Viðreisn vill að þing verði kallað saman til að ræða sölu Íslandsbanka

Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Þorgbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir

Þingflokkur Viðreisnar hefur farið fram á að Alþingi verði kallað saman sem fyrst vegna niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins um lögbrot við sölu Íslandsbanka.

Þingmenn Viðreisnar telja mikilvægt að þingið ræði þá alvarlegu stöðu sem upp er komin og taki afstöðu til fyrri kröfu stjórnarandstöðunnar um skipan rannsóknarnefndar til að rannsaka málsatvik sölunnar og ferlisins við hana frá upphafi til enda.

Eftir að þingi hefur verið frestað getur forseti Íslands kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til að kröfu forsætisráðherra eða ef ósk berst um það frá meirihluta Alþingismanna.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir um þetta: „Um leið og í ljós kom að brotalamir höfðu verið á söluferlinu fórum við fram á að sérstök rannsóknarnefnd yrði skipuð. Skýrsla Ríkisendurskoðunar og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins staðfestir að sú leið hefði átt að vera farin strax í upphafi. Það blasir við að þáttur fjármálaráðherra sem undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhluta þess í fjármálafyrirtækjum og annarra ábyrgðaraðila hefur ekki verið rannsakaður til hlítar.“