og ekkert aukið aðhald, nokkuð sem allir sem komu fyrir nefndina sögðu nauðsynlegt fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. En meiri hlutinn skilar auðu.

Hér er hagvöxtur, þökk sé öflugu atvinnulífi og fólksfjölgun. Verðbólgan er hins vegar mun meiri en í löndunum í kringum okkur og hin séríslensku vaxtakjör þreföld á við það sem fólk þar býr við. Þessar aðstæður valda stórum hluta þjóðarinnar miklum vanda, ekki síst barnafjölskyldum og ungu fólki með viðkvæman fjárhag. Það er á ábyrgð stjórnvalda að leggja nótt við dag til að koma með lausnir og það hefur ekki staðið á okkur í Viðreisn að vinna með stjórnvöldum að góðum verkum þar.

Mig langar hér undir lokin að nefna að því miður hafa mörg brýn úrlausnarefni fallið í skuggann af efnahagsástandinu. Sum eru auðvitað nátengd því, t.d. staðan í heilbrigðismálum og húsnæðismálum. Markvissar aðgerðir sem tryggja arð þjóðarinnar af nýtingu náttúruauðlinda eru líka löngu tímabærar. Síðan eru órædd stór mál eins og loftslagsvandinn, Lindarhvolsmálið, nýfallinn dómur um úthlutun makrílkvóta, snjóhengjan sem mun falla yfir okkur vegna ÍL-sjóðsins og fleira til.

Ég verð líka að nefna hér ýmis smærri frelsismál sem skipta miklu máli í daglegu lífi fólks sem of oft þarf að verja allt of miklum tíma í slagsmál við úr sér gengin kerfi. Þar virðist ríkisstjórnin stundum misskilja hlutverk sitt og passa frekar upp á kerfin en fólkið.

Síðast en ekki síst kemur þetta: Um nýliðin mánaðamót féll úr gildi sérstök niðurfelling tolla á vörum frá Úkraínu, nokkuð sem stjórnvöld þar í landi óskuðu eftir í viðleitni sinni við að viðhalda atvinnulífi landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök. Evrópusambandið og Bretland, sem svöruðu kalli Úkraínu líkt og Ísland fyrir ári síðan, hafa framlengt tollaundanþáguna. Það hefur Ísland ekki gert og ég neita að trúa því að gæslumenn þröngra sérhagsmuna fái að ráða hér för. Ég neita að trúa því að stjórnvöld ætli að gera okkur svo lítil. Ég ætla frekar að trúa því að áður en hlé verður gert á störfum þingsins fyrir sumarið verðum við búin að tryggja áframhaldandi stuðning við stríðshrjáða Úkraínu sem berst fyrir okkar vestrænu gildi, svo ég vitni í síendurtekið orðalag íslenskra ráðherra.

Herra forseti. Kæru landsmenn. Vonandi verður næsti þingvetur gjöfulli þegar kemur að góðum verkum stjórnvalda og samstöðu stjórnmálanna í þágu heimilanna í landinu. Það er, þegar upp er staðið, okkar langstærsta verkefni núna. — Gleðilegt sumar.