Saga mín í Reykjavíkurborg

Ég flutti sextán ára gömul til Reykjavíkur til að hefja skólagöngu við Kvennaskólann í Reykjavík. Við vorum tvær sem leigðum saman herbergi við Flókagötu 1 þar sem við höfðum aðgang að eldhúsi og þvottahúsi ásamt fleiri leigjendum. Mér líkaði vel í höfuðborginni og hef hvergi annars staðar viljað búa allar götur síðan.

Ég var á leigumarkaði mörg fyrstu árin enda var ég með þá sannfæringu að ég ætlaði aldrei að eiga neitt. Ég veit ekki hvaðan þessi sannfæring kom en hún var mjög staðföst og hún varð til í mínu höfði. Þessi skoðun var mjög frábrugðin tíðarandanum og hún var sannarlega ekki í línu við afstöðu foreldra minna – langt í frá.

Við tölum um frumstæðan leigumarkað í Reykjavík núna en á þessum tíma var hann þó mun frumstæðari. Þeir sem leigðu út íbúðir voru tíðum einstaklingar sem sjálfir voru að koma sér fyrir á húsnæðismarkaði og leigðu út íbúðina í eitt ár til að safna fyrir útborgun. Trygging leigjanda var engin og viðhald á leiguíbúðum almennt ákaflega lélegt. Að líta svo á leigjendur hefðu „réttindi“ af einhverjum toga þekktist ekki. Leigjendur voru algjörlega upp á leigusala komnir og áttu engan rétt.

Sennilega hefur það verið 1985 sem ég var svo heppin að fá leigða litla 50 m 2 íbúð í Hamrahlíð gegn því að ég þreif efri hæðirnar fyrir eigendurna og borgaði því sanngjarna leigu. Þetta var eins og vinna í happdrætti og þarna bjó ég í sjö ár, eða þar til ég flutti til Akureyrar 1992 vegna slæmrar stöðu leikskólamála í Reykjavík.

Þegar ég hafði búið á fjórum stöðum meðan dóttir mín var enn á leikskólaldri sá ég að við svo búið mátti ekki standa. Ég varð að láta af sérviskunni og kaupa íbúð – dóttur minnar vegna. Með aðstoð foreldra minna og á þeim skilmálum að yngsta systir mín, sem þá var að hefja menntaskólagöngu í Reykjavík, fengi að búa hjá mér, varð það úr að ég keypti íbúð á Laugateigi í Reykjavík og í Laugarneshverfinu bjuggum við mæðgur tæpa tvo áratugi.

Á þessum tíma, fyrstu árin mín í Reykjavík og langt fram eftir, var ég bíllaus. Það var önnur sannfæring sem ég hafði. Ég ætlaði aldrei að eiga bíl. Þetta var líka algjörlega á skjön við tíðarandann og ég hef enn síður hugmynd um hvaðan þessi meining kom. En hún var sterk – mjög sterk.

Ég notaði strætó. Sem á þessum árum var á 15 mínútna fresti á daginn en hálftíma fresti eftir klukkan sjö ef ég man rétt. Síðar, á meðan ég enn tók strætó, var hann á 20 mínútna fresti á daginn.

Þegar ég var enn með dóttur mína á leikskóla – sem nota bene var á leikskóla allan daginn þegar hún loksins fékk leikskólavist þriggja og hálfs árs – hljóp ég iðulega frá Stakkaborg við Bólstaðarhlíð til að ná Strætó niðri á Laugavegi og stundum hinkruðu bílstjórarnir þar eftir mér ef þeir urðu varir við að ég var á harðahlaupum ekki langt undan.

Skemmst er frá því að segja að þessi sannfæring mín um bíllausan lífsstíl fékk að fjúka líka. Þegar ég loksins fór að keyra bíl í Reykjavík, orðin fertug, tók ég strax upp á því að keyra í vinnuna einhverja 500 m eða svo. Náttúrlega ekki fallegt til afspurnar en sannleikanum samkvæmt. Eftir að ég komst upp á lagið og lærði hversu þægilegt það er að komast á bíl á milli staða hef ég tekið upp þann ósið að keyra stuttar vegalengdir ef mér bíður svo við að horfa.

Þrjú systkina minna hins vegar eru mínar hetjur og fyrirmyndir þar sem þau nota rafhjól sem samgöngutæki allan ársins hring og skilja ekki hvernig fólk nennir að sitja fast í umferðarteppu tímunum saman á hverjum degi.

Ég hef búið í Reykjavík frá því áður en Davíð varð borgarstjóri. Ég var alin upp á mjög pólitísku heimili þar sem faðir minn og bræður hans kusu Framsóknarflokkinn. Ég fékk bullandi pólitískan áhuga í arf og fór að tjá mig um þau mál þegar ég var tíu ára ef mig misminnir ekki.

Fór þó ekki að tjá mig opinberlega um þau mál fyrr en 1992 þegar ég átti ár eftir í þrítugt, þá um leikskólamál. Mér var mjög misboðið yfir stöðu mála og skalf og titraði þegar ég afhenti greinina á Morgunblaðið árið 1991. Hún var reyndar ekki birt fyrr hálfu ári síðar, þegar ég var flutt til Akureyrar – einmitt vegna stöðu leikskólamála í Reykjavík.

Allar götur síðan hef ég tjáð mig um pólitík – hvort heldur munnlega eða með greinaskrifum. Í heimi viðskiptanna voru viðskiptavinir mínir margir hverjir Sjálfstæðismenn og þeir nutu þess að ræða við mig um pólitík. Í Viðskiptaháskólanum á Bifröst fór ég tjá mig opinberlega með því að birta greinar árið 2002 – fyrst á Bifrastarvefnum og í kjölfarið á vef sem svokallaðir „kremlverjar“
stóðu fyrir – hópur hægri krata sem áttu það sameiginlegt að hafa áhuga á að Íslendingar skoðuðu aðild að Evrópusambandinu. Í þessum hópi voru m.a. Aðalsteinn Leifsson, meðframbjóðandi minn til forystu í prófkjöri, og Svanborg Sigmarsdóttir framkvæmdastjóri Viðreisnar.

Í framhaldi af því tjáði ég mig af og til á síðum blaðanna um hin ýmsu mál. Nokkrar þessara greina hef ég nú tekið saman í myndaalbúm á Fésbókarsíðu minni sem allir geta kynnt sér . Sömu greinar og miklu, miklu fleiri er svo að finna á bloggsíðu minni https://signysigurdar.blogspot.com/ en ég stofnaði hana einhvern tíma á síðasta áratug til að taka saman allar mínar greinar á einum stað.

Ég byrjaði að blogga haustið 2008 þegar hrunið reið yfir og ég var dugleg að tjá mig allt árið 2009 og fram á árið 2010. Það ár missti ég starfið sem ég hafði sinnt af ástríðufullum áhuga um fjögurra ára skeið sem forstöðumaður flutningasviðs SVÞ. Ég er enn í dag stolt af framlagi mínu til samgöngumálaflokksins þessi fjögur ár og veit að þar vann ég mikið gagn.

Síðan eru liðin fimmtán ár. Á þeim árum hef ég séð um rekstur ShopUSA, unnið hjá Smyril Line Cargo við sölu á flutningum, ferðast ein til Asíu, starfað við launaútreikninga hjá Reykjavíkurborg og nú síðast er ég sölumaður á hugbúnaði hjá Reglu.

Síðustu ár hef ég verið mjög upptekin af því að sjá um aldraða foreldra mína, og þekki orðið vel það umhverfi sem aldraðir og fjölskykldur þeirra búa við. Ég er jafn pólitísk og ég hef alltaf verið – það breytist ekkert.

Með framboði mínu er ég að bjóða ykkur valkost. Get sagt að ég er forkur dugleg og vinn af heilindum að hverju því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég á erindi.

Í stöfum mínum hef ég nálgast mál með því að kynna mér þau í þaula og leita lausna. Sakbendingar hafa aldrei vakið áhuga minn. Ég nálgast ekki mál með því að vera með eða á móti. Ég er ekki talsmaður töfralausna. Ég held að töfralausnir séu ekki til í mannlegu samfélagi.

Af hverju er ég að segja ykkur þetta? Af því að ég held að okkur sé hollt að líta til baka. Það er hollt fyrir mig sem frambjóðanda að rifja upp hvernig það var að vera ung manneskja að koma undir sig fótunum. Ég man mjög vel hvað ég strax á þessum árum þráði greiðar almenningssamgöngur, að mér stæði til boða leiguhúsnæði þar sem ég greiddi sanngjarna leigu og gæti verið eins og lengi og mig lysti.Hvað ég þráði leikskólapláss fyrir dóttur mína allan daginn. Hvað ég þráði að geta haft áhrif til breytinga í þessari borg!

Tímarnir nú eru vissulega aðrir – en það sem breytist ekki í grundvallaratriðum eru þarfirnar. Fólk á mismunandi aldri hefur mismunandi þarfir.

Afstaða mín í grundvallaratriðum hefur ekki breyst. Ég vil enn að fólk hafi valkosti í húsnæðismálum, ég vil að fólki standi greiðar almenningssamgöngur til boða og ég vil að ungum foreldrum gefist kostur á heilsdags leikskólaplássi. Þetta eru grunnstefin mín. Ég vil líka að farið sé vel með opinbert fé og geðþótti í stjórnsýsluákvörðunum og fílabeinsturnar eru eitur í mínum beinum.

Ég vil leggja mitt af mörkum í þágu borgarbúa.

Höfundur er frambjóðandi í leiðtogakjöri Viðreisnar í Reykjavík