Eldhúsdagur: Guðbrandur Einarsson

Virðulegur forseti. Að horfa til baka yfir störf vetrarins hér á þinginu er ágætur siður. Af mörgu er að taka og í augum margra hlýtur brotthvarf forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, úr íslenskum stjórnmálum að vega þungt. Annað sem verður skráð í sögubækurnar er að lögbrot við sölu Íslandsbanka hafi valdið því að ráðherra var refsað, fyrst með tilfærslu yfir í annan ráðherrastól og síðar með einhverri undarlegustu stöðuhækkun síðari tíma.

Fyrir mig sem þingmann Suðurkjördæmis og Suðurnesjamann er stærsta málið þær hörmungar sem dunið hafa yfir Grindavík. Hamfarirnar, sem hófust þann 10. nóvember, gerðu það að verkum að allir Grindvíkingar þurftu að yfirgefa sveitarfélagið og hafa ekki getað komið aftur. En sem betur fer erum við Íslendingar dugleg við að takast á við erfiðar aðstæður og staða Grindavíkur og íbúa hennar er einsdæmi í sögunni, í það minnsta frá Eyjagosinu fyrir 50 árum síðan, og vonandi mun ekkert annað sveitarfélag þurfi að takast á við áskoranir sem þessar. Margt hefur verið gert til þess að styðja við íbúa Grindavíkur og verja þá innviði sem Suðurnesin treysta á og þurfa á að halda, en er búið að gera nóg? Er nóg að styðja bara stærsta hluta hópsins og er þá í lagi að sleppa hinum? Þegar fasteignafélagið Þórkatla var stofnað var hreinlega tekin meðvituð ákvörðun um að skilja ákveðna hópa eftir. Að miða eingöngu við brunabótamat kom sér illa fyrir marga og þá sérstaklega ungt fólk. Ofan á það voru sett ýmis skilyrði sem gera það að verkum að fjöldi einstaklinga fær ekki lausn sinna mála. Það getur ekki selt eigur sínar og þarf á sama tíma að greiða afborganir og himinháa vexti af þessum eignum. Þetta mun auðvitað leiða af sér fjöldagjaldþrot þar sem fólk mun að sjálfsögðu gefast upp.

Minni fyrirtæki hafa allt frá því að þessir atburðir hófust beðið með kökkinn í hálsinum eftir úrlausn sinna mála. Nú eru liðnir sjö mánuðir og ekkert bólar á niðurstöðu. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík hafa reynt eins og kostur er að halda úti starfsemi í bænum en nú er svo komið að þau eru líka farin að segja upp fólki. Það er erfitt að komast til Grindavíkur og það er erfitt að halda úti starfsemi þar sem innviðir eru ekki í lagi. Það gefur því augaleið að þessi fyrirtæki eiga sér engan rekstrargrundvöll við aðstæður sem þessar. Óskir þeirra hafa m.a. verið að þau verði hreinlega keypt upp til að geta komið sér upp aðstöðu annars staðar eða þá að þeim verði veittir einhvers konar flutnings- eða leigustyrkir. Eftir því sem ég kemst næst eru engar hugmyndir á borðinu um að koma til móts við þessa aðila og það er sárt til þess að hugsa að þeirra bíði ekkert annað en gjaldþrot.

Auðvitað fylgir því áhætta að vera í rekstri en annars vegar þá bera menn ekki ábyrgð á því þegar jörðin rofnar undir fótum þeirra og hraun vellur upp á yfirborðið og hins vegar þá þurfa stjórnvöld að horfa til þess hvort sé kostnaðarsamara að styðja fyrirtækin í að halda sér á floti eða horfa upp á fjöldagjaldþrot grindvískra frumkvöðla.

Þá hefur sveitarfélagið sjálft í samstarfi við aðra aðila, m.a. Verkalýðsfélag Grindavíkur, óskað eftir því að veittur verði afsláttur af stimpilgjöldum vegna kaupa Grindvíkinga á húsnæði utan sveitarfélagsins, að Grindvíkingar geti tekið út séreignarsparnað sinn skattfrjálst og að lögin um hlutdeildarlán verði útvíkkuð sérstaklega fyrir Grindvíkinga. Allt þetta myndi hjálpa fjölskyldum til að standa af sér storminn án verulegs tilkostnaður fyrir ríkið. Þrátt fyrir það hefur ekkert af þessu orðið að veruleika og næsta víst að ekkert gerist í þessum málum á þessu þingi sem nú er að klárast. Það eru napurleg tíðindi fyrir Grindvíkinga.

Grindavíkurbær hefur um langa hríð verið í hópi fjársterkustu sveitarfélaga á Íslandi en berst nú við að halda sjó. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að ekki fari fram skólahald í Grindavík á næsta ári, yngri börnin úr Grindavík eru hvött til þátttöku í íþróttastarfi í þeim sveitarfélögum sem þau hafa flutt til og 150 starfsmönnum sveitarfélagsins hefur nú verið sagt upp vegna stöðunnar. Tekjugrunnur sveitarfélagsins er algerlega brostinn því að með flutningi íbúa yfir í önnur sveitarfélög hverfur útsvarið. Sveitarfélagsins bíða útgjöld upp á milljarða eigi að koma sveitarfélaginu í fyrra horf.

Virðulegi forseti. Mig langar til að nota þetta tækifæri og lýsa aðdáun minni á því æðruleysi sem Grindvíkingar hafa sýnt allan þennan tíma, á þeirri samstöðu sem ríkt hefur og þeim vilja sem Grindvíkingar sýna í þeirri viðleitni að reisa samfélagið sitt upp aftur. Það er hins vegar okkar alþingismanna að standa með þeim og styðja þá í þessum erfiðu aðstæðum sem þau eiga við að glíma á svo mörgum sviðum. Við erum enn í miðri á og megum ekki gleyma Grindavík. Það dugar ekki að hjálpa bara sumum. Við verðum að hjálpa öllum. — Kæru landsmenn. Gleðilegt sumar.